Allt um þjónustu við eldra fólk í Reykjavík
Reykjavíkurborg veitir eldra fólki margvíslega þjónustu og stuðning. Í nýjum rafrænum bæklingi er farið yfir þá þjónustu lið fyrir lið og sagt frá því hvernig er best að nálgast hana.
Meðal annars er sagt frá því fjölbreytta félagsstarfi og heilsueflingu sem boðið er upp á í félagsmiðstöðvum borgarinnar og hvar í borginni þær er að finna. Einnig eru í bæklingnum upplýsingar um söfn og menningarhús borgarinnar en fólki eldra en 67 ára býðst að kaupa menningarkort sem gildir í öll söfnin fyrir 1.800 krónur á ári.Smelltu hér til að skoða bæklinginn.Í bæklingnum eru að auki upplýsingar um ýmsan stuðning sem fólk getur fengið heim til sín. Það getur meðal annars verið heimastuðningur (áður félagsleg heimaþjónusta), matarþjónusta, akstursþjónusta og fjölbreytt ráðgjöf. Einnig heimahjúkrun en undir hana fellur meðal annars þjónusta teymisins SELMA. Í því teymi eru hjúkrunarfræðingar frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar og læknar af Læknavaktinni sem fara heim til fólks sem fær heimahjúkrun en kemst ekki til mats og meðferðar á heilsugæslu eða göngudeildum Landspítalans.Fjallað er um þjónustuíbúðir, dagdvalir og hjúkrunarheimili borgarinnar og sagt frá Öldungaráði Reykjavíkurborgar, sem er virkur þátttakandi í allri stefnumörkun málaflokks 67 ára og eldri. Að lokum eru heimilisföng, símanúmer og hlekkir á ýmsa áhugaverða og gagnlega þjónustu sem nýst geta eldra fólki í Reykjavík.Hingað til hefur bæklingurinn verið prentaður og sendur heim til allra þeirra sem verða 75 ára á árinu. Í nafni umhverfisverndar hefur verið ákveðið að bæklingurinn verði framvegis rafrænn en hann verður eftir sem áður uppfærður árlega og aðgengilegur á vef Reykjavíkurborgar.