Erlent samstarf

Öldrun, aukið langlífi og fjölgun aldraðra er eitt af mikilvægustu viðfangsefnum ríkja víða um heim, ekki síst í Evrópu. Íslensk stjórnvöld taka þátt í margvíslegu fjölþjóðlegu starfi á því sviði. Til að fylgjast með og taka þátt í hinni norrænu umræðu um öldrun og afleiðingar aukinnar öldrunar á Landssamband eldri borgara aðild að NSK, norrænni samstarfsnefnd átta landssambanda eldri borgara á norðurlöndum og er meginhlutverk nefndarinnar að verja og hafa áhrif á þróun norræna velferðarkerfisins. Landssamböndin eru:

  • Faglige Seniorer, Danmörk
  • Pensionstagärernas Centralförbund, Finland
  • Pensionärerna rf, Finland
  • Landsfelag Pensjonista, Færeyjar
  • Landssamband eldri borgara, Íslandi
  • Pensjonistforbundet, Noregur
  • Svenska Kommunal Pensionärernas Förbund, Svíþjóð
  • Pensionärernas Riksorganisation PRO, Svíþjóð

Norræna samstarfsnefndin, sem á ensku nefnist The Nordic Older People‘s Organisation (NOPO), á aðild að AGE Platform Europe, ásamt tæplega 150 öðrum heildarsamtökum. AGE er umsagnaraðili um mál sem eru til umræðu innan ESB og EES og er ábyrgt gagnvart framkvæmdastjórn ESB og Evrópuþinginu. Með þátttöku sinni í NSK hefur Landssamband eldri borgara því aðstöðu til að afla upplýsinga og fylgjast með því sem efst er á baugi í málefnum aldraðra í Evrópu. Árið 2014 ákvað stjórn LEB að tilnefna alþjóðafulltrúa sem hefði það hlutverk að fylgjast með og hafa yfirsýn yfir það Norðurlanda- og Evrópusamstarf sem LEB hefði hagsmuni af að tengjast eða taka þátt í. Alþjóðafulltrúi LEB er Birna Bjarnadóttir, birna.bjarnadottir@simnet.is, sími: 895 6500 en hún er einnig fulltrúi NSK í starfsnefndum AGE um heilbrigða öldrun og öldrun með virðingu.