Ræða Helga Péturssonar á mótmælafundinum Rísum upp!
Hér er ræða Helga Péturssonar, formanns LEB - Landssambands eldri borgara sem hann hélt á mótmælafundinum Rísum upp! á Austurvelli, laugardaginn 9. maí 2023
Félagar!
Og það þarf auðvitað ódrepandi bjartsýni til þess að halda kjarabaráttu eldra fólks á lofti rétt eins og annara í þessu þjóðfélagi.
Og það er ekki hægt að segja að við höfum setið á rassgatinu og ekki gert nokkurn skapaðan hlut. Við erum á undnförum misserum búin að fara með óhersluatriði okkar á fundi með öllum. Öllum stjórnmálaflokkum, öllum ráðherrum, hinum