Mannréttindadómstóll Evrópu tekur mál Gráa hersins gegn íslenska ríkinu til efnismeðferðar

Í nóvember 2022 kvað Hæstiréttur upp dóm í málum Gráa hersins og þriggja ellilífeyristaka gegn íslenska ríkinu vegna skerðinga ellilífeyris almannatrygginga. Dómurinn féll ríkinu í vil, en hann  var strax kærður til Mannréttindadómstóls Evrópu í Strasbourg. Nú hefur dómstóllinn tilkynnt að hann hyggist taka tiltekna þætti kærunnar til efnismeðferðar.  

Með dómnum hafnaði Hæstiréttur öllum röksemdum og kröfum Gráa hersins og þremenninganna á hendur ríkinu. Kærendur höfðu haldið því fram að tekjutenging ellilífeyris almannatrygginga með 45% - 56,9% skerðingarhlutföllum og mismunandi frítekjumörkum eftir uppruna tekna stangaðist á við meðalhófs- og jafnræðisreglur stjórnarskrár. Markmiðið var þó ekki að fá dæmdar fébætur til þessara þriggja einstaklinga, heldur var vonast eftir að niðurstaða dómstóla yrði með þeim hætti að ríkisvaldið kæmist í framhaldinu ekki hjá því að breyta regluverki almannatrygginga til þess að það samræmdist grundvallarreglum réttarríkisins.

Niðurstaða Hæstaréttar var samt sú að gefa ríkinu grænt ljós á gildandi skerðingaregluverk almannatrygginga, með þeirri röksemd að við setningu þess hafi löggjafinn ekki „farið út fyrir það svigrúm sem hann hefur í krafti fjárstjórnarvalds síns til að skipuleggja fyrirkomulag framfærsluaðstoðar (sic)...“

Þessa niðurstöðu kærði Grái herinn í febrúar 2023 til Mannréttindadómstólsins, sem nú hefur tilkynnt að hann muni taka kæruna til efnismeðferðar. Dómstóllinn mun afmarka umfjöllun sína við nánar tilgreind álitaefni, þ.e. hvort skerðingarreglurnar frá 2017/'18 hafi mismunað ellilífeyristökum eftir því hvort lífeyrisréttindi þeirra voru í séreignar- eða sameignarsjóðum; og/eða með því að ákvarða frítekjumark þeirra sem enn höfðu atvinnutekjur miklu hærra en þeirra sem eingöngu fengu greitt úr lífeyrissjóðum.

Enda þótt dómstóllinn hafi ákveðið að afmarka meðferð sína við þessi álitaefni, lítur Grái herinn á ákvörðunina sem áfangasigur í málinu. Einungis örlítill hluti þeirra mála sem MDE berast fær efnismeðferð fyrir dóminum. Það er því mikilvæg viðurkenning af hálfu MDE á réttmæti kæru Gráa hersins fólgin í því að dómurinn ætli að taka hana til efnismeðferðar.

MDE hefur nú veitt íslenska ríkinu frest til 11. mars til þess að leita sátta í málinu. Náist engin sátt fyrir þann tíma, fær ríkið 12 vikna frest til viðbótar til að skila greinargerð um málið. Í framhaldinu fær svo Grái herinn frest til að skila greinargerð af sinni hálfu.

Málinu er því langt í frá lokið og alls óvíst hvenær endanlegur dómur MDE fellur eða hver niðurstaðan verður. En áfanginn sem náðst hefur með þessari ákvörðun Mannréttindadóm­stóls Evrópu er engu að síður mikið fagnaðarefni.

Previous
Previous

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Next
Next

Hátíðarkveðja