Fimmtudag 24. október: Hádegisfyrirlestur - Að eldast hinsegin
Berglind Indriðadóttir, iðjuþjálfi, er fjórði fyrirlesari fyrirlestraraðar RIKK á haustmisseri 2019 og nefnist fyrirlestur hennar „Að eldast hinsegin“. Fyrirlesturinn er fluttur fimmtudaginn 24. október, kl. 12:00-13:00, í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.Geta lífshlaupsnálgun og öldrunarfræði stuðlað að betri öldrunarþjónustu fyrir hinsegin fólk? Hvaða samfélags- og kerfisþættir eru líklegir til að hafa áhrif á líf og líðan hinsegin eldra fólks? Er eitthvað öðruvísi við að vera hinsegin öldruð? Vill eldra hinsegin fólk að þjónustan sé miðuð út frá því að vera hinsegin? Og vill fólk í þessum aldurshópi kannski alls ekki vera kallað hinsegin? Í erindinu verður leitast við að varpa fram svörum við þessum spurningum og vekja enn fleiri.Berglind Indriðadóttir er iðjuþjálfi frá Ergoterapeutskolen í Odense (2002) og hefur starfað í íslenskri öldrunarþjónustu frá útskrift; á sjúkrahúsum og hjúkrunarheimilum, í dagþjónustu og hjá sveitarfélögum. Hún hefur lokið diplóma í opinberri stjórnsýslu, öldrunarþjónustu og félagsfræði við Háskóla Íslands (2015 – 2017). Berglind er ein þeirra sem standa að Farsælli öldrun – Þekkingarmiðstöð, frumkvöðlastarfsemi sem er ætlað að verða þekkingarmiðstöð um öldrunarmál sem á að starfa á landsvísu að norrænni fyrirmynd.Fyrirlesturinn er fluttur á íslensku og er öllum opinn og aðgangur ókeypis.