Lög LEB
Lög Landssambands eldri borgara
Lög LEB eins og þau voru samþykkt á landsfundi LEB 09.05.2023
Lög Landssambands eldri borgara
1.gr. Heiti og heimili
1.1. Sambandið heitir Landssamband eldri borgara, skammstafað LEB.
1.2. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.
2.gr. Hlutverk og markmið
LEB er sjálfstætt starfandi landssamband félaga eldra fólks og hlutlaust gagnvart trú- og stjórnmálum.
Hlutverk LEB er að:
Vinna að því að á Íslandi sé gott að eldast.
Hafa forystu í hagsmunabaráttu eldri borgara á landsvísu.
Stuðla að áhrifum eldri borgara í samfélaginu og þeir séu hafðir með í ráðum við ákvarðanir um eigin kjör.
Efla samstöðu og samkennd meðal eldri borgara.
Hlutverk sitt rækir LEB með því að:
2.1. Tala fyrir og vinna að framgangi málefna eldri borgara á landsvísu við: Alþingi, ríkisstjórn, önnur stjórnvöld, hagsmunafélög og samtök vinnumarkaðarins, aðra sem kunna að skipta máli vegna hagsmuna eldri borgara.
2.2. Vinna að auknum skilningi og stuðningi annarra samfélagshópa við hagsmuni eldri borgara.
2.3. Vinna gegn aldursmismunun og allri annarri mismunun og stuðla að samvinnu fólks óháð uppruna.
2.4. Afla upplýsinga um aðstæður og kjör eldri borgara og miðla þeim til stjórnvalda, hagsmunafélaga og samtaka vinnumarkaðarinsog annarra þjóðfélagshópa.
2.5. Vinna að því að félög eldri borgara nái til allra landsmanna 60 ára og eldri.
2.6 Vinna og miðla fræðslu- og kynningarefni til aðildarfélaga.
2.7. Beita sér fyrir fræðslu og kynningarfundum varðandi málefni aldraðra.
2.8. Taka þátt í innlendu og erlendu samstarfi samkvæmt ákvörðun stjórnar.
3.gr. Aðild
3.1. Aðild að sambandinu geta átt félög fólks, sem er 60 ára og eldra og vinna að hagsmuna-, velferðar- og áhugamálum eldri borgara.
3.2. Þrátt fyrir aldursákvæði í 1. mgr. getur félag orðið aðili að LEB þó félagaaðild þess miðist við lægra aldursmark en réttindi og skyldur félagsins miðast við þá félagsmenn sem eru 60 ára og eldri.
3.3. Aðild nýrra félaga er háð samþykki landsfundar LEB en stjórn LEB getur veitt nýju félagi aukaaðild og rétt til þátttöku í starfsemi sambandsins án annarra réttinda fram að næsta landsfundi þar sem tillaga um aðild verður afgreidd. Umsókn nýrra félaga um aðild að LEB skal berast stjórn sambandsins eigi síðar en tveimur mánuðum fyrir reglulegan landsfund.
3.4. Lög hins nýja aðildarfélags skulu fylgja umsókn um aðild og uppfylla skilyrði sem kveðið er á um í lögum LEB.
3.5. Stjórn aðildarfélags getur óskað eftir úrsögn úr LEB með sannanlegum hætti með 6 mánaða fyrirvara og tekur úrsögn gildi við næstkomandi áramót.
3.6. Félagsmaður, sem á aðild að fleiri en einu aðildarfélagi LEB, skal eigi njóta kosningaréttar um málefni LEB eða við kjör trúnaðarmanna sambandsins nema sem fulltrúi eins félags á fundum LEB.
4.gr. Landsfundur
4.1. Landsfundur LEB fer með æðsta vald í málefnum sambandsins.
4.2. Landsfundur kemur saman ár hvert að vori til, samkvæmt nánari ákvörðun stjórnar.
4.3. Stjórn LEB skal senda boð um um landsfund og staðarval rafrænt til aðildarfélaga og kynna á heimasíðu sambandsins með minnst 6 vikna fyrirvara.
