Hvað er að gerast hjá TR?
Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður LEB - Landssambands eldri borgara skrifar:
Það hefur vakið sterk viðbrögð að sjá niðurstöður nýrrar stjórnsýsluútttektar á störfum Tryggingastofnunar Ríkisins. Stofnun sem hefur verið talin vinna vel og vilja gera sem allra best fyrir þá sem þangað leita. Því er þessi úttekt áfall fyrir allra aðila málsins.Í úttektinni er bent á hvað núgildandi lög um lífeyri eru ógagnsæ og erfið til að vinna eftir. Er sú niðurstaða alveg í þeim anda sem við hjá Landsambandi eldri borgara höfum bent á. Lögin frá 2017 áttu að vera til einföldunar, en gera það ekki. Þau eru vandræði.Lögin kveða á um að endurreikna þurfi greiðslur til fólks ef tekjuáætlanir þess eru ekki í fullkomnu samræmi við rauntekjur ársins. Að það þurfi að endurreikna um 90% af árstekjum þeirra sem fá greiðslur frá TR er grafalvarlegt mál og býður heim hættu á mistökum. Eins þarf að kanna vel hvers vegna margir hunsa að gera viðvart um breyttar tekjur inn á „Mínar síður“ hjá TR sem vekur upp spurningar sem brýnt er að fá svar við.Margt annað vekur athygli í skýrslu Ríkisendurskoðunnar s.s. starf Umboðsmanns lífeyrisþega sem TR hefur fengið sérstaka fjárveitingu til árlega síðustu fjögur ár en er ekki enn orðið að veruleika eftir 4 ár og lítið verið um rætt.Mat okkar hjá LEB er að Umboðsmaður lífeyrisþega væri betur kominn hjá ýmsum öðrum en innanhúss hjá TR, t.d. LEB eða hjá öðrum ábyrgum aðilum sem frekar þjóna fólki til að endurskoða mál þeirra.Nú þarf að bregðast hratt við og vinna að úrbótum svo að TR hljóti aftur fullt traust þeirra sem þangað sækja sína framfærslu.Þórunn SveinbjörnsdóttirFormaður LEB HÉR er skýrsla Ríkisendurskoðunar um TR
Tryggingastofnun birti eftirfarandi yfirlýsingu á vef sínum:
Vegna fjölmiðlaumfjöllunar
Brotalamir í almannatryggingakerfinu
Kannað hvernig TR uppfyllir hlutverk sitt
Árið 2019 óskaði Alþingi eftir því að Ríkisendurskoðun gerði stjórnsýsluendurskoðun á starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins. Þar yrði meðal annars kannað hvernig Tryggingastofnun tekst að uppfylla hlutverk sitt samkvæmt lögum um almannatryggingar og félagslega aðstoð, sem og aðrar lögbundnar skyldur sínar.Í niðurstöðukafla skýrslunnar segir meðal annars:„Þrátt fyrir áherslu á gæðaumbótastarf eru dæmi um brotalamir í framkvæmd almannatryggingalaga og meðferð stjórnsýslumála hjá Tryggingastofnun. Dæmi eru um að viðskiptavinir hafi fyrir vikið orðið af réttindum sínum, um lengri eða skemmri tíma. Slíkt er alvarlegt og getur haft mikil áhrif á fjárhag viðkomandi auk þess að grafa undan trausti til stofnunarinnar.“ segir í skýrslunni.
Þarf að sinna leiðbeiningaskyldu sinni betur
Umboðsmaður Alþingis hefur í álitum sínum bent á að rannsóknarskylda hafi ekki verið uppfyllt og að stofnunin hafi ekki aflað allra nauðsynlegra gagna við afgreiðslu tiltekinna mála. Þá hefur úttekt Ríkisendurskoðunar m.a. leitt í ljós að Tryggingastofnun þarf að sinna betur leiðbeiningarskyldu sinni ásamt því að efla aðgengi og upplýsingagjöf til viðskiptavina.Við útreikning greiðslna frá Tryggingastofnun er stuðst við tekjuáætlun sem Tr leggur drög að. Hver og einn viðskiptavinur staðfestir þær svo. Þegar rauntekjur liggja fyrir eru fjárhæðir endurreiknaðar og leiðréttar.. Í skýrslunni segir að á þessu ferli sé oft brotalöm.„Á tímabilinu 2016–19 leiddi endurreikningurinn í ljós að mikill meirihluti lífeyrisþega fékk ýmist of- eða vangreiddar greiðslur vegna mismunar á tekjuáætlun og rauntekjum. Einungis 9,4–13 prósent fengu réttar greiðslur. Nauðsynlegt er að ráðast í markvissar aðgerðir til að minnka umfang endurreiknings bóta og draga úr frávikum vegna framangreinds mismunar.“Í því er aukin samvinna Tryggingastofnunar við lífeyrissjóði og Skattinn sögð skipta miklu máli en meginástæður frávika megi rekja til breytinga sem verða á fjármagnstekjum og lífeyrissjóðsgreiðslum frá því tekjuáætlun er gerð. Þá telur Ríkisendurskoðun að meta þurfi ábata þess að setja vikmörk á mismun tekjuáætlana og rauntekna lífeyrisþega og endurskoða þá fjárhæð sem ekki skal innheimta komi til ofgreiðslna en sú fjárhæð er í dag 1.000 kr.Ríkisendurskoðun leggur til úrbætur í sjö liðum:
- Bæta þarf málsmeðferð við töku ákvarðana.
- Auka þarf hlutfall viðskiptavina sem fá réttar greiðslur.
- Ljúka þarf heildarendurskoðun laga um almannatryggingar.
- Leggja þarf aukna áherslu á málefni almannatrygginga.
- Heildarstefnumótun í lífeyrismálum nauðsynleg.
- Umboðsmenn Tryggingastofnunar hjá sýslumannsembættunum.
- Fjárveitingar nýttar í samræmi við tilgang þeirra.
Að mati Tryggingastofnunar þarf að gera breytingar á lögum um almannatryggingar til þess að draga úr og helst eyða að fullu kröfum um endurgreiðslur lífeyris. Þetta kemur fram í tilkynningu frá TR í kjölfar skýrslunnar. Aftur á móti megi gera ráð fyrir að í lífeyriskerfi þar sem tekið yrði tillit til breytilegra tekna innan ársins þurfi að koma til endurreiknings á hugsanlegum inneignum að árinu liðnu. Þannig verði bestu réttindi lífeyrisþegans tryggð að fullu þegar tekjudreifing ársins liggur fyrir, eins og kveðið er á um í nýlegum breytingum á almannatryggingalögunum um meðferð atvinnutekna.„Uppbyggileg umræða um lífeyriskerfið er mikilvæg, því ítrekum við að Tryggingastofnun fagnar úttekt Ríkisendurskoðunar á stofnuninni og stöðu almannatrygginga. Vonir eru bundnar við að hún leiði til úrbóta og einföldunar á flóknu kerfi, lífeyrisþegum til hagsbóta.“ segir í tilkynningu Tryggingastofnunar.