Landssamband eldri borgara

LEB var stofnað á Akureyri 19. júní 1989 af 9 félögum eldri borgara víðs vegar að af landinu.

Nú eru félög eldri borgara 55 talsins, vítt og breitt um landið, með um 33.000 félagsmenn, sem eiga aðild að landssambandinu.
Aldurstakmark í einstök félög eldri borgara er 60 ára. Þegar einstaklingar gerast félagar í einhverju aðildarfélaginu eru þeir þar með orðnir félagar í LEB.

  • Vinnur að hagsmuna-, velferðar- og áhugamálum aldraðra og kemur fram fyrir hönd aðildarfélaganna gagnvart Alþingi, ríkisstjórn, stjórnvöldum og öðrum sem sinna málefnum aldraðra fyrir landið í heild.

  • Er sjálfstætt starfandi samtök sem gæta hlutleysis gagnvart trúmálum og stjórnmálaflokkum.

  • Stuðlar að samvinnu félaga eldri borgara og að slík félög séu starfandi í öllum sveitarfélögum landsins.

Algengast er að heilt sveitarfélag sé starfssvæði hvers félags eldri borgara en landfræðilegar aðstæður og afleiðingar sameiningar sveitarfélaga gera það að verkum að félög eldri borgara geta spannað fleiri en eitt sveitarfélag eða að fleiri en eitt félag eldri borgara starfar í sama sveitarfélaginu.

Ágrip af sögu Landssambands eldri borgara, 1989 – 2021

Þegar litið er til rúma 30 ára sögu Landssambands eldri borgara á Íslandi vekur það athygli hversu áhrifarík samtökin hafa verið fyrir aldurshópinn. Samvinna sambandsins og aðildarfélaganna hafa verið „traust og góð“ eins og skráð er í sögu elsta aðildarfélagsins, en slíkt samstarf er grundvöllur að velgengni. Þá hefur sambandið alltaf virt sjálfstæði aðildarfélaganna og mótað á þann hátt gagnkvæma virðingu fyrir samstarfi og ákvörðunum. Gætt hefur verið alls hlutleysis í stjórn- og trúmálum.

Formenn LEB frá upphafi

Aðalsteinn Óskarsson 1989 – 1991
Ólafur Jónsson 1991 – 1997
Benedikt Davíðsson 1997 – 2005
Helgi K. Hjálmsson 2005 – 2011
Jóna Valgerður Kristjánsdóttir 2011 – 2015
Haukur Ingibergsson 2015 – 2017
Þórunn Sveinbjörnsdóttir 2017 – 2021
Helgi Pétursson 2021 –

Árið 1989

Öll ár hafa gildi í starfi sambandsins en árið 1989 stendur upp úr í sögulegu samhengi þess þegar horft er til þeirra þátta sem litu að starfsemi eldri borgara á Íslandi. Lög um málefni aldraðra sem sett voru árið 1982 heyrðu undir heilbrigðis-og tryggingarmálaráðherra voru í endurskoðun samkvæmt endurskoðunarákvæði laganna. Markmið þeirra var meðal annars „að aldraðir eigi völ á þeirri heilbrigðis- og félagslegu þjónustu sem þeir þurfa á að halda og að hún sé veitt á því þjónustustigi sem er eðlilegast og hagkvæmast miðað við þörf og ástand hins aldraða“. Lögin voru búin að vera um mánaðaskeið í endurskoðun en það bar að fara yfir þau á 5 ára fresti. Sá langi tími sem nýttur var til að yfirfara lögin byggðist á reynslu hinna ýmsu ákvæða í lögunum frá 1982. Vinnan tók tíma en var til fyrirmyndar og mikilla hagræðingar og hagsbóta fyrir eldri borgara í landinu. Meðal þeirra breytinga sem fylgdu lögunum sem voru nr. 82/1989 var að heimaþjónustan færðist alfarið yfir á sveitarfélögin, efld Heilsugæsla í heimabyggð og framkvæmdasjóð aldraðra var þar tryggður fastur tekjupóstur. Lögin voru samþykkt 1. júní 1989.

Aðdragandi og stofnun

Stofnun að Landssambandinu var lagður grunnur á ráðstefnu sem haldin var í Reykjavík laugardaginn 29. apríl 1989. Þá þegar höfðu félög eldri borgara hafið starfsemi í mörgum sveitarfélögum svo að á þeim tímapunkti sem um ræðir var komið að frekari samheldni meðal félaga. Norrænt samstarf var fyrirmyndin en nokkrir félagsmenn höfðu verið í góðu sambandi við Norrænu samvinnunefndina sem eru samtök eftirlaunafólks á Norðurlöndum. Frá stofnun Landssambandsins hefur það verið aðili að samvinnunefndinni og átt þar í góðum samskiptum.

Það var bjart og hlýtt veður sem tók á móti á fjórða tug fulltrúa frá hinum ýmsu félögum sem kenndu sig við aldraða þegar þeir mættu norður á Akureyri til að stofna Landssamband aldraðra mánudaginn 19. júní 1989. Undirbúningur að stofnuninni hafði verið vel kynntur í félögunum. Stofnfundinn sátu 30 fulltrúar frá 9 sveitarfélögum auk 6 áheyrnarfulltrúa.

Markmiðið með stofnun Landssambands var „fyrst og fremst að vinna að bættum hag eldri borgara“ sagði Aðalsteinn Óskarsson fyrsti formaður Landssambands aldraðra við stofnun þess.

Í lögunum segir að sambandið skuli vinna að hagsmunum aldraðra og koma fram fyrir hönd aðildarfélaga gagnvart Alþingi, ríkisstjórn og öðrum sem hafa með málefni aldraðra að gera.

Stofnfundurinn

Á stofnfundinum sem haldinn var á Hótel KEA, var lögð fram áskorun til heilbrigðisráðherra vegna uppbyggingu sjúkrahúsa. Þá var fagnað endurskoðun laga nr.82/1989 um málefni aldraðra. Ellilífeyririnn var ofarlega í huga manna eins og nú og lagði fundurinn áherslu á hækkun hans sem og að athugun skyldi fara fram á framtíðartengingu á greiðslum frá almannatryggingum og lífeyrissjóðum.

Í drögum að lögum Landssambandsins sem lögð voru fram á fundinum, hljóðaði 2. gr. svo: Aðild að samtökunum eiga félög fólks sem er orðið 60 ára og eldri og sem ætla að vinna að almennum hagsmunum félaganna svo og tómstundamálum þeirra, þó eigi fleiri en eitt félag í hverju sveitarfélagi.

Miklar og heitar umræður urðu á stofnfundinum um þennan lið laganna þar sem í Reykjavík voru starfandi tvö félög, Samtök aldraðra og Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni.

Var því borin upp breytingartillaga við 2. grein í lagadrögum Landssambandsins þess efnis að greinin stæði nema bætt yrði við hana „nema landsfundur samþykki annað“. Ef breytingartillagan yrði samþykkt væri hægt að kjósa á fundinum um að bæði félögin frá Reykjavík mættu starfa innan sambandsins en tillagan var felld.

Lagadrögin höfðu fyrir stofnfundinn verið lögð fyrir formenn aðildarfélaganna og fengið samþykki sitt þar. Samtökum aldraðra var ekki ætlað að vera með nema þá að ganga til liðs við félagið í Reykjavík en það félag átti fulltrúa á fundinum en samtök aldraðra ekki.

Hans Jörgensson sem var formaður Samtaka aldraðra í Reykjavík gekk út af stofnfundinum þar sem hann var ekki kjörinn fulltrúi. Hann óskaði jafnframt „samstarfi fyrir málefnum aldraðra góðs gengis“. Hann skrifaði síðan grein í blöðin vegna málsins sem Bergsteinn Sigurðarson formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrennis, svaraði.

Í fyrstu stjórn Landssambandsins áttu sæti: Aðalsteinn Óskarsson formaður en hann kom frá Akureyri, Adda Bára Sigfúsdóttur Reykjavík, Guðrún Þór Kópavogi, Einar Albertsson Siglufirði og Sveinn Guðmundsson Akranesi.

Formennirnir og starfsemin

Aðalsteinn Óskarsson, var formaður til ársins 1991 en þá tók við Ólafur Jónsson sem sinnti formennsku til ársins 1997. Benedikt Davíðsson gegndi starfi formanns til ársins 2005, þegar Helgi K. Hjálmsson tók við og var formaður til ársins2011. Jóna Valgerður Kristjánsdóttir tók við formennsku árið 2011 og er jafnframt fyrsta konan til að gegna formennsku Landssambandsins. Jóna Valgerður var formaður til ársins 2015 en þá tók Haukur Ingibergsson við. Þórunn Sveinbjörnsdóttir tók við formennsku 2017 og gengdi embættinu til ársins 2021. Núverandi formaður er Helgi Pétursson en hann var kosinn á Landsfundi LEB 2021.

Í dag eru aðildarfélögin 55.

Það vekur athygli þegar saga Landssambandsins er skoðuð hvað sambandinu hefur tekist vel til í samvinnu við Alþingi og opinberar stofnanir að bæta um betur hag og þá velferð eldri borgara í landinu. Frá upphafi hefur Landssambandið komið að ýmsum starfshópum, samstarfsnefndum þar sem tekin hafa verið fyrir almenn málefni aldraðra, uppbygging hjúkrunarheimila, Landsspítala, fjölskyldumál, lífeyrismál og stöðu almannatrygginga. Lög hafa tekið breytingum til hins betra sem heyra undir málaflokkinn og má segja að þar hafi afrakstur umsagna Landssambandsins um frumvörp frá Alþingi þar sem velferð eldri borgara koma til, haft mikil áhrif. Unnið er að einföldun og samræmingu laga um eldra fólk.

Afnám tekjutenginga hjóna hjá Tryggingastofnun var mikið hagsmunamál fyrir eldri borgara. Landssambandið átti aðkomu að því að leiðrétta það óréttlæti sem sú tekjutenging olli.

Þá hefur verið unnið að mörgum verkefnum innan Landssambandsins meðal annars til upplýsinga og frekari fróðleiks um tölvulæsi, velferðartækni,umhverfismál, akstur á efri árum og fleira til varnar einangrun og einmannaleika sem kemur velferð einstaklinga við hvort heldur þeir búa einir eða í sambúð.

Öldungaráð eru nú orðin að veruleika innan sveitarfélaganna. Þau eru tilkomin meðal annars fyrir tilstuðlan Landssambandsins en fyrirmyndin kemur frá Norðurlöndunum. Í norræna samstarfinu kom fram að á Norðurlöndum væru starfandi öldungaráð í sveitarfélögum og gefist vel. Ráðin eru og eiga eftir að efla velferð eldri borgara enn frekar í því nærumhverfi sem sveitarfélögin eru.

Þá hafa frá árinu 1997 verið gefin út ritin Listin að lifa og nú síðustu ár Leb blaðið. Vandað hefur verið til ritanna sem hafa verið félagsmönnum upplýsandi og skemmtileg. Með tækniþróun og nýrri kynslóð eldri borgara hafa upplýsingar- og kynningarmál meira færst yfir á tölvutækt form eins og með tilkomu heimasíðunnar leb.is og Facebook.

Landssambandið hefur staðið fyrir ráðstefnum og fundum þar sem brýn hagsmunamál eldri borgara sem efst eru á baugi hverju sinni hafa verið tekin til umræðu.

Grái herinn sem upphaflega var stofnaður sem deild innan Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni er nú orðinn baráttuhópur innan Landssambands eldri borgara. Þar berst hann fyrir mannsæmandi kjörum og virðingu allra.

Lokaorð

Landssamband eldri borgara hefur komið víða við í störfum sínum og staðfest með tilveru sinni og með aðildarfélögunum hversu mikilvægt hlutverk þess er innan samfélagsins. Það hefur mótað söguna með starfi sínu í rúm 30 ár. Þá er það sambandinu og öllu starfi þess fyrir málaflokkinn ómetanlegt hversu áhugasamir og öflugir einstaklingar hafa valist til forystu og fylgt eftir þeim málum sem brunnið hafa á eldra fólki á hverjum tíma.

Og sagan heldur áfram að verða til. Landssamband eldri borgara er á besta aldri og ætlar að standa vaktina þar til allt eldra fólk á Íslandi getur lifað dagana með reisn og þeirri virðingu sem því ber.

Hagsmunir þeirra eru í forgrunni.

Valgerður Sigurðardóttir sagnfræðingur

Formaður Félags eldri borgara í Hafnarfirði