Blómlegt mannlíf með spili og pútti í Vinaminni
Vistlegt og glæsilegt er aðsetur Félags eldri borgara í Vestmannaeyjum í Vinaminni í menningarhúsinu Kviku við Heiðarveg. Gestur að sunnan staldrar strax við málverk og ljósmyndir á veggjum og aðbúnað allan. Hann rekur svo í rogastans þegar opnast vængjahurð og inn af samkomusalnum blasir við stærðarinnar púttvöllur og inn af púttsalnum er komið í rúmgóða billjardstofu!„Hér pútta menn daglega árið um kring og æfa sig í íþróttinni. Þetta er afar vinsælt og félagið hefur nokkur púttmót á vetrardagskránni. Vestmannaeyjabær innréttaði efstu hæðina í Kviku og afhenti félaginu hana til frjálsra afnota í lok árs 2016. Þar með urðu þáttaskil í starfseminni og hér er eitthvað um að vera alla virka daga,“ segir Þór Vilhjálmsson, formaður stjórnar Félags eldri borgara í Vestmannaeyjum, kjörinn á aðalfundi í janúar 2018 og fimmti stjórnarformaðurinn frá stofnun félagsins 7. janúar 1988.Fljótlega eftir að eldri borgarar í Eyjum stofnuðu félagið skaut Sigurður heitinn Einarsson, eigandi og framkvæmdastjóri Ísfélags Vestmannaeyja, yfir það skjólshúsi í gömlum pökkunarsal Ísfélagsins. Afdrepið dugði vel og fékk heitið Vinaminni en svo fjölgaði blessunarlega félaginu og það óx upp úr húsnæðinu. Þegar félagið færði sig í Kviku flutti það með sér sálina á gamla staðnum og heitið Vinaminni.Skráðir félagsmenn eru um 320 en misjafnlega mikið virkir eins og gengur. Í Vinaminni er alltaf eitthvað um að vera: mánudagsviðburðir, boccia, línudans, handverk, söngæfingar og fagnaðarfundir af ýmsu tagi. Gleymum ekki þorrablótum, pútti og félagsvist.Meðfylgjandi eru myndir voru teknar voru á spilakvöldi 14. febrúar og í púttsalnum daginn eftir.Félagsvistin var spiluð af krafti í meira en tvo tíma, sigurvegarar kvenna og karla krýndir og endað á kaffi og hnallþórum, brauðtertum og pönnukökum á hlaðborði - jafngildi fermingarveislu af betri gerð í boði Slysavarnardeildarinnar Eykyndils.