Ályktanir Landsfundar 2017

Ályktanir frá Landsfundi LEB birtast hér á síðunni en þó vantar ályktun frá laganefnd sem bætt verður inn um leið og hún berst. Ályktanirnar er einnig að finna undir hnappnum "Fundargerðir" Landsfundur Landssambands eldri borgara 23. – 24. maí 2017.Ályktun um Kjaramál Landsfundur Landssambands eldri borgara haldinn 23. – 24. maí 2017 krefst þess að lög um almannatryggingar verði endurskoðuð þannig að frítekjumark eldri borgara verði afnumið nú þegar. Skattar til samfélagsins eiga að fara eftir tekjum fólks, en ekki eftir aldri. Landsfundurinn telur að það stangist á við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að beita sérstökum skatti á fólk sem hefur náð ákveðnum aldri. Jaðarskattar á eldra fólk, afli það sér viðbótartekna, geta í dag numið allt að 73%. Það er óviðunandi að Tryggingarstofnun lækki greiðslur til eftirlaunafólks afli það sér viðbótartekna, afleiðing þessa er að fjölmargum í þessum aldurshópi er haldið í fátæktargildru og hvatinn til að vinna hverfur. Þessi staða hvetur til þess að launamenn færi sig inn í svarta hagkerfið. Landsfundurinn krefst þess að staðið verði við ákvæði lágmarkslauna hvað varðar lágmarkskjör aldraðra. Í skýrslu um fjölþjóðlega rannsókn á vegum OECD kemur fram að íslenska lífeyriskerfið sker sig úr með mikilli tekjutengingu lífeyris úr almannatryggingum, jafnframt er Ísland eina landið þar sem lífeyrir frá Tryggingastofnun fellur niður ef tekjur frá lífeyrissjóðum fara yfir tiltekin mörk. Draga þarf úr þessum skerðingum hið fyrsta og taka upp eðlilegan grunnlífeyri fyrir alla. Fundurinn bendir á að Íslendingum sé einum þjóða í Evrópu gert að búa við skertan grunnlífeyri. Landsfundurinn telur að skoða eigi til hlítar hvort höfða megi mál gegn ríkinu og fá þar úr því skorið hvort ákvarðanir Alþingis um að skerða tekjur eldra fólks sem hefur áunnið sér réttindi í lífeyrissjóði standist eignarréttarákvæði Stjórnarskrárinnar. Landsfundurinn telur að samtök eldri borgara eigi að taka upp formlegt samstarf við samtök launamanna til að berjast fyrir bættum kjörum aldraðra í landinu. Hækkanir á ýmsum þjónustugjöldum aldraðra og sjúkragjöld verði endurskoðuð til lækkunar. Fundurinn krefst þess að virðisaukaskattur á lyf verði felldur niður auk þess að niðurgreiðslur vegna tannlækninga og hjálpartækja verði stórauknar. Landsfundurinn krefst þess að persónuafsláttur verði hækkaður þannig að hann fylgi hækkunum launavísitölu frá árinu 1988. Síðan verði tryggt að persónuafsláttur hækki árlega í samræmi við launavístölu. Landsfundur Landssambands eldri borgara 23. – 24. maí 2017.Ályktun um félags- og velferðarmál

