Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður Landssambands eldri borgara skrifar jólahvatningu:
Eldra fólk og jólahald
Nú styttist í jólin og sífellt erum við minnt á að við eldra fólkið á Íslandi séum viðkvæmur hópur. Við erum sannarlega misjafnlega stödd með heilsu okkar. En eitt er víst; við erum langflest alveg ákveðin í að láta þessi jól líða hjá hægt og hljótt. Við meinum að það er mun mikilvægara að geta komist í bólusetningu í janúar en stór jólaboð.Að losna undan álögum veirunnar sem hamlar því að fólk geti hist og fólk geti borðað í matsal með öðrum eins og víða er gert, að fólk geti verslað inn í matinn án grímu, að fólk geti knúsað bestu vini sína og fjölskyldu, að fólk geti fengið þjónustu, að fólk geti verið virkt í daglegu lífi.Er þetta ekki verðmiðinn á að slaka á og finna innri frið án stórra jóla eða áramótaboða? Við viljum fá lífið til baka sem fyrst. Eldra fólk hefur verið afar duglegt í þessu fordæmalausa ástandi og mun gera það til enda. Því þurfa fjölmiðlar að hætta að naggast út í þríeykið um búbblurnar. Við skiljum þær alveg og munum verða þau síðustu til að krefjast stórra jólaboða. Löng lífsreynsla skapar þekkingu og færni til að takast á við lífið.Minnum frekar á hvernig er hægt að styðja við þá sem búa einir og eru einmana. Síminn er gott tæki til að hringja í gamla vini og gá hvernig þeir hafa það eða frænkuna sem býr ein. Hún þiggur símtal. Munum líka eftir hjálparsímanum. Munum líka að í þessum hópi eru margir sem eru auralitlir og þurfa hjálp. Það færir öðrum innri gleði að hjálpa öðrum. Er það ekki hinn sanni jólaandi?Gefum sannar gjafir til að styðja við þá sem minna mega sín. Áður en varir er kominn janúar og daginn lengir og bóluefnið kemur. Nú er bjartari tíð fram undan þegar fólk getur farið að hitta annað fólk og vera með. Takk fyrir allt tónlistarflóðið og skemmtanir sem hafa verið færð heim í stofu eða að heimilum eldra fólks. Það hefur glatt æði marga. Að lokum. Jólin koma en verum hófstillt og bjóðum ekki veirunni í jólaboð. Það myndi kæta hana mjög að smita okkur ef við erum gálaus. Þetta er ekki alveg búið. Stöndum saman til enda.
- Greinin birtist fyrst á vefnum mbl.is