Landsfundir / Landsfundur 2017

Landsfundur Landssambands eldri borgara 23-24 maí 2017

Skýrsla stjórnar

Stjórn Landssambands eldri borgara 2015-2017

Á landsfundi Landssambands eldri borgara sem haldinn var í Kópavogi 5-6 maí 2015 var Haukur Ingibergsson kjörinn formaður stjórnar og jafnframt kaus landsfundurinn aðalmenn í stjórn sem skiptu með sér verkum þannig að varaformaður var Sigríður J. Guðmundsdóttir, fomaður félags eldri borgara Selfossi, gjaldkeri var Ástbjörn Egilsson, formaður félags eldri borgara Garðabæ, ritari var Elísabet Valgeirsdóttir, stjórnarmaður í Félagi eldri borgara Hafnarfirði og meðstjórnandi var Guðrún María Harðardóttir, formaður félags eldri borgara í Borgarnesi. Varamenn voru kjörnir Sigurður Jónsson, formaður félags eldri borgara Suðurnesjum, Anna Sigrún Mikaelsdóttir, formaður félags eldri borgara Húsavík og Baldur Þór Baldvinsson, formaður félags eldri borgara Kópavogi. Hlutfall kynja í stjórninni var jafnt, fjórar konur og fjórir karlar, stjórnarmenn voru úr ýmsum landshlutum, allir stjórnarmenn nema tveir voru formenn sinna félaga og höfðu því puttann á púlsinum og voru í góðu sambandi við grasrótina. Á starfstíma sínum hélt stjórnin 16 stjórnarfundi sem jafnan hafa verið skipaðir aðal- og varamönnum og notuðu auk þess netlausnir svo sem tölvupóst í stjórnarstörfum. En starf landssambandsins fer ekki aðeins fram innan stjórnar sambandsins því það á aðild að margvíslegu starfi með öðrum aðilum og er þetta helst:

Samstarfsnefnd um málefni aldraðra

Ráðherra skipar fimm manna samstarfsnefnd um málefni aldraðra að loknum hverjum þingkosningum. Einn nefndarmaður er tilnefndur af Landssambandi eldri borgara, einn af Öldrunarráði Íslands, einn af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og tveir skipaðir án tilnefningar og er annar þeirra vera formaður. Samstarfsnefndin hefur annars vegar það hluverk að vera ráðherra og ríkisstjórn til ráðuneytis um málefni aldraðra og hins vegar að vera tengiliður milli ráðuneyta, stofnana og samtaka sem starfa að málefnum aldraðra. Síðastliðið haust skilaði nefndin tillögum til ráðherra um ýmis atriði svo sem um að almannatryggingakerfið yrði einfaldað, að réttindi aldraðra væru betur skilgreind, um mikilvægi heilsueflingar og virkni aldraðra, um rétt aldraðra til sjálfstæðrar búsetu og breytt greiðslufyrirkomulag á hjúkrunarheimilum, um mikilvægi nýsköpunar og tækni í þjónustu við aldraða, um gæðaviðmið í þjónustu við aldraða og eftirlit með gæðunum, um stöðugleika og aukna hæfni starfsfólks í öldrunarþjónustu, um aðgerðir vegna heilabilaðra, um upplýsingavef um öldrun og aldraða, um réttindagæslu aldraðra og að fækka gráum svæðum í þjónustu við aldraða. Haukur Ingibergsson hefur verið fulltrúi LEB í samstarfsnefndinni.

Framkvæmdasjóður aldraðra

Framkvæmdasjóður aldraðra starfar á grundvelli laga um málefni aldraðra. Sjóðurinn er fjármagnaður með sérstökum skatti á þá sem eru á aldrinum 16 – 70 ára. Sjóðnum er ætlað að stuðla að uppbyggingu og efla öldrunarþjónustu um allt land og skal fé úr honum varið til byggingar stofnana fyrir aldraða, þjónustumiðstöðva og dagvista, að mæta kostnaði við nauðsynlegar breytingar á slíku húsnæði og til viðhalds húsnæðis dagvistar-, dvalar- og hjúkrunarheimila, auk annarra verkefna sem stuðla að uppbyggingu öldrunarþjónustu. Því miður er sjóðurinn vanfjármagnaður og hefur ekki getað gegnt hlutverki sínu nema að hluta. Á þetta hefir landssambandið ítrekað bent og krafist úrbóta enda er vanmáttur sjóðsins skaðlegur og hefur leitt til þess að hjúkrunarrými eru mun færri en þörfin kallar á og valdur vanda við fráflæði af Landspítalanum og fleiri sjúkrahúsum. Eyjólfur Eysteinsson hefur verið fulltrúi LEB í stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra en nýlega var Sigurður Jónsson skipaður í hans stað.

