Eldri borgarar á Akureyri

Hallgrímur Gíslason formaður Félags eldri borgara á Akureyri skrifar pistilinn.
Hallgrímur Gíslason.
Hallgrímur Gíslason.

  Allir einstaklingar sem eru 67 ára og eldri flokkast sem eldri borgarar. Sumir eru enn á vinnumarkaði, aðrir hafa hætt störfum af fúsum og frjálsum vilja og svo eru þeir sem hafa þurft að hætta störfum vegna óhagstæðrar kennitölu. Sumir eru við góða heilsu á meðan aðrir þurfa að líða heilsubrest. Fjárhagsleg afkoma er mjög misjöfn og svona má lengi telja.Þessi hópur er því ansi fjölbreyttur og engin leið að alhæfa hvorki eitt né annað hvað hann varðar. Því er mjög líklegt að þegar spurt er hver séu brýnustu þjónustuverkefni Akureyrarbæjar verði svörin næstum því jafn mörg og fjöldi aðspurðra. Ekki er til neinn upplýsingabanki um málefni hópsins. Öflun upplýsinga vegna svokallaðs Rafræns mælaborðs um líðan og velferð aldraðra er í gangi og er tilgangur þess að varpa nokkru ljósi á þarfirnir. Verkefnið er á vegum Akureyrarbæjar og Félagsmálaráðuneytisins.Oft hefur verið kvartað undan löngum boðleiðum innan bæjarkerfisins, fólki er of oft vísað á næsta mann þegar það spyr um ákveðna þjónustu. Sameining búsetu- og fjölskyldusviðs í eitt velferðarsvið um síðustu áramót á að leiða til einföldunar, en hvernig til tekst getur reynslan ein leitt í ljós. Aukið íbúasamráð á einnig að hjálpa til í þessu efni.Eldri borgurum kemur til að fjölga mikið á næstu árum, hlutfallslega meira en þeim sem yngri eru. Við því er nauðsynlegt að bregðast. Það er yfirlýst markmið að allir geti verið sem lengst heima. Til að svo geti orðið þurfa margir að leggjast á árarnar. Félag eldri borgara á Akureyri (EBAK) vill leggja sitt af mörkum með því að vinna með Akureyrarbæ að góðri og uppbyggilegri samveru og öflugu tómstundastarfi.  Of lítið húsnæði hamlar þróun þeirrar starfsemi. Bein leið með strætisvagni eða á annan máta á milli félagsmiðstöðvanna í Víðilundi og í Bugðusíðu er mikið atriði. Verið er að hanna nýtt leiðakerfi vagnanna og verður fróðlegt að sjá hve mikið tillit verður tekið til athugasemda EBAK og notendaráðs félagsmiðstöðvanna, sem voru studdar af öldungaráði bæjarins.Til að unnt sé að bregðast við fjölguninni þarf að gera áætlun um hvernig á að bregðast við henni á næstu árum. EBAK og öldungaráð Akureyrarbæjar hafa þrýst á að gerð verði aðgerðaáætlun í málefnum eldri borgara á Akureyri. Fyrir því liggja ýmsar ástæður. Það hafa ekki allir eldri borgarar kunnáttu á tölvur, en ljóst er að heimaþjónusta kemur til með að byggjast mikið á tölvum og ýmiss konar velferðartækni frekar en á fjölgun starfsfólks.Aðalmálið fyrir aldurshópinn er heilsuefling. Það má kosta miklu til að seinka dvöl einstaklinga á hjúkrunarheimilum. Öllum er nauðsynlegt að hreyfa sig. Aldur og geta skiptir ekki máli, því öll hreyfing og hæfileg áreynsla er af hinu góða. Mörg sveitarfélög styðja myndarlega við heilsueflingu eldri borgara. Akureyrarbær er að leita leiða til að feta í fótspor þeirra við að aðstoða þá sem mest þurfa á hreyfingu að halda. Það er engin spurning um að hún er öflugasta og ódýrasta forvörnin þegar upp er staðið.- Hallgrímur Gíslason, formaður Félags eldri borgara á Akureyri. 

Previous
Previous

Eldra fólk vill hafa áhrif á eigið líf

Next
Next

Upptaka af fræðslufundinum Velferð eldri borgara