4.4. Stjórn sendi dagskrá landsfundar og tillögur sínar með rafrænum hætti 3 vikum fyrir landsfund.
4.5. Tillögur ásamt greinargerð, sem aðildarfélög eða fulltrúar hyggjast leggja fyrir landsfund, skulu sendar stjórn LEBa.m.k. 2 vikum fyrir fundinn.
4.6. Minnst tveimur mánuðum fyrir landsfund skal stjórn skipa fimm manna uppstillingarnefnd sem gerir tillögur um fulltrúa í þau embætti stjórnar, varastjórnar, skoðunarmanna og varaskoðunarmanna sem kjósa skal til á fundinum. Nefndin skal auglýsa á heimasíðu LEB eftir fólki í þau embætti sem kjósa skal til á komandi landsfundi. Einnig geta aðildarfélögin komið tilnefningum og/eða uppástungum á framfæri við nefndina.Tillögur nefndarinnar skulu liggja frammi á skrifstofu sambandsins og á heimasíðu LEB í minnst tvær vikur fyrir landsfund. Nefndin annast framkvæmd kosninga á landsfundi.
Þeir sem hyggjast bjóða sig fram til setu í stjórn LEB þurfa að tilkynna framboð sitt í síðasta lagi einni viku fyrir landsfund. Þeir geta sent upplýsingar um sig til skrifstofu en upplýsingarnar þurfa að hafa borist skrifstofu einni viku fyrir landsfund. Kynningarefni má að hámarki vera hálf blaðsíða A4 með Times New Roman 12.punkta letri auk myndar.
4.7. Minnst einum mánuði fyrir landsfund skal stjórn skipa þriggja manna kjörbréfanefnd. Nefndin yfirfer kjörbréf fyrir landsfundarfulltrúa og greinir frá niðurstöðu sinni á landsfundi.
4.8. Endurskoðaðir og áritaðir ársreikningar sambandsins ásamt skýrslu stjórnar skulu liggja frammi á skrifstofu sambandsins og á heimasíðu LEB í minnst eina viku fyrir landsfund.
4.9. Landsfundur er löglegur sé löglega til hans boðað.
5.gr. Fulltrúar á landsfund LEB
5.1. Hvert aðildarfélag velur fulltrúa til þess að sitja landsfund LEB.
5.2. Hvert aðildarfélag velur fulltrúa á landsfund þannig að fyrir 1 –300 félagsmenn fær félag tvo fulltrúa og síðan einn fulltrúa fyrir hverja 300 félagsmenn til viðbótar eða brot úr þeirri tölu.
5.3. Jafnframt kosningu fulltrúa á landsfund skal kjósa jafn marga varafulltrúa og raða þeim.
5.4. Formaður aðildarfélags tilkynnir hverjir eru landsfundarfulltrúar þess á þar til gerðu rafrænu eyðublaði frá skrifstofu LEB a.m.k. tveim vikum fyrir landsfund.
5.5. Auk kjörinna fulltrúa til þátttöku á landsfundi eiga sitjandi stjórnarmenn LEB og varamenn þeirra og formenn fastanefnda LEB seturétt á landsfundi.
5.6. Félagatal aðildarfélaga LEB skal miða við næstliðin áramót fyrir landsfund, enda hafi viðkomandi aðildarfélag staðið skil á greiðslu árgjalds til LEB í samræmi við það samkvæmt gr. 11.1.
5.7. Stjórn LEB getur krafist þess að skrá um atkvæðisbæra (skuldlausa) félaga fylgi kjörbréfum fulltrúa félags á landsfund, svo og kröfu um aukalandsfund samkvæmt 10. gr.
6.gr. Dagskrá landsfundar
6.1.
1. Kosning tveggja fundarstjóra og tveggja fundarritara.
2. Niðurstaða kjörbréfanefndar.
3. Skýrsla stjórnar um starfsemi sambandsins á liðnu starfsári.
4. Ársreikningur lagður fram til umræðna og afgreiðslu.
5. Starfs- og fjárhagsáætlun næsta starfsárs kynnt.
6. Ákvörðun árgjalds.
7. Tillögur um starfshópa fundarins.
8. Málefnastarf.
9. Samantekt starfshópa, afgreiðsla ályktana og tillagna.
10. Lagabreytingar.
11. Kosningar:
a) kosning formanns til tveggja ára.
b) kosning tveggja manna í stjórn til tveggja ára.
c) kosning þriggja varamanna til eins árs. Verði sjálfkjörið skal röð varamanna koma skýrt fram.
d) kosning tveggja skoðunarmanna ársreikninga LEB og tveggja til vara, allra til eins árs.
e) kosning nefnda sem starfa milli landsfunda.
12. Önnur mál.
6.2. Stjórn er heimilt að fjölga dagskrárliðum svo sem um afmörkuð hagsmunamál aldraðra og ávörp gesta.
6.3. Fundarstjórar og fundarritarar landsfundar ganga frá fundargerð landsfundar til stjórnar LEB, sem skal senda aðildarfélögum sambandsins fundargerðina innan mánaðar frá landsfundi.
6.4. Komi ekki fram athugasemd frá aðildarfélögum innan tveggja vikna þaðan í frá skoðast fundargerðin samþykkt og skal fundargerðin þá vera aðgengileg félagsmönnum á heimasíðu landsambandsins og með öðrum hætti.
7.gr. Stjórn LEB
7.1. Stjórn LEB fer með æðsta vald sambandsins og annast daglegan rekstur þess milli landsfunda. Hún er skipuð 5 mönnum, formanni kosnum annað hvert ár og á hverjum aðalfundi skal kjósa tvo menn til tveggja ára og þrjá varamenn til eins árs í stjórn.
7.2. Á fyrsta fundi eftir landsfund skal stjórn skipta með sér verkum og velja varaformann, ritara, og gjaldkera úr hópi aðalmanna.
7.3. Stjórn LEB skal kappkosta að miðla upplýsingum um verkefni sambandsins til aðildarfélaganna þannig að þau geti jafnan sem best fylgst með framgangi og stöðu þeirra mála sem hún vinnur að.
7.4. Stjórn LEB skal a.m.k. halda fjóra stjórnarfundi á almanaksári. Stjórnarfundir skulu boðaðir með viku fyrirvara.
7.5. Fundargerðir stjórnarfunda skulu færðar til bókar og staðfestar með undirritun formanns eftir samþykki stjórnar.
7.6. Stjórn ræður starfsfólk LEB og semur um laun þeirra og starfskjör.
7.7. Stjórn LEB skal ráða löggiltan endurskoðenda til eftirlits með reikningshaldi sambandsins.
7.8. Enginn stjórnarmaður skal sitja lengur en fjögur ár samfellt í stjórn LEB.
7.9. Sá sem kosinn er formaður getur þó setið fjögur ár í því embætti, enda þótt hann hafi áður setið í stjórn sem aðalmaður. Á sama hátt getur stjórnarmaður setið fjögur ár samfellt í stjórn þó hann hafi áður verið varamaður.
8.gr. Nefndir og ráð
8.1. Þær nefndir sem kosnar eru á landsfundum skulu starfa á ábyrgð stjórnar LEB
8.2. Stjórnin getur sett þeim starfslýsingar og tímaramma og kallað eftir skýrslum um störf þeirra hvenær sem er á skipunartíma þeirra.
8.3. Stjórn LEB, nefndir og ráð skulu ekki hafa með höndum félagslega starfsemi sem aðildarfélög þess sinna að jafnaði.
9.gr. Aukalandsfundir LEB
9.1. Krafa um boðun aukalandsfundar þarf að berast frá 1/3 hluta aðildarfélaga LEB með tilgreindum ástæðum og tillögum til stjórnar LEB.
9.2. Málefni sem teljast fullnægja kröfu um boðun aukalandsfundar eru málefni sem hafa veruleg áhrif til skerðingar á hagsmunum eldri borgara eða starfsemi LEB.
9.3. Aukalandsfundur skal kallaður saman með minnst tveggja vikna fyrirvara.
9.4. Fundurinn getur aðeins fjallað um þau málefni, sem voru tilefni þess að hann var boðaður, nema fundurinn samþykki annað með 2/3 greiddra atkvæða fulltrúa.
9.5. Hafi nýir fulltrúar ekki verið kosnir í félögum, skulu sömu fulltrúar (varafulltrúar) og á síðasta reglubundna landsfundi fara með umboð félags.
10 gr. Atkvæðagreiðslur og fundarsköp
10.1. Um stjórn funda LEB gilda almenn fundarsköp.
10.2. Meirihluti greiddra atkvæða ræður úrslitum við kosningar og afgreiðslu almennra mála á landsfundum og aukalandsfundum. Þó geta fimm aðildarfélög eða 8% þingfulltrúa hið minnsta óskað eftir að atkvæðavægi aðildarfélaga fari eftir félagafjölda hvers félags og ráði úrslitum í þeim málum sem varða verulegar fjárhagslegar skuldbindingar eða stefnumarkandi ákvarðanir. Um breytingar á lögum sambandsins fer þó samkvæmt 14. gr. og um sambandsslit samkvæmt 15. gr.
11.gr. Fjármál
11.1. Aðildarfélög LEB skulu greiða árgjöld til sambandsins af öllum félagsmönnum sínum m.v. síðustu áramót. Landsfundur ákveður upphæð árgjalds.
11.2. Stjórn LEB ber ábyrgð á fjármálum og öllum rekstri sambandsins.
11.3. Allar ákvarðanir um óregluleg útgjöld og fjárhagslegar skuldbindingar sambandsins skulu teknar á formlegum stjórnarfundum LEB.
11.4. Stjórn LEB skal leitast við að haga rekstri í samræmi við tekjur af félagsgjöldum, framlögum og styrkjum.
11.5. Reikningsár sambandsins er almanaksárið. Ársreikninga hvers árs skal leggja fram á stjórnarfundi á fyrsta ársfjórðungi nýs árs, áritaða af löggiltum endurskoðenda og skoðunarmönnum reikninga sambandsins.
11.6. Stjórn LEB ber að beita sér fyrir öflun styrktaraðila.
12.gr. Ferða- og dvalarkostnaður
12.1. Útlagður ferða- og dvalarkostnaður vegna fulltrúa á landsfundi greiðist allt að hálfu af LEB eftir athugun og ákvörðun stjórnar.
12.2. Ferða- og dvalarkostnaður fulltrúa í nefndum, sem starfa á vegum stjórnar LEB skal greiddur af sambandinu eftir athugun og ákvörðun stjórnar.
13. gr. Kynningar- og útgáfumál LEB
13.1. Stjórn LEB ber ábyrgð á kynningarmálum sambandsins.
13.2. Stjórnin metur eftir aðstæðum hvort kynningarmálum er sinnt á vefrænan hátt eða með útgáfustarfi.
14. gr. Lagabreytingar
14.1. Stjórn og/eða aðildarfélög geta lagt fram tillögur til lagabreytinga.
14.2. Tillögur til lagabreytinga skulu sannanlega hafa borist stjórn LEBmeð tveggja mánaða fyrirvara fyrir landsfund og er þá stjórn skylt að kynna þær aðildarfélögum í fundarboði og leggja þær fram á landsfundi.
14.3 Lögum þessum verður ekki breytt nema með samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða landsfundarfulltrúa.
15. gr. Sambandsslit
15.1.Tillaga um slit LEB skal kynnt stjórn LEB og aðildarfélögum með a.m.k. tveggja mánaða fyrirvara fyrir boðaðan landsfund.
15.2. Við afgreiðslu tillögunnar þarf samþykki ¾ hluta atkvæðisbærra fulltrúa á landsfundi.
15.3. Verði tillaga um slit LEB samþykkt á landsfundi skal stjórn LEB þá sitja áfram og boða til aukalandsfundar fjórum til sex mánuðum síðar til lokaafgreiðslu tillögu um slit sambandsins.
15.4.Verði tillaga um slit samþykkt á síðari landsfundi skal leggja niður starfsemi landssambandsins og skulu það vera lögleg félagsslit.
15.5. Verði LEB þannig löglega lagt niður skulu eigur þess renna til stofnunar, stofnana eða aðildarfélaga LEB sem stuðla að velferð aldraðra, eftir nánari ákvörðun aukalandsfundar sambandsins eða nefndar sem aukalandsfundur kýs til að ganga formlega frá félagsslitum.
16. gr. Gildistaka
16.1. Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt eru úr gildi fallin eldri lög LEB.
Lög LEB sem samþykk voru á landsfundi LEB sem haldinn var í Borgarnesi 09.05.2023.