Er ríkið stærsti lífeyrisþeginn?

Ég skrifaði greinarkorn fyrir tveimur árum þegar niðurstaða KPMG vegna verkefnisins  “ Það er gott að eldast”  var lögð fram.

Þar kom fram að aldurshópurinn 67+ skilaði hvorki meira né minna en 12 milljörðum meira til sveitarfélaganna í formi útsvars og fasteignagjalda, heldur en sveitarfélögin lögðu til þjónustu við þennan hóp.

Það hefur einhvern veginn verið álitið að umræddur hópur væri  byrði á samfélaginu en annað kom þarna heldur betur í ljós.

Það er full ástæða til að krefja framboð og frambjóðendur fyrir alþingiskosningarnar  30. nóvember 2024,  um skýr svör við því hver stefna þeirra flokka sé varðandi skatta og skerðingar á þessa þjóðfélagsþegna.

Undanfarið hefur mér virst að stefna stjórnvalda væri að skattleggja og skerða  eldra fólk með öllum ráðum. Skatta það í ” drasl ” eins og unga fólkið segir.

Ríkið hefur farið fram með miklar skerðingar löngu áður en almennir launþegar hafa greitt fulla starfsævi til síns lífeyrissjóðs og fá því ekki fullan lífeyri þaðan í dag.

Í hópi eldra fólks er fjöldi sem býr við óásættanleg kjör sem fara  síversnandi í stjórnlausri verðbólgu.

Það er nefnilega þannig að þótt tekjuhærri hópar eldra fólks búi við góð kjör þá er stór hluti illa settur og kjör þeirra fara versnandi eins og annarra lágtekjuhópa.

Mismunurinn á grunnlífeyri almannatrygginga og lægsta taxta SGS er nú rúmlega níutíu og tvö þúsund krónur . Lægsti taxti SGS er hærri.  Það eru um fimmtán þúsund manns yfir 67 ára aldri sem ná ekki þessum lágmarkstaxta.

Almennt frítekjumark er tuttugu og fimm þúsund krónur.

Ef  lífeyrisgreiðslur  fara yfir það mark skerðast greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins um 45%.

Það virðist því vera ríkissjóður sem er stærsti lífeyrisþeginn þegar að almannatryggingapotti kemur.

Hverjir byggðu upp samfélagið sem við búum í?

Það er elsta kynslóðin sem lagði þann grunn.  Á þeim tíma voru gildi samhjálpar og samtryggingar  mikil en líka framfarahugur og  barist til betra lífs.

Það getur ekki verið ósanngjörn krafa að þeir sem hafa lágan lífeyri setji hann ekki að mestu í að fjármagna rekstur samfélagsins, heldur geti lifað með reisn og notið ævikvöldsins.

Ásgerður Pálsdóttir.

Previous
Previous

Mikilvægt að bæta hag þeirra sem hafa það skítt.

Next
Next

Helgi Pétursson formaður LEB ræðir baráttumál eldra fólks við Guðrúnu Sóleyju.