Öldrunarráð Íslands

Landssamband eldri borgara er aðili að Öldrunarráði Íslands og hefur jafnan átt fulltrúa í stjórn þess. Aðilar að Öldrunarráði eru ýmsir sem láta sig málefni aldraðra varða svo sem heilbrigðisstofnanir, fagfélög og sveitarfélög. Markmið Öldrunarráðs er að vinna að málum til að bæta lífsgæði og stöðu aldraðra. Ráðið hefur haldið nokkrar ráðstefnur um afmarkaða þætti öldrunarmála og framtíðarþing um farsæla öldrun, meðal annars á Akureyri og Selfossi. Hefur afrakstur af þessu starfi meðal annars leitt til endurskoðunar í sveitarfélögum á framkvæmd öldrunarmála. Jóna Valgerður Kristjánsdóttir og síðar Haukur Ingibergsson hafa verið fulltrúar LEB í stjórn Öldrunarráðs Íslands.

Velferðarvaktin

Velferðarvaktin var sett á laggirnar í kjölfar bankahrunsins og hlutverk hennar var að fylgjast með félagslegum og fjárhagslegum afleiðingum efnahagshrunsins fyrir fjölskyldur og einstaklinga í landinu og gera tillögur um aðgerðir í þágu heimilanna varðandi velferð og afkomu efnalítilla fjölskyldna, auk þess að afla upplýsinga um aðstæður þeirra sem búa við sára fátækt svo draga megi úr henni. Aðilar að Velferðarvaktinni eru ýmis landssamtök og opinberir aðilar og þótt bankahrunið sé að baki ákváðu aðilar að Velferðarvaktinnni að halda samstarfi sínu áfram til að efla gagnkvæman skilning aðila, efla samstöðu þeirra og vinna að eflingu velferðarmála. Haukur Ingibergsson hefur verið fulltrúi LEB í Velferðarvaktinni.

Nefnd um endurskoðun á lögum um almannatryggingar

Nefnd undir formennsku Péturs heitins Blöndal alþingismanns og tryggingastærðfræðings, skipuð fulltúum allra helstu hagsmunaaðila starfaði um nokkurra missera skeið að endurskoðun á lögum um almannatryggingar. Eftir andlát Péturs stýrði Þorsteinn Sæmundsson alþingismaður starfi nefndarinnar. Á starfstíma nefndarinnar voru ýmsar undirnefndir og vinnuhópar skipaðir sem unnu að einstökum þáttum þessa flókna málefnis. Tillögur nefndarinnar voru færðar í frumvarpsform í Velferðarráðuneytinu og urðu að lögum á haustdögum 2016. Jóna Valgerður Kristjánsdóttir hefur verið fulltrúi LEB í nefndinni, undirnefndum og vinnuhópum tengdu nefndarstarfinu.

Starfshópur um breytt fyrirkomulag greiðsluþátttöku íbúa dvalar- og hjúkrunarheimila

Velferðarráðuneytið hefur skipað starfshóp um breytt fyrirkomulag á greiðsluþátttöku íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum en kynntar höfðu verið hugmyndir um breytt fyrirkomulag á greiðsluþátttöku með því að stefna að auknu sjálfræði aldraðra og afnámi svokallaðs vasapeningakerfis og að teknar verði upp sértækar greiðslur fyrir húsaleigu og annan kostnað sem fylgir heimilishaldi. Meðal annars var starfshópnum falið að útfæra og koma í framkvæmd tilraunaverkefni í samvinnu við eitt eða fleiri hjúkrunarheimili um nýtt fyrirkomulag um greiðsluþátttöku íbúa á dvalar og hjúkrunarheimilum. Ástbjörn Egilsson hefur verið fullrúi LEB í starfshópnum.

Starfshópur um félagsþjónustu sveitarfélaga

Starfshópur um endurskoðun laga um málefni fatlaðs fólks og laga um félagsþjónustu sveitarfélaga ofl. skilaði skýrslu sinni á síðasta ári en mikið hefur breyst á þeim rúmu 20 árum sem liðin eru síðan lög um félagsþjónustu sveitarfélaga voru sett. Í félagsþjónustulögunum er að finna öll helstu atriði sem marka hvernig sveitarfélög skuli haga félagsþjónustu sinni og hvaða rétt íbúinn hafi til að njóta þeirrar þjónustu. Með flutningi málefna fatlaðs fólks til sveitarstjórnarstigsins varð þessi löggjöf flóknari og fjölþættari en áður var. Tillögur starfshópsins eru nú til skoðunar í Velferðarráðuneytinu. Haukur Ingibergsson var fulltrúi LEB í starfshópnum.

