Fundur með Félags- og vinnumarkaðsráðherra
Við áttum góðan fund með Félags- og vinnumarkaðsráðherra ásamt hans aðstoðarfólki, þann 1. júlí sl.
Fyrir hönd LEB mættu ásamt formanni, þau Björn Snæbjörnsson, Þorbjörn Guðmundsson og Oddný Árnadóttir.
Á fundinum var rætt um kjaramál þeirra verst settu, skerðingar og frítekjumörk. Fyrir fundinn lagði LEB greiningu frá TR um lægstu fjórar tíundir sem þiggja eftirlaun frá TR. Tölurnar vöktu nokkra athygli, sérstaklega lægstu tvær tíundir. Samþykkt var að fara í enn meiri greiningu á þeim og fá TR að borðinu.
Komið var inn á það hversu ósanngjarnar hinar ýmsu skerðingar eru, ekki síst þær sem eru vegna fjármagnstekna og valda hvað mestri óánægju og óþægindum, þar sem fólk er rukkað eftir á, vegna tekna sem í raun eru neikvæðir vextir af sparifé. Ráðherrann tók ekki sérstaklega undir þennan málflutning okkar og ljóst að hér þarf að hamra járnið áfram.
Það vakti ánægju að ráðherrann tók mjög vel í beiðni okkar um halda fasta samráðsfundi með okkur í vetur. Ákveðið að næsti fundur verði að loknum sumarleyfum í ágúst, með aðkomu TR.