Nýtt þróunarverkefni hjá Reykjavíkurborg fyrir einstaklinga með heilabilun

 

Um næstu áramót fer af stað verkefni hjá Reykjavíkurborg sem miðar að því að bæta þjónustu við einstaklinga með heilabilun sem búa í heimahúsum. Til að byrja með gefst 30 einstaklingum tækifæri til að taka þátt í verkefninu en þá verður veittur stuðningur á kvöldin, um helgar eða þegar það hentar viðkomandi einstaklingum og fjölskyldum þeirra. Um leið og stuðningurinn er veittur einstaklingi með heilabilun gefst aðstandenum hans tækifæri til að fara út af heimilinu og sinna sínum áhugamálum. Með verkefninu er markmiðið að hægt verði að létta álagi af heimilum og bæta lífsgæði fjölskyldunnar.

Á heimasíðu Reykjavíkurborgar segir að verkefnið sé í takt við stefnu Reykjavíkurborgar um málefni eldri borgara fyrir árin 2018–2022 þar sem kemur fram að bjóða eigi upp á mismunandi valkosti í stuðningi fyrir fólk með heilabilun og taka eigi sérstaklega tillit til þess álags sem er á aðstandendum þeirra. Það sé jafnframt í samræmi við aðgerðaáætlun heilbrigðisráðuneytisins sem gefin var út í apríl 2020 um þjónustu við einstaklinga með heilabilun til ársins 2025. Þar kemur fram að stefna sveitarfélaga eigi að gera einstaklingum með heilabilun kleift að lifa í samfélagi sem skilur vanda þeirra, sýnir þeim virðingu og veitir þeim aðstoð eftir þörfum.

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar fékk aukna fjárheimild upp á 36 milljónir fyrir árið 2022 sem ætlað er til þessa verkefnis.Meira má lesa um verkefnið á heimasíðu Reykjavíkurborgar hér 

Previous
Previous

„Þetta er alveg út úr kú“

Next
Next

Deilt um það í Héraðsdómi hvort skerðingar standast stjórnarskrá