Samráðshópur með Tryggingastofnun ríkisins

Reglubundið samstarf er með Tryggingastofnun ríkisins og Landssambandi eldri borgara enda eru ærnir hagsmunir bæði fyrir aldraða og stofnunina að gott samstarf sé á milli aðila. Á samráðsfundum er fjallað um ýmis mál sem lúta að þjónustu við eldri borgara, viðfangsefni sem efst eru á baugi og einnig hvernig breytingar á trygggingarkerfinu koma út þegar á því eru gerðar breytingar. Baldur Þór Baldvinsson og Elísabet Valgeirsdóttir eru fulltúar LEB í samráðshópnum.

Almannaheill – samtök þriðja geirans

Landssambandið er aðili að samtökunum almannaheill en það eru heildarsamtök félaga og sjálfseignarstofnanir, sem starfa að almannaheill og vinna að sameiginlegum hagsmunamálum slíkra aðila. Megin baráttumál samtakanna hefur verið að fá skattalögum breytt á þann hátt að almannaheillafélög og sjálfseignarstofnanir verði undanþegin erfðafjárskatti og að einstaklingum og lögaðilum verði heimilað að draga gjafir til félaga og samtaka sem starfa í almannaþágu frá tekjuskattstofni. Einnig hefur verið barist fyrir því að sett verði heildarlög um starfsemi frjálsra félagasamtaka og sjálfseignarstofnana, réttindi þeirra og skyldur og lá frumvarp fyrir hjá síðustu ríkisstjórn þess efnis. Haukur Ingibergsson hefur verið fulltrúi LEB í stjórn samtakanna.

Listin að lifa

Tímarit LEB, Listin að lifa, hefur komið út fjórum sinnum frá síðasta landsfundi og er fyrirkomulag útgáfunnar í hefðbundnu formi. Því miður virðist dreifing tímaritsins sífellt verða óöruggari, taka lengri tíma og vera kostnaðarsamari og virðist helst um að kenna að sífellt fækkar sendingum í árituðum pósti eftir því sem magn rafrænna póstsendinga eykst þannig að útburði virðist víða vera ábótavant. Í ritnefnd Listin að lifa voru Bryndís Steinþórsdóttir, Eyjólfur Eysteinsson, Grétar Snær Hjartarson, Haukur Ingibergsson, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir og Sigurður Jónsson en Jóhannes Bjarni Guðmundsson var ritstjóri.

Samtök landssambanda eldri borgara á norðurlöndum

Landssamband eldri borgara hefur um árabil verið aðili að samstarfsnefnd landssambanda eldri borgara á Norðurlöndum, skammstafað NSK á skandinaviskum málum en NOPO á ensku.

Hlutverk samstarfsins er að miðla þekkingu og reynslu um málefni aldraðra, ræða leiðir til að bæta hag þeirra, hvetja til upplýsingaöflunar og stuðla að ráðstefnuhaldi um helstu baráttumál.

Samstarfsnefndin er aðili að AGE-Platform sem er samstarfsvettvangur frjálsra félagasamtaka í Evrópu sem vinna með Evrópusambandinu að málefnum aldraðra. Aðilar að AGE-Platform tilnefna fulltrúa úr sínum röðum til starfa í sérfræðinefndum um mikilvæga málaflokka eins og heilbrigðismál, lífeyrismál og slysavarnir. Samstarfsnefndin heldur aðalfundi að vori og almennan fræðslufund að hausti. Í maí 2016 hélt samstarfsnefndin aðalfund sinn á Íslandi. Var hann haldinn í Reykjanesbæ og var hjúkrunarheimilið Nesvellir heimsótt auk þess sem Sigurður Jónsson kynnti starfsemi Félags eldri borgara á Suðurnesjum.

