Áhyggjulaust ævikvöld ?
Eftir Hauk Ingibergsson formann Landssambands eldri borgaraGóður aðbúnaður á lokaskeiði lífsins er einkenni þroskaðs samfélags þannig að ævikvöldið sé öldruðum farsælt. Uppbygging og rekstur hjúkrunarheimila er eitt af mikilvægustu hagsmunamálum aldraðra sem Landssamband eldri borgara berst fyrir. Aukið langlífi og fjölgun aldraðra mun hafa í för með sér síauknar kröfur um að þessum málaflokki sé vel sinnt af ríki, sveitarfélögum og rekstraraðilum slíkrar þjónustu.Til að hjúkrunarheimili séu traustsins verð er mikilvægt að þjónustan sé framkvæmd samkvæmt viðurkenndum stöðlum um hjúkrun aldraðra og að fjármögnun sé trygg. Landssamband eldri borgara hefur lagt mikla áherslu á að hjúkrunarheimili starfi samkvæmt þjónustusamningi þar sem fram komi hvaða þjónusta sé þar veitt. Þjónustusamningur auðveldar notendum og aðstandendum þeirra að gera sér grein fyrir hvers er að vænta varðandi þjónustuna og er auk þess málefnalegur grundvöllur samninga um fjármögnunar starfseminnar.Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um rekstur og fjárhagsstöðu hjúkrunarheimila, sem gefin var út í nóvember 2014 er bent á að þörf íbúa fyrir umönnun og hjúkrun sé mjög mismunandi eftir heimilum og að þjónusta heimilanna við íbúa sé talsvert mismunandi. Minni heimilin bjóði almennt ekki upp á sérhæfða þjónustu eins og sjúkra- og iðjuþjálfun. Þá sé talsverður munur á húsnæði og öðrum aðbúnaði. Einnig kemur fram að hjúkrunarheimilin vanti einn til einn og hálfan milljarð til viðbótar frá ríkinu til að endar nái saman og hafa Samtöka fyrirtækja í velferðarþjónustu tekið undir það.Stjórnvöld og Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu áttu á liðnu ári í viðræðum um fjárhagslegar og faglegar umbætur í rekstri hjúkrunarheimila þannig að ekki komi til þess að þjónustan verði skert, færri einstaklingum sinnt og biðlistar lengist. Landssamband eldri borgara leggur mikla áherslu á að niðurstaða náist í þessum viðræðum. Aðeins með því móti er hægt að vinna að því að öldrun á Íslandi sé farsæl og ævikvöldið áhyggjulítið.