fbpx

haldinn 10. desember 2013 kl. 10:00 að Sigtúni 42

 

Mættir: Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (JVK), Haukur Ingibergsson (HI), Anna Lútherssdóttir (AL), Eyjólfur Eysteinsson (EE) og Ragnheiður Stephensen (RS).

 

JVK bauð fundarmenn velkomna og setti fund.

 

1. Fundargerð stjórnarfundar nr. 268

JVK lagði fram fundargerð 268 stjórnarfundar, sem haldinn var 5. nóvember og samþykkt var með tölvupóstsamskiptum fundarmanna.

 

2. Vinna formanns, stjórnar og framkvæmdastjóra

JVK lagði fram yfirlit um vinnu formanns, stjórnar og framkvæmdastjóra 1.11 – 5.12.

 

1. nóv. Jafnréttisþing. JVK mætir.

5. nóv. Stjórnarfundur LEB, aðalmenn og varamenn ásamt formönnum nefnda.

10. nóv. JVK sendir grein í Málefni aldraðra um: Brúum kynslóðabilið.

11. – 12.nóv. Unnið að umsögnum um þingmál. JVK.

12. nóv. Velferðarvaktin- fundur JVK mætir.

15. nóv. Heimsókn á fund hjá FEB-í Skeiða-og Gnúpverjahrepp. EE, HI, JVK með erindi.

15. nóv. Fundur í Alm.tr.nefnd. JVK mætir.

17-18. nóv. Unnið að umsögnum um þingmál. JVK.

20. nóv. Heimsókn á fund hjá FEB í Borgarfjarðardölum. HI og JVK með erindi.

20. nóv. Fundur með forsvarsmönnum Securitas sem hollvini. HI, EE, GSH.

21. nóv. Fundur í Velferðarnefnd Alþingis JVK, HI og EE mæta til að fylgja eftir umsögnum um þingmál.

21. nóv. Fundur hjá FEB-R. JVK og RS flytja erindi um velferðartækni og fund NSK í okt.

22. nóv. 25 ára afmælisfagnaður FEB í Kópavogi. JVK með ávarp.

25. nóv. Unnið að umsögnum um þingmál. JVK.

26. nóv. Fundur með Gylfa Arbjörnssyni forseta ASÍ um kjaramálaviðræður. JVK, HI og ÞSv.

26. nóv. Velferðarvaktin- fundur US mætir.

27. nóv. Stjórnarfundur í Öldrunarráði. JVK mætir.

27. nóv. Pétur Blöndal boðar til fundar um lífeyrismál og samræmt sjúkrakostnaðarkerfi í húsnæði ÖBÍ. JVK, HI, EE, ÞSv. mæta.

27. nóv. JVK í viðtal við Bylgjuna um veðlán eldri borgara o.fl.

29. nóv. Fundur í Alm.tr.nefnd VK mætir.

30 nóv. JVK sendir tilkynningu á heimasíðuna um framkvæmdastjóraskipti hjá LEB.

1.des. Heimsókn á fund hjá FEB í Borgarnesi. JVK,HI, EE og RS með erindi.

Afgreiðsla stjórnar: Lagt fram til kynningar.

 

3. Reglur um ritun, samþykkt og birtingu fundargerða

JVK lagði fram eftirfarandi tillögu að reglum um ritun, samþykkt og birtingu fundargerða funda stjórnar Landssambands eldri borgara:

 

Reglur

um ritun, samþykkt og birtingu fundargerða funda stjórnar Landssambands eldri borgara

  1. Á fundum stjórnar Landssambands eldri borgara skal rita fundargerð og ber ritari stjórnar ábyrgð á að svo sé gert.
  2. Í fundargerð skal tilgreina almenn atriði svo sem stað, stund, mætta og fjarstadda stjórnarmenn, gesti fundarins og annað er máli skiptir um framkvæmd fundarins.
  3. Í fundargerð skal greina frá dagskrárliðum fundarins með eftirgreindum hætti:

 

a)     Hver dagskrárliður skal númeraður 1., 2., 3. o.s.frv  í þeirri röð sem þeir koma á dagskrá fundarins og hverjum dagskrárlið gefin fyrirsögn.

b)    Greint skal frá framsögumanni/málshefjanda hvers dagskrárliðar og kjarna þess sem til umræðu er.

c)     Greina skal frá sem fram koma í umræðum að lokinni framsögu án þess að tilgreina hvað hver fundarmaður sagði.

d)    Óski fundarmaður eftir að skoðun eða afstaða viðkomandi komi fram undir dagskrárlið er honum heimilt að leggja fram bókun sem skráð skal í fundargerð.

e)     Greina skal frá afgreiðslu stjórnar á viðkomandi dagskrárlið.