Birna Bjarnadóttir fyrrverandi formaður Landssamtaka heilbrigðisstofnana og heilsugæslustöðva og fyrrverandi stjórnarmaður í Félagi eldri borgara í Reykjavík og nágrenni hefur verið alþjóðafulltrúi LEB frá 2014 með það verkefni að sinna erlendum samskiptum, skýrslugjöf og upplýsingaöflun til samstarfsnefndarinnar og annarra erlendra samtaka eins og Sameinuðu þjóðanna. Eftir tilnefningu af hálfu NSK og umsóknarferli var hún sama ár samþykkt sem fulltrúi norrænu samstarfsnefndarinnar í starfshópum AGE-Platform um heilbrigði aldraðra, virðingu við aldraða og rannsóknaverkefni um Parkinson sjúkdóminn. Sérfræðingar NSK í nefndum AGE-Platform eru nú fimm, tveir frá Finnlandi, einn frá Svíþjóð, Færeyjum og Íslandi. Í stjórn AGE-Platform eiga sæti fulltrúi Svía sem er jafnframt formaður samstarfsnefndarinnar og varaformaður sem er Norðmaður.

Hlutverk Landssambands eldri borgara

Við eldri borgarar njótum engra réttinda, þjónustu eða aðstöðu umfram aðra landsmenn nema svo sé kveðið á um í lögum. Til þess að löggjöf sé okkur hagstæð er mikilvægt að þjóðfélagið sé í góðu jafnvægi. Það jafnvægi felst í mörgum þáttum svo sem að stjórnarfar sé traust, stjórnvöldum sé öldruðum velviljuð, efnahagsástand sé gott og að lýðræði og mannréttindi séu virt. Því fer fjarri að allar þjóðir heims búi við slíkt ástand. Og við fengum vissulega smjörþefinn af upplausnarástandi og óvissu þegar fjármálakerfi okkar féll fyrir tæpum áratug og einnig þegar Ísland var hernumið í síðari heimsstyrjöldinni sem foreldrar okkar margra upplifðu mjög sterkt.

Annað mikilvægt atriðið er að eldri borgarar njóti þjónustu sem uppfyllir þarfir aldurs okkar. Hver aldur hefur sínar þarfir. Sífellt hækkandi lífaldur og fjölgun ævidaga, sem óhjákvæmilega hefur einnig í för með sér minnkandi getu og dvínandi hæfni viðkomandi einstaklings, kallar á sífellt fjölbreyttara framboði á margskonar þjónustu fyrir hinn aldraða. Sú þjónusta er veitt af ýmsum aðilum svo sem ríkisstofnunum, sveitarfélögum og einkaaðilum. Þriðja atriðið er hin fjárhagslega afkoma og þar skiptir skipan lífeyrismála sköpum, en segja má að nútíma lífeyriskerfi fari fyrst að skjóta rótum á vestrænum löndum á árunum eftir síðari heimsstyrjöldina og hafi verið í uppbyggingu síðan. Við íslendingar höfum tekið þátt í þeirri þróun í félagsskap með öðrum norðurlöndum og góð samstaða hefur verið hér á landi um uppbyggingu velferðarhluta samfélagsins.

Hlutverk Landssambands eldri borgara er að vinna að hagsmuna-, velferðar- og áhugamálum aldraðra og koma fram fyrir hönd aðildarfélaganna gagnvart Alþingi, ríkisstjórn, stjórnvöldum og öðrum, sem sinna málefnum aldraðra fyrir landið í heild. Landssambandið vinnur einnig á sveitarstjórnarstiginu og hlutast til um að félög eldri borgara séu starfandi í öllum sveitarfélögum ásamt því að stuðla að samvinnu félaga eldri borgara, en aðildarfélög landssambandsins munu verða 55 talsins eftir að tvær aðildarumsóknir, frá félagi eldri borgara á Seltjarnarnesi og félaginu 60 plús í Laugardal, sem liggja fyrir landsfundi 2017, hafa verið samþykktar. Í könnun á högum og líðan aldraðra á Íslandi sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands vann fyrir Landssamband eldri borgara, Velferðarsvið Reykjavíkurborgar og Velferðarráðuneytið í nóvember og desember síðastliðnum kemur fram að 63% eldri borgara, eða nær því tveir af hverjum þremur eldri borgurum, er félagsmenn í einhverju þessara félaga eldri borgara. Þetta minnir okkur á hversu góðum árangri eldri borgara hafa náð á innan við þremur áratugum við að byggja upp öflugt félagskerfi í sveitarfélögum um allt land og byggja jafnframt upp landssamband sem gætir hagsmuna eldri borgara á landsvísu.

