Nýársbréf til formanna félaga eldri borgara frá Landssambandi eldri borgara

 Nýársbréf til formanna félaga eldri borgara frá Landssambandi eldri borgara Heilir og sælir formenn góðirGleðilegt nýtt ár og þakka ykkur fyrir gott og ánægjulegt samstarf á nýliðnu ári. Á árinu heimsótti ég rúmlega 20 aðildarfélög og þakka ykkur góðar móttökur. Í slíkum  heimsóknum sér maður vel hve starfsemi félaga eldri borgara er víða öflug og einnig hvað hún er mikilvæg í viðkomandi sveitarfélagi og hvað félögin eru miklir burðarásar í félags- og tómstundastarfi á við komandi stað, sem stundum nær út fyrir hóp eldri borgara.Árið 2016 reyndist vera frekar árangursríkt fyrir okkur. Annars vegar vegna umbóta á almannatryggingakerfinu og hins vegar vegna stofnunar öldungaráða víðs vegar um landið, sem er formlegur samráðsvettvangur félaga eldri borgara og viðkomandi sveitarfélags um þá þjónustu og aðstöðu sem sveitarfélögum ber að veita eldri borgurum. AlmannatryggingarNefndir, skipaðar fulltrúum hagsmunaaðila, hafa undanfarin tvö kjörtímabil unnið sleitulaust að endurskoðun á almannatryggingum. Markmiðið almannatrygginga er „að tryggja þeim ... sem þess þurfa bætur og aðrar greiðslur vegna elli, örorku og framfærslu barna ... skal stuðlað að því að þeir sem lögin taka til geti framfleytt sér og lifað sjálfstæðu lífi.“ Eitt síðasta verk þess Alþingis sem starfaði fram að síðustu þingkosningum var að samþykkja breytingar á almannatryggingum sem margar gengu í gildi nú um áramótin. Þegar þetta er skrifað hefur TR ekki unnist tími til að sundurgreina upplýsingar um útgreiðslu 1. janúar 2017 og bera saman við útgreiðslu 1. janúar 2016. Þó liggur fyrir að heildargreiðsla TR til eldri borgara og öryrkja 1. janúar 2017 nam nálægt 7.800 milljónum króna en 6.500 milljónum 1. janúar 2016. Hefur útgreiðsla á milli ára því aukist um 1.300 milljónir eða 20% á milli janúarmánaða og hafa greiðslur almannatrygginga til þorra eldri borgarahækkað við þessa breytingu.Mikilvæg breyting sem felst í nýju lögunum er einföldun á grunnvirkni almannatryggingakerfisins þar sem einn ellilífeyrir kemur í stað þriggja bótaflokka og allar aðrar tekjur eru meðhöndlaðar með sama hætti óháð uppruna. Í gamla kerfinu voru aðrar tekjur meðhöndlaður misjafnlega eftir uppruna þeirra. Í reynd var það kerfi svo gallað að það var afar erfitt að nota það til kjarabóta þar sem eitt rak sig á annars horn og skerðingar voru þvers og kruss í kerfinu. Nýja kerfið er einfaldara og því betra verkfæri til að nota til kjarabóta t.d. hvort sem um er að ræða hækkun á ellilífeyri eða fjárhæð frítekjumarka. ÖldungaráðSveitarfélögum ber að veita eldri borgurum margvíslega þjónustu. LEB hefur lagt áherslu á að byggja upp í hverju sveitarfélagi formlegan samráðsvettvang félags/félaga eldri borgara í sveitarfélaginu og sveitarstjórnarinnar. Þetta starf hefur farið fram í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Einn þáttur samstarfsins var að í ágúst og september kannaði sambandið hve mörg sveitarfélög hafa stofnað öldungaráð og hvernig fyrirkomulag þeirra ráða er. Alls bárust svör frá 71 af 74 sveitarfélögum en ekki bárust svör frá Eyja- og Miklaholtshreppi, Skorradalshreppi og Akrahreppi. Af þeim sveitarfélögum sem svöruðu eru 23 þeirra með starfrækt öldungaráð og í þeim búa rúmlega 230.00 manns eða tæplega 70% landsmanna. Þessi sveitarfélög eru Ísafjarðarbær, Reykhólahreppur, Borgarbyggð, Ásahreppur, Sveitarfélagið Árborg, Mosfellsbær, Akureyrarkaupstaður, Blönduósbær, Rangárþing ytra, Reykjanesbær, Seltjarnarnesbær, Hafnarfjarðarkaupstaður, Sandgerðisbær, Sveitarfélagið Ölfus, Hveragerðisbær, Reykjavíkurborg, Rangárþing eystra, Grundarfjarðarbær, Sveitarfélagið Hornafjörður, Sveitarfélagið Garður, Dalabyggð, Djúpavogshreppur og Sveitarfélagið Vogar. Einnig kom fram í könnuninni að sveitarfélög sem stefni á að stofna öldungaráð séu Fjallabyggð, Hvalfjarðarsveit, Grindavíkurbær, Dalvíkurbyggð, Akraneskaupstaður, Stykkishólmsbær, Norðurþing og Kópavogsbær. Þessi uppbygging öldungaráða er ekki aðeins mikilvæg vegna þeirrar margvíslegu þjónustu sem sveitarfélögum ber að veita eldri borgurum samkvæmt gildandi landslögum heldur einnig vegna þess að vísast verða á næstu árum endurvaktar umræður sem voru í gangi fyrir svo sem áratug um að flytja til sveitarfélaga ýmis verkefni í öldrunarmálum sem nú eru á verksviði ríkisins. Samband íslenskra sveitarfélaga í samvinnu við Landssamband eldri borgara áformar að gefa á þessu ári út bækling með leiðbeiningingum um möguleg viðfangsefni og starf öldungaráða til þess að efla og samræma störf þeirra. Einnig má nefna að starfshópur sem starfaði á síðasta kjörtímabili lagði einróma til að tilvera og hlutverk öldungaráða yrði lögfest í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Ekki er ólíklegt að það nái fram að ganga á þessu kjörtímabili. Góðir formenn, Öldungaráðin eru nýtt verkfæri sem þið hafið til að ræða milliliðalaust og á formlegan hátt við sveitarstjórnir um margvísleg hagsmunamál eldri borgara í viðkomandi sveitarfélagi. Mikilvægt er þið byggið upp og nýtið þennan vettvang á virkan og markvissan hátt. Gangi ykkur vel í störfum ykkar á árinu. Með vinsemd og virðinguReykjavík, 9. janúar 2017Haukur Ingibergsson, formaðurLandssamband eldri borgara  

Previous
Previous

Greining á högum og líðan aldraðra á Íslandi árið 2016

Next
Next

BORGARAFUNDUR Í HÁSKÓLABÍÓ 28. SEPT. KL. 19.30