 

  1. Fundargerð skal að jafnaði samþykkt og birt innan viku frá því að fundur er haldinn. Samþykkt og birting fundargerðar fari þannig fram:

a)     Ekki síðar en á þriðja degi eftir að fundur er haldinn skal senda tillögu að fundargerð í tölvupósti til stjórnarmanna er sátu viðkomandi fund.

b)    Ekki síðar en á fimmta degi eftir að fundur er haldinn skulu stjórnarmenn sem hafa athugasemdir við tillögu að fundargerð, koma þeim á framfæri. Berist ekki athugasemd frá stjórnarmanni í lok fimmta dags telst hann hafa samþykkt fundargerðina.

c)     Ekki síðar en á sjöunda degi eftir að fundur er haldinn skulu formaður, ritari og framkvæmdastjóri ganga frá fundargerðinni sem samþykktri.

d)    Útprentað eintak fundargerðar, undirritað af formanni, ritara og framkvæmdastjóra skal varðveitt í skjalasafni LEB.

e)     Þegar fundargerð hefur verið samþykkt skal birta hana á heimasíðu LEB og senda hana í tölvupósti til formanna aðildarfélaga LEB.

  1. Reglur þessar taka gildi við samþykkt í stjórn LEB.

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin samþykkti reglurnar.

 

4. Umsagnir um þingmál

JVK gerði grein fyrir umsögnum LEB um þingmál nr. 10 (bygging nýs Landspítala), nr. 19 (40 stunda vinnuvika, færsla frídaga að helgum) nr. 28 (forvarnastarf vegna krabbameins í blöðruhálskirtli) nr. 144 (almannatryggingar, málefni aldraðra og félagsleg aðstoð) og nr. 185 (málefni aldraðra, stjórn Framkvæmdasjóðs) sem Alþingi hefur að undanförnu boðið LEB að gefa umsagnir um. Drög að umsögnum voru sendar í tölvupósti stjórnarmönnum til skoðunar og athugasemda.

Afgreiðsla stjórnar: Engar athugasemdir komu fram við umsgnirnar.

 

5. Tilnefnding í samráðshóp um stefnu í nýsköpun og tækni í félagsþjónustu

Borist hefur boð frá Velferðarráðuneytinu um að LEB tilnefni fulltrúa í samráðshóp um stefnu í nýsköpun og tækni í félagsþjónustu.

Afgreiðsla stjórnar: Tilnefnd voru Ragnheiður Stephensen og Sverrir Vilbergsson.

 

6. Erindi frá Almannaheillum

Haldið var áfram umræðum frá síðasta fundi um boð Almannaheill um að LEB gangi í samtökin.

Afgreiðsla stjórnar: JVK og HI falið að ræða við fulltrúa Almannaheilla.

 

Á fundinn kom í boði stjórnar Grétar Snær Hjartarson sem lét af starfi framkvæmdastjóra LEB 30. nóvember. JVK þakkaði honum frábærlega vel unnin störf í þágu LEB bæði sem starfsmanni og stjórnarmanni og afhenti honum bók að gjöf frá LEB í tilefni þessara tímamóta.

 

7. Afsláttarbók

HI lagði fram yfirlit um útgáfu afsláttabókar fyrir félagsmenn aðildarfélaga LEB, fór yfir markmið með útgáfunni og undirbúning fyrir útgáfu hennar árið 2014.

Afgreiðsla stjórnar: Ákveðið að hafa útgáfuna í óbreyttu formi frá fyrra ári en taka til umræðu á formannafundi 2014 hvernig best megi ná fram auknum kaupmætti félagsmanna aðildarfélaga LEB með því að afla afslátta af verði vöru og þjónustu.

 

8. Formannafundur 2014

JVK ræddi um formannafund 2014 og lagði til að hann yrði haldinn þriðjudaginn 25. mars í Jónshúsi, félagsaðstöðu Félags eldri borgara í Garðabæ.

Afgreiðsla stjórnar: Tillagan var samþykkt.

 

9. 25 ára afmæli LEB 19. júní 2014

JVK minnti á að hinn 19. júní 2014 yrðu 25 ár liðin frá stofnun LEB og opnaði umræður um hvernig halda mætti upp á þau tímamót.

Afgreiðsla stjórnar: Ýmsar hugmyndir voru ræddar sem stjórnarmenn munu velta fyrir sér til næsta fundar.

 

10. Fundir um lífeyrismál og kjaramál

JVK gerði grein fyrir að samþykktir landsfundar LEB og kjaranefndar LEB hafi nýlega verið ræddar á fundi með Gylfa Arnbjörnssyni forseta ASÍ vegna komandi kjarasamninga. Einnig var gerði grein fyrir fundi með Pétri Blöndal formanni nefndar um samræmt sjúkrakostnaðarkerfi, sjá 2. dagskrárlið.

