„Málið snýst bara um að eldri borgarar hafi val.“

 Helgi Pétursson formaður LEB var í viðtali við Morgunblaðið laugardaginn 26. febrúar sl. um ákvæði um að fólk léti af störfum við 70 ára aldur hjá hinu opinbera. Viðtal blaðamannsins Orra Páls Ormarssonar blaðamanns við Helga fer hér eftir: Í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins frá 1996, er lögfest sú regla að opinberir starfsmenn skuli láta af störfum við 70 ára aldur. Þá er kveðið á um að embættismanni skuli veita lausn frá og með næstu mánaðamótum eftir að hann nær 70 ára aldri og hið sama gildir um þá sem skipaðir eru tímabundið í embætti. Þetta á ekki við á almennum vinnumarkaði en eigi að síður hefur þetta viðmið verið innbyggt í hugsun margra áratugum saman og er jafnvel enn. Það er að segja að fólk eigi ekki að vera að þvælast fyrir á vinnumarkaði eftir sjötugt.En tímarnir breytast og mennirnir með og sjötugur maður í dag er ekki sama og sjötugur maður fyrir hálfri öld eða jafnvel 26 árum þegar lögin voru sett. Lífslíkur fólks eru stöðugt að aukast og fólk fer upp til hópa betur með sig; slítur sér ekki eins út í vinnu, hreyfir sig meira en tíðkaðist, borðar hollari mat og ræktar hugann með margvíslegum hætti. Að ekki sé talað um að læknavísindunum hefur fleygt fram.„Þegar ég var að vaxa úr grasi upp úr miðri síðustu öld var sjötugur maður á grafarbakkanum enda sleit fólk sér út mun fyrr en það gerir í dag,“ segir Helgi Pétursson, formaður Landssambands eldri borgara (LEB). „Sjálfur er ég 73 ára og finn ekki fyrir neinu, 7-9-13.“Það er landlæg pestHelgi segir málið ekki flókið; vilji fólk vinna eftir sjötugt og hafi til þess getu og starf sé fyrir hendi þá eigi það að sjálfsögðu að fá að vinna. Það mál sé bara milli starfsmannsins sjálfs og vinnuveitanda hans og komi engum öðrum við.„Það er landlæg pest að fólki, allt niður í 55 ára, sé hent út og fái ekki aðra vinnu. Þá fóbíu þurfum við sem samfélag að yfirstíga,“ segir Helgi og bætir við að því miður gildi þetta frekar um konur en karla sem sé alls ekki ásættanlegt. „Það eru fordómar sem þarf að eyða.“Helgi segir rétt eldri borgara til að stunda vinnu eitt af helstu baráttumálum landssambandsins um þessar mundir, samkvæmt manifestó þess. „Það er ekkert sem breytist við það að fólk verði 67 ára eða sjötugt, hvorki líkamlega né andlega. Hvers vegna eru þá viðvörunarbjöllur að hringja?“ spyr hann. „Vinna snýst um færni en ekki aldur.“– Viltu hækka mörkin, til dæmis upp í 75 ár eða hafa þetta bara opið?„Ég vil hafa þetta opið. Ef áttræður maður er í fullri vinnu og að skila sínu kemur það ekki nokkrum manni við, nema honum og vinnuveitanda hans. Við þurfum að búa að víðsýni og þroska til að leysa þetta mál, þannig að allir verði sáttir. Hugsaðu þér ávinninginn fyrir samfélagið ef við getum áfram leitað til alls þess færa og reynslumikla fólks sem þarf nauðugt að setjast í helgan stein eins og löggjöfin er núna.“Að sögn Helga getur það verið þungt högg að þurfa að hætta að vinna og sé fólk ósátt gæti það hæglega orðið baggi á félagslega kerfinu og heilbrigðiskerfinu mun fyrr en hefði þurft að verða.Snýst um að hafa valÞetta þýðir vitaskuld ekki að hvetja eigi fólk til að halda áfram að vinna eftir sjötugt, hugnist það því ekki. „Nei, almáttugur,“ segir Helgi. „Ég skil vel og ber fulla virðingu fyrir þeim sem vilja hætta að vinna og fara frekar að ferðast eða út á golfvöll. Þeir sem vilji hætta eiga að fá að hætta. Málið snýst bara um að eldri borgarar hafi val.“– Hefur þú á tilfinningunni að þeim fari fjölgandi sem kjósa að halda áfram að vinna eftir sjötugt?„Ég er ekki endilega viss um það. En það er alltaf einhver hluti sem myndi kjósa það, að því gefnu að vinna sé fyrir hendi. Annars er fjöldinn svo sem aukaatriði í þessu sambandi.“Að sögn Helga gilda áþekk lög um þessi mál á hinum norðurlöndunum og sama umræðan er í gangi. Hann segir gildandi lög, sem vísað var til hér að framan, fela í sér löngu úrelta hugsun sem sé hreinlega út í hött. „Það á ekki heima í lögum að henda fullfrísku og reynslumiklu fólki út. Það að eldast er ekki sjúkdómur. Það er fáránlegt að hið opinbera sé að missa frá sér lykilmenn, bara vegna þess að þeir eru orðnir sjötugir.“Tillaga liggur fyrir AlþingiHann hefur væntingar til þess að lögunum verði breytt, fyrr en síðar, en þess má geta að tillaga til þingsályktunar um afnám 70 ára aldurstakmörkunar í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins liggur nú einmitt fyrir Alþingi, 152. löggjafarþinginu. Að henni standa þingmenn úr Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, Flokki fólksins og Viðreisn. Tillagan var fyrst lögð fram á 150. löggjafarþingi og gekk þá til efnahags- og viðskiptanefndar eftir fyrri umræðu og bárust umsagnir frá BSRB og Landssambandi eldri borgara. Málið var lagt fram öðru sinni á 151. löggjafarþingi og barst þá umsögn frá Alþýðusambandi Íslands auk fyrri umsagnar BSRB.„Ég held að þetta mál eigi miklu meiri stuðning í þinginu nú en oft áður og sennilega bara tímaspursmál hvenær þetta ákvæði verður numið úr lögum,“ segir Helgi. „Ég held að þess verði ekki langt að bíða að við komumst yfir þennan leiðinlega þröskuld. Þetta er liður í breytingum sem almennt eru að verða á viðhorfi til eldra fólks í samfélaginu. Því ber að fagna.“Samkvæmt téðri tillögu ályktar Alþingi að fela fjármála- og efnahagsráðherra, í samráði við félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra, að hefja viðræður við samtök opinberra starfsmanna um afnám þeirra ákvæða í lögum sem takmarka starf opinberra starfsmanna við 70 ára aldur. Markmiðið er að veita opinberum starfsmönnum möguleika á að vera áfram í starfi eftir að 70 ára aldri er náð, ef þeir vilja og treysta sér til, að því er fram kemur í greinargerð. Það verður sumsé enginn skikkaður til að vinna, kæri hann sig ekki um það.   

Previous
Previous

Vöruhús tækifæranna: Fréttabréf mars 2022

Next
Next

Með samstarfi við ASÍ, BSRB og BHM vonast eldra fólk eftir betri tíð