Sem varaformaður og síðar formaður hef ég á undanförnum árum heimsótt 51 af 55 aðildarfélögum landssambandsins. Þær heimsóknir hafa sannarlega verið gagnlegar og það hefur verið uppörfandi að sjá hversu fjölbreytt og kröftug starfsemi félaganna er. Og ég þakka ykkur kærlega fyrir góðar móttökur í þessum heimsóknum. Aðstaða og starfsemi félaganna er með mismunandi blæ og áherslum sem meðal annars fer eftir landfræðilegum aðstæðum, þéttbýli, strjálbýli, fjarlægðum og fjölda aldraðra. Félögin eiga undantekningalítið í góðu og nánu samstarfi við viðkomandi sveitarfélög um starfsemi sína. Þetta samstarf hefur orðið lykillinn að því hve sveitarfélögin hafa verið fús til að taka samstarfið á nýtt og formlegt stig innan vébanda öldungaráða, formlegs samstarfsvettvangs sveitarfélagsins og félags eða félaga eldri borgara.

Öldungaráð – formlegt samstarf félaga eldri borgara og sveitarstjórna

Sveitarfélögum ber að veita eldri borgurum margvíslega þjónustu. Á síðustu árum hefur landssambandið lagt áherslu á að byggja upp í hverju sveitarfélagi formlegan samráðsvettvang félags eða félaga eldri borgara í sveitarfélaginu og sveitarstjórnarinnar. Síðasta vetur kannaði Samband íslenskra sveitarfélaga hve mörg sveitarfélög hafa stofnað öldungaráð og hvernig fyrirkomulag þeirra ráða er. Og það er glæsilegt hve sveitarfélögin hafa tekið vel hugmyndinni um formlegt samstarf við félög eldri borgara á vettvangi öldungaráða. Og nú búa tæplega 90% landsmanna í sveitarfélögum þar sem Öldungaráð eru starfrækt. Þessi sveitarfélög eru Ísafjarðarbær, Reykhólahreppur, Borgarbyggð, Ásahreppur, Sveitarfélagið Árborg, Mosfellsbær, Akureyrarkaupstaður, Blönduósbær, Rangárþing ytra, Reykjanesbær, Seltjarnarnesbær, Hafnarfjarðarkaupstaður, Sandgerðisbær, Sveitarfélagið Ölfus, Hveragerðisbær, Reykjavíkurborg, Kópavogsbær, Rangárþing eystra, Grundarfjarðarbær, Sveitarfélagið Hornafjörður, Sveitarfélagið Garður, Dalabyggð, Djúpavogshreppur og Sveitarfélagið Vogar. Einnig kom fram í könnuninni að sveitarfélög sem stefni á að stofna öldungaráð séu Fjallabyggð, Hvalfjarðarsveit, Grindavíkurbær, Dalvíkurbyggð, Akraneskaupstaður, Stykkishólmsbær og Norðurþing.

En af hverju Öldungaráð? Jú vegna þess að hvert sveitarfélag er sjálfstætt stjórnvald og hefur margskonar skyldum að gegna gagnvart eldri borgurum en hefur einnig mikið vald til að ákveða hvort, hvernig og í hvað mæli þjónustu við eldri borgara er veitt. Þess vegna er mikilvægt fyrir öll félög eldri borgara að hafa formlegan samráðsvettvang við sveitarfélögin á félagssvæði sínu. Öldungaráðin eru að norrænni fyrirmynd. Það er aðeins hálfur áratugur síðan Jóna Valgerður Kristjánsdóttir fór að tala fyrir hugmyndinni um stofnun öldungaráða en hugmyndinni kynntist hún á sameiginlegum fundum landssambanda eldri borgara á Norðurlöndum. Og fljótt kom í ljós jákvæðni sveitarstjórnarmanna gagnvart þessu fyrirkomulagi. En þó sveitarfélög séu velviljuð, þarf tilvist öldungaráða að vera mörkuð í löggjöf og á síðasta ári náði Landssambandið og Samband íslenskra sveitarfélaga samstöðu í nefnd sem endurskoðaði lög um félagsþjónustu um að leggja til að í lögin bættist ný grein til að marka lögmæti Öldungaráða og er tillagan svohljóðandi:

„Í hverju sveitarfélagi, eða í fleira en einu sveitarfélagi sem eiga samstarf um öldrunarmál og þjónustu við aldraða, skal starfa formlegur samráðsvettvangur er nefnist öldungaráð, þar sem fjallað er um þjónustu við aldraða og framkvæmd og þróun öldrunarmála. Í öldungaráði skulu að lágmarki sitja þrír fulltrúar kosnir af sveitarstjórn að loknum sveitarstjórnarkosningum og þrír fulltrúar tilnefndir af félagi eldri borgara. Eigi tvö eða fleiri sveitarfélög samstarf um öldrunarþjónustu skulu viðkomandi sveitarfélög og félög eldri borgara á þjónustusvæðinu koma sér saman um samsetningu öldungaráðs.“ Til stóð að leggja tillögu um þessa lagabreytingu fram á síðasta þingi en vegna styttingar kjörtímabilsins varð ekki af því. En tillagan, ásamt mörgum öðrum breytingatillögum á félagsþjónustulögunum er tiltæk í velferðarráðuneytinu og vonandi aðeins tímaspursmál hvenær málið kemst aftur á dagskrá.