Afgreiðsla stjórnar: Lagt fram til upplýsingar

 

11. Uppbygging vettvangs fyrir aldraða á netinu

JVK og HI gerðu grein fyrir fundi með Ernu Indriðadóttur um hugmynd sem hún kynnti á 268. fundi stjórnar um uppbyggingu vettvangs fyrir aldraða á netinu þar á meðal með samstarfi við LEB t.d. varðandi efnisval og samnýtingu efnis um málefni aldraðra.

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin tók jákvætt í málið og felur JVK og HI að halda viðræðum áfram.

 

12. Breyting á RÚV – Rás 1

JVK lagði fram tillögu að svohljóðandi ályktun vegna niðurskurðar á RÚV:

 

Ályktun Landssambands eldri borgara um málefni RÚV

Eldri borgarar eru afar traustur hlustendahópur Rásar 1 og sá þjóðfélagshópur sem hlustar hvað mest á útvarp. Landssamband eldri borgara beinir því þeim eindregnu tilmælum til stjórnar RÚV og útvarpsstjóra að hin fjölbreytta og menningarlega dagskrá Rásar 1 sem margir af okkar félagsmönnum njóta að hlusta á verði ekki skert í þeirri lækkun kostnaðar sem stofnunin stendur nú frammi fyrir. Endurskoða ætti þá ákvörðun að segja upp reyndu og vinsælu dagskrárgerðarfólki á Rás eitt eða leggja störf þess niður. RÚV gegnir mikilvægu öryggis- fræðslu- og menningarhlutverki samkvæmt lögum og á að ná til allra landsmanna. Landssamband eldri borgara telur að það sé fyrst og fremst Rás eitt sem sinnir því hlutverki.

Samþykkt á stjórnarfundi LEB 10. desember 2013.

Afgreiðsla stjórnar: Ályktunin var samþykkt og verður send útvarpsstjóra og formanni stjórnar RÚV og einnig send fjölmiðlum.

 

13. Fundir með félögum eldri borgara

JVK gerði grein fyrir heimsóknum stjórnarmanna LEB til aðildarfélaga frá hausti til ársloka 2013. Í heimsóknunum voru haldnir félagsfundir þar sem stjórnarmenn LEB sögðu frá starfi og baráttumálum LEB, svöruðu spurningum fundarmanna auk þess sem forsvarsmenn viðkomandi félags sögðu frá starfsemi félagsins og aðstaða félagsins var skoðuð. Í öllum heimsóknunum voru móttökur höfðinglegar, frábærar veitingar bornar á borð og umræður voru í senn uppbyggilegar og líflegar. Á fundinum í Borgarnesi, sem jafnframt var jólafundur félagsins, voru fundarmenn meira að segja leystir út með jólagjöfum.

Þessi félög voru heimsótt: Félag eldri borgara á Norðfirði, Félag eldri borgara á Eskifirði, Félag eldri borgara á Reyðarfirði, Perlur, félag eldri borgara á Fáskrúðsfirði auk þess sem félagar frá nýstofnuðu félagi á Stöðvarfirði tóku þátt í dagskrá heimsóknarinnar, Félag eldri borgara á Fljótsdalshéraði, Félag eldri borgara í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, Félag eldri borgara í Borgarnesi og Félag aldraðra í Borgarfjarðardölum. Einnig var félag eldri borgara á Seyðisfirði heimsótt en þar er til umræðu að félagið gerist aðili að LEB.

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin telur heimsóknir til aðildarfélaganna vera afar mikilvægar til að auka skilning LEB á þörfum, aðstöðu og skoðunum aldraðra á viðkomandi svæði og til að kynna samtökin og ræða þau hagsmunamál aldraðra sem LEB berst fyrir á hverjum tíma. Leggur stjórnin áherslu á að slíkum heimsóknum verði haldið áfram árið 2014.

 

14. Önnur mál

a) EE og HI gerðu grein fyrir hollvinasamkomulagi sem LEB hefur gert við Securitas hf. og um samstarfi að þróun öryggismála og velferðartækni. Var samkomulagið m.a. þróað af EE og Kjartani Má Kjartanssyni framkvæmdastjóra Securitas á Reykjanesi. Að fundi stjórnar loknum mun stjórn LEB heimsækja höfuðstöðvar Securitas þar sem Jóna Valgerður Kristjánsdóttir formaður LEB og Guðmundur Arason forstjóri Securitas munu undirrita samkomulagið.

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin fagnar því skrefi sem þarna er stigið til að þróa málefni sem er mikilvægt fyrir eldra fólk svo það geti búið heima hjá sér lengur en ella við öryggi og rafræna aðstoð.

 

Næsti fundur er 4. febrúar kl. 10:00.

Fundi slitið kl. 13:30.

Fundargerð ritaði Haukur Ingibergsson.