Annar hluti veirunnar og hvað svo?

 

 

Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður LEB - Landssambands eldri borgara skrifar:

 

Nú stönd­um við frammi fyr­ir að veir­an Covid-19 vill ekki gefa eft­ir og læðist um í sam­fé­lag­inu. Hvað er þá til ráða fyr­ir okk­ur eldra fólkið? Við vilj­um standa okk­ur og erum að gera það. Sam­kvæmt öllu sem okk­ar fær­ustu aðilar í sótt­vörn­um segja eru varn­ir til, s.s. handþvott­ur, spritt­un, hansk­ar og grím­ur, og ef farið er eft­ir regl­um um nánd þá ætt­um við að geta lifað með þessu um ein­hvern tíma. Það er mik­il­vægt að við stönd­um sam­an og þannig mun­um við kom­ast í gegn­um nokkra skafla þar til bólu­setn­ing verður raun­hæf­ur mögu­leiki.

Á næsta leyti er svo hefðbund­in flensa sem mun koma síðar í vet­ur en bólu­efni er á leiðinni og er það sér­stak­lega ætlað heil­brigðis­fólki, fram­línu­fólki og svo eldra fólki. Verið því á verði og látið bólu­setja ykk­ur fyr­ir hinni ár­legu flensu. Samstaðan mun sigra í þessu eins og öðru. Vinn­um líka að því að styðja fólkið okk­ar sem þess þarf, t.d. vegna ein­mana­leika og óör­ygg­is. Marg­ar lausn­ir eru til, s.s. síma­vin­ir, heim­sókn­ar­vin­ir og göngu­fé­lag­ar. Hreyf­ing­in er al­veg ómiss­andi og alls ekki hætta henni. Nota allt sem býðst bæði inn­an- og ut­an­húss svo og morg­un­leik­fimi í út­varpi sem hjálp­ar mörg­um. Við skor­um á RÚV að koma líka með leik­fim­ina í sjón­varp.

Nýr bæk­ling­ur um hvað er til ráða í ein­mana­leika er til og hægt að fá hann hjá LEB og fé­lög­um eldri borg­ara um allt land.Unnið verður að því á næst­unni að finna eldra fólk af er­lend­um upp­runa sem talið er vera fé­lags­lega ein­angrað.Mörg önn­ur verk­efni eru í vinnslu og mun þar reyna á gang veirunn­ar líka. Þau verk­efni snúa að mis­mun­andi þátt­um í okk­ar dag­lega lífi, s.s. akstri á efri árum til að skoða hvað fólk vill gera þegar akst­ur verður of erfiður eða veik­indi hindra. Unnið verður í sam­vinnu við Sam­göngu­stofu en þar erum við að skoða nýj­ar leiðir sem vert er að skoða vel.

Þá er mik­il­vægt að minna á spjald­tölvu­kennslu og kennslu­bæk­linga (sjá nánar HÉR) sem voru unn­ir á veg­um LEB til að efla tölvu­færni eldra fólks. Nú er sér­stök þörf á að efla færni þeirra sem hafa misst af ra­f­rænu breyt­ing­unni, s.s. að geta sótt um allt mögu­legt á net­inu, skilað gögn­um eða farið í net­banka. Þetta efl­ir sjálf­stæði eldra fólks auk þess sem sam­skipti við hina nán­ustu efl­ast. Þessi ra­f­ræna færni er gríðarlega mik­il­væg í dag því marg­ar skrif­stof­ur eru illa mannaðar vegna áhættu um smit. Áskor­un til fólks og aðstand­enda er að hjálp­ast að við að fjölga not­end­um ra­f­rænna leiða.

Alþjóðaheil­brigðismála­stofn­un­in er nú að hvetja fólk til að vernda and­legu heils­una m.a. með því að hlusta ekki á marga frétta­tíma á dag um þessi veik­indi um all­an heim og gang þeirra því það geti leitt til þung­lynd­is og mik­ill­ar van­líðunar. Jafn­framt skor­ar stofn­un­in á fólk að hreyfa sig oft og reglu­lega. Við þetta má bæta að það að nota já­kvæða hugs­un og upp­byggj­andi sam­töl er gott og gagn­legt okk­ur öll­um.

Fólk er hvatt til að leita lækn­is ef minnsti grun­ur leik­ur á ein­hverj­um veik­ind­um. Allt aðgengi að læknaþjón­ustu hef­ur stór­batnað og kem­ur Heilsuvera.is  sterk inn. Heilsu­vera.is er enn eitt dæmið um mik­il­vægi þess að geta verið virk­ur á net­inu fram eft­ir aldri.Sú nýja leið sem er að opn­ast um sál­fræðiþjón­ustu er afar brýn, ein­mitt við þess­ar aðstæður sem nú eru. Kynn­ingu á hvernig og hversu oft hver get­ur sótt sér slíka hjálp mun­um við birta sem fyrst.Hvatn­ing okk­ar í stjórn LEB til allra eldri borg­ara er að huga að holl­ustu nær­ing­ar dag­lega. Holl rétt nær­ing efl­ir mót­stöðuafl hverr­ar mann­eskju. Mót­stöðuaflið er mátt­ur lík­am­ans til að bregðast við áföll­um og veik­ind­um og eiga gott líf. Mun­um líka eft­ir lýs­inu sem gef­ur okk­ur alltaf styrk. Sam­eig­in­lega mun­um við öll berj­ast fyr­ir því að eiga góð efri ár alla daga fram und­an. Við get­um öll hjálp­ast að við að ná góðum ár­angri gegn veirunni. 

Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður LEB - Lands­sam­bands eldri borg­araformadur@leb.is

 

HÉR er hægt að lesa leiðbeiningar vegna samkomubanns
Previous
Previous

Leiðbeiningar vegna samkomubanns

Next
Next

Heilsa eldri borgara hrakaði í síðasta heimsóknarbanni