Þessi uppbygging öldungaráða er ekki aðeins mikilvæg vegna þeirrar margvíslegu þjónustu sem sveitarfélögum ber að veita eldri borgurum og þeim nýju möguleikum sem öldungaráðin veita FEB félögum til að hafa áhrif á öldrunarþjónustu sveitarfélagsins heldur einnig vegna þess að vísast verða fljótlega endurvaktar umræður sem voru í gangi fyrir svo sem áratug um að flytja til sveitarfélaga ýmis verkefni í öldrunarmálum sem nú eru á verksviði ríkisins. Öldungaráðin eru ný verkfæri sem félög eldri borgara hafa til að ræða milliliðalaust og á formlegan hátt við sveitarstjórnir um margvísleg hagsmunamál eldri borgara í viðkomandi sveitarfélagi. Mikilvægt er að nýta þennan vettvang á virkan og markvissan hátt eldri borgurum til hagsbóta.

Samstarf við Samband íslenskra sveitarfélaga

Á sama hátt og verið er að auka samvinnu félaga eldri borgara og viðkomandi sveitarfélags hefur landssambandið lagt áherslu á að byggja upp samstarf við Samband íslenskra sveitarfélaga. Annars vegar hafa forsvarsmenn Sambands íslenskra sveitarfélaga og Landssambands eldri borgara átt samráðsfundi, og hins vegar hafa fulltrúar þessara aðila í nefndum og vinnuhópum á vegum stjórnvalda átt með sér góða samvinnu. Á meðal umræðuefna á samráðsfundum hafa verið mál eins og breytingar á almannatryggingakerfinu, stöðu þeirra einstaklinga, þar á meðal eldri borgara, sem flytjast hingað til lands frá öðrum löndum, m.a. sem lið í fjölskyldusameiningum, og fyrir liggi að viðkomandi myndi einungis öðlast skertan eða engan rétt í almannatryggingakerfinu.

Rætt hefur verið um mögulega yfirfærslu á málefnum aldraðra frá ríki til sveitarfélaga, vinnu varðandi lífeyrisskuldbindingar hjúkrunarheimila og um atriði í rammasamningi sem skýrir margvíslega óvissuþætti í þjónustu hjúkrunarheimila, stefnumörkun sambandsins 2014 – 2018 um að hafa í forgangi að skoða heimahjúkrun og fleiri þjónustuþætti á forræði heilsugæslunnar og möguleika á að semja við hjúkrunarheimili um að annast jafnframt hjúkrun í heimahúsum til að tryggja betur samfellu og samþættingu í þjónustu. Aðilar telja að eftir að breytingar voru gerðar á færni- og heilsumat sé rétt að leggja niður þjónustuhóp aldraðra sem nú eru í lögum um málefni aldraðra.

Húsnæðismál hafa fengið töluverða umræðu og sérstaklega er horft til þess að tilkoma stofnframlaga ríkis og sveitarfélaga gæti gagnast við áætlanir um uppbyggingu þjónustuíbúða fyrir aldraða. Sveitarfélög hafa fengið aukið lögbundið hlutverk í húsnæðismálum og er m.a. falið að gera áætlanir um uppbyggingu til þess að mæta þörfum fyrir leiguhúsnæði og önnur úrræði. Ljóst er að mikil vöntun er á húsnæði, m.a. fyrir aldraða en vonir eru bundnar við að ný skipan húsnæðismála muni auðvelda sveitarfélögum og öðrum framkvæmdaraðilum að hefjast handa við uppbyggingu á fjölbreyttum úrræðum.

Rætt hefur verið um hvernig mögulegt sé að fækka í öldrunarþjónustunni svokölluðum gráum svæðum og óskýrri verkaskiptingu m.a. hvaða þjónustu sveitarfélög eigi að veita inni á hjúkrunarheimilum, möguleikum fólks yngra en 67 til þess að sækja dagvist og hvernig skerpa megi skilin skilin á milli félagslegrar heimaþjónustu annars vegar og heilbrigðisþjónustu hins vegar svo sem varðandi umönnun á heimili og heimahjúkrun.

Samstarf við Velferðarráðuneyti

Jafn mikilvægt og það er að félög eldri borgara á hverjum stað séu í góðum tengslum við sveitarfélögin er það hlutverk Landssamband eldri borgara að vera í góðum tengslum við stjórnvöld og þá einkum Velferðarráðuneytið sem fer með flest málefni eldri borgara eins og lífeyrismál, heilbrigðismál, félagsmál, vinnumarkaðsmál, húsnæðismál og jafnréttismál. Velferðarráðuneytið er ungt ráðuneyti sem tók formlega til starfa 2011 þegar heilbrigðisráðuneytið og félags- og tryggingamálaráðuneytið voru sameinuð. Stofnun ráðuneytisins hefur tvímælalaust styrkt og samhæft umfjöllun um málefni aldraðra, því í ráðuneytinu er fjölbreytt sérfræðiþekking á viðfangsefnum þess og ráðuneytið hefur mikinn slagkraft við ríkisstjórarborðið, á þingflokksfundum og í þingsal með sína tvo ráðherra.

Mikilvægt skref til að styrkja tengsl landssambandsins við stjórnvöld var stigið hinn 26. febrúar 2013 þegar Velferðarráðuneytið og Landssamband eldri borgara undirrituðu samning um starfsemi Landssambands eldri borgara og sem fól í sér nánari lýsingu á kröfum um þá þjónustu sem Landssamband eldri borgara léti í té og fjárhagslegum stuðningi ráðuneytisins við starfsemina. Þetta samkomulag var síðan uppfært 2014. Í samkomulaginu kemur meðal annars fram að landssambandið skuli m.a. vinna að hagsmunamálum eldri borgara og koma fram fyrir hönd aðildarfélaganna gagnvart stjórnvöldum með því að bæta upplýsingamiðlun til aldraðra, styrkja starfsemi skrifstofu LEB og bæta heimasíðu félagsins, veita stjórnvöldum ráðgjöf varðandi stefnumótun og áform um aðgerðir í þágu eldri borgara og veita stjórnvöldum umsagnir um lagafrumvörp eftir því sem við á, halda fræðslufundi eða námskeið í aðildarfélögum landsambandsins að jafnaði ekki sjaldnar en annað hvert ár í hverju félagi, veita ráðgjöf og aðstoð við að þróa og kynna möguleika velferðartækni í þágu eldri borgara og að miðla upplýsingum og fræðslu, meðal annars með útgáfu tímarits og rekstri heimasíðu. Jafnframt skuli Velferðarráðuneytið og Landssamband eldri borgara funda árlega um málefni eldri borgara almennt auk funda þegar þurfa þykir vegna málefna sem eru ofarlega á baugi. Þetta samkomulag hefur styrkt tengsl og aðgengi landssambandsins að ákvarðanatöku ráðuneytisins í málefnum aldraðra umtalsvert.

Umskipti í lífeyrismálum aldraðra

Um síðustu áramót urðu mikil umskipti til hins betra í lífeyrismálum aldraðra. Miðað við virk réttindi ellilífeyrisþega hjá almannatryggingum í maí 2017 hækkuðu heildargreiðslur Tryggingastofnunar ríkisins til ellilífeyrisþega úr 19,6 milljörðum króna (19.632 milljónum króna) fyrstu 5 mánuði ársins 2016 í 26,8 milljarða króna (26.766 milljónir króna) fyrstu 5 mánuði ársins 2017. Það er 36% hækkun þeirrar fjárhæðar sem rennur til ellilífeyrisþega frá almannatryggingum. Slík hækkun á bótum almannatrygginga á tímum þar sem árleg verðbólga er sáralítil hefur aldrei gerst áður. En þessar umbætur gerðust ekki af sjálfu sér. Barátta Landssambands eldri borgara fyrir bættum kjörum undanfarin ár, virk þátttaka landssambandsins í nefndum Árna Gunnarssonar og Péturs Blöndal um endurbætur á almannatryggingakerfinu, markviss uppbygging samstöðu með aðilum vinnumarkaðarins og síðast en ekki síst samtal og samvinna við alþingismenn og ráðherra gerði útslagið að af þessari breytingu varð. Og vissulega mátti ekki tæpara standa því breytingar á almannatryggingalöggjöfinni voru samþykkt í blálokin á síðasta kjörtímabili og allt fram á síðasta dag unnu öflug og áberandi öfl að því að koma í veg fyrir að alþingi samþykkti þessa kjarabót til okkar eldri borgara sem breytingin á almannatryggingum leiddi til.

Ályktanir landsfunda um almannatryggingarnar

Með breytingunum urðu tímamót í margra ára baráttu. Ekki er úr vegi í þessu samhengi að rifja upp samþykktir nokkurra undanfarinna landsfunda okkar um endurskoðun almannatrygginga.

  • Landsfundur í Stykkishólmi 2011 samþykkti áskorun til ríkisstjórnarinnar um að hraðað verði endurskoðun á lögum um almannatryggingar.

  • Landsfundur hér í Hafnarfirði 2013 skoraði á verðandi ríkisstjórn að taka til við að innleiða nýtt frumvarp um almannatryggingar sem ríkti mikil sátt um eftir kynningar eins og segir í samþykkt fundarins.

  • Landsfundur í Kópavogi 2015 skoraði á stjórnvöld að ljúka endurskoðun laga um almannatryggingar.

Og nú er þessari endurskoðun lokið og árangurinn fyrstu 5 mánuði ársins er ekki slakur hvað fjárhæðir snertir, 36% hækkun þeirrar fjárhæðar sem rennur til ellilífeyrisþega frá almannatryggingum nú í ár miðað við fyrstu 5 mánuði ársins í fyrra og fyrir allan þorra aldraðra hefur þetta leitt af sér búbót. Og þessi breyting hefur leitt af sér tilflutning fjármuna innan almannatryggingakerfisins þannig að fjármunir eru færðir til þeirra sem lakar standa fjárhagslega.

Allar svona breytingar hafa í sér fólgna kosti og galla. Og framundan blasir við það verkefni að fjölga kostunum og fækka göllunum. Meðal kostanna má telja að almannatryggingakerfið er einfaldað og gert skiljanlegra með því að fækka lífeyrisflokkum úr fjórum í tvo, það er grunnlífeyri og heimilisuppbót, í stað þess að vera með fjóra flokka sem höfðu margvísleg, lítt skiljanleg áhrif hver á annan. Meðal kostanna má líka telja að hafa fleiri valkosti við starfslok með því að opna á þann möguleika að vera í hálfu starfi og á hálfum lífeyri eða með því að heimila töku ellilífeyris frá 65 ára aldri eða fresta töku lífeyris til 80 ára aldurs en hvortveggja eru þetta kostir sem eftir á að útfæra. Eins má segja að með því að fækka frítekjumörkum úr þremur í eitt sé einföldun – en þá þarf líka frítekjumarkið að vera einhver alvöru fjárhæð sem munar um – en því er ekki að heilsa nú um stundir og kannski þyrfti að skoða frítekjumarkið frá grunni og endurhugsa eðli þess og tilgang. Alla vega er það mjög mikilvægt að hækka frítekjumarkið svo um muni.

Stefán Ólafsson prófessors og formanns stjórnar Tryggingastofnunar ríkisins lét nýlega þá skoðun í ljós í fjölmiðlum að skynsamlegt markmið nú væri að byrja á að hækka frítekjumark vegna atvinnutekna. Eftir umtalsverða hækkun ætti svo að halda áfram og stefna að algjöru afnámi allra skerðinga í almannatryggingum vegna atvinnutekna lífeyrisþega því ríkinu dugi alveg að fá skatttekjur af atvinnutekjum lífeyrisþega. Hann benti einnig á að þeir sem hafa allan sinn lífeyri úr lífeyrissjóðum hér á landi megi raunar vinna eins mikið með töku lífeyris og þeir vilja, án þess að lífeyrir þeirra skerðist nokkuð og það séu fyrst og fremst lífeyrisþegar með lægri tekjur og skert réttindi í lífeyrissjóðum sem séu fórnarlömb skerðinga á lífeyri almannatrygginga vegna atvinnutekna.

Góðir fundarmenn

Eins og fram kom í viðtali við mig í síðasta tölublaði Listin að lifa gef ég ekki kost á mér til áframhaldandi formennsku í Landssambandi eldri borgara. Ástæðan er sú að tvö megin baráttumála síðustu ára eru nú í höfn, breytt kerfi almannatrygginga er orðið að veruleika og öldungaráð hafa verið stofnuð í þorra sveitarfélaga. Þetta eru þau tvö verkefni sem ég og mín stjórn höfum sett í forgang og erum stolt af árangrinum. Landssambandið mun þurfa að takast á við nýjar áskoranir á næstu tveimur árum og rétt er að gefa nýju fólki tækifæri til að takast á við þær. Ég þakka ykkur öllum fyrir ánægjulegt samstarf, þakka ykkur fyrir góðar móttökur í heimsóknum og bið ykkur að lifa vel og lengi.

f.h. stjórnar LEB

Haukur Ingibergsson formaður LEB