  1. Landsfundurinn leggur áherslu á að réttindagæsla fyrir aldraða verði hluti af félagsþjónustu sveitarfélaga. Knýjandi nauðsyn er að til sé aðili sem aldrað fólk og aðstandendur geti leitað til með spurningar varðandi ýmis réttindamál og mál sem koma upp í samskiptum við þjónustuaðila. Jafnframt minnir landsfundurinn á fyrri samþykktir um Umboðsmann aldraðra.
  1. Landsfundurinn fagnar þeim árangri sem náðst hefur við stofnun Öldungaráða í mörgum sveitarfélögum landsins. Öldungaráðin eru mjög góður vettvangur til að tryggja samskipti eldri borgara við ráðamenn sveitarfélaga. Skipan Öldungaráða er góð leið til að tryggja að málefni eldri borgara komist á dagskrá sveitarstjórna.
  2. Landsfundurinn vill að aldraðir sem komnir eru með gilt Færni- og heilsumat eigi völ á að fá notendastýrða persónulega aðstoð í heimahúsum og geti valið um að vera heima eða að fara á hjúkrunarheimili.
  3. Landsfundurinn hvetur til þess að áfram verði unnið að því að færa málefni aldraðra til sveitarfélaga að því tilskildu að fjármagn fylgi.
  4. Landsfundurinn gerir þá kröfu að unnið sé eftir viðurkenndum manneldismarkmiðum og hollustu í fæðuvali á hjúkrunarheimilum, þjónustumiðstöðvum og heimsendum máltíðum.
  5. Landsfundurinn fagnar áframhaldandi starfi Velferðarvaktarinnar og góðrar samvinnu sem þar hefur tekist með ýmsum ólíkum félagasamtökum um að styrkja velferð aldraðra. Flestar af tillögum Velferðarvaktarinnar snerta hagsmuni eldri borgara sem mikilvægt er að hrinda í framkvæmd svo sem að lágmarksviðmið til framfærslu verði skilgreind, fjárhagsleg staða leigjenda, búseturéttarhafa og eigenda íbúða sé jöfnuð og grunnþjónusta sé gjaldfrjáls.
  6. Landsfundurinn leggur áherslu á að málefni eldri borgara séu ávallt uppi á borði í sveitarstjórnum landsins. Nauðsynlegt er að fulltrúar eldri borgara komi meira að ákvörðunum sveitarstjórna en nú er. Landsfundurinn skorar því á eldri borgara að berjast fyrir því að rödd þeirra heyrist í sveitarstjórnum landsins. Besta leiðin til þess er að eldri borgari skipi eitt af efstu sætunum á framboðslistum sveitarfélaganna. Stefnum að því í sveitarstjórnarkosningunum 2018.

 Ályktun um heilbrigðismál frá Landsfundi Landssambands eldri borgara, sem haldinn var 23.-24. maí 2017. 

  1. Landsfundur Landsambandsins lýsir megnri óánægju með hvernig fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra hefur verið varið og krefst þess að tekjur sjóðsins renni að fullu til nýbyggingar hjúkrunarheimila. Milli þrjú og fjögur hundruð manns um land allt  bíða nú eftir plássi á hjúkrunarheimilum. Það er algerlega óviðunandi að stór hluti af tekjum sjóðsins renni til annarra verkefna á meðan aldraðir bíða ýmist heima eða á göngum, salernum og jafnvel geymslum sjúkrastofnana eftir hjúkrunarplássum. Tryggja þarf rekstur hjúkrunarheimilanna og að þau séu mönnuð fagfólki.

 

  1. Landssambandið krefst þess einnig að heimahjúkrun, dagdvöl og heimaþjónusta við aldraða verði stórbætt og aukin. Það kemur í veg fyrir óþarfa innlagnir á hjúkrunarheimili og sjúkrahús. Góð þjónusta við aldraða er fjárfesting fyrir þá sem hennar njóta og um leið geta hjúkrunarheimili og sjúkrahús nýtt plássin betur fyrir þá sem þurfa meira á þeim að halda. Jafnframt skorar landsfundurinn á heilbrigðisráðherra að tryggja öldruðum nauðsynleg hjálpartæki gjaldfrjálst. Það auðveldar umönnun og viðheldur færni þeirra til að búa heima.

 

  1. Landsfundurinn skorar á stjórnvöld að leggja meira fjármagn í að efla heilbrigðisþjónustuna. Fjölga þarf heimilislæknum, hjúkrunarfræðingum og öðru fagfólki svo allir eigi völ á viðeigandi þjónustu. Bið eftir tíma hjá lækni og læknisaðgerðum er óheyrilega löng, auk þess sem læknaskortur er víða.

 

  1. Landssambandið hvetur aðildarfélögin til að beita sér fyrir sjálfbærri heilsueflingu eldra fólks.

  

Previous
Previous

Fréttatilkynning frá Tryggingastofnun 21. júní 2017

Next
Next

Viðtal við formann LEB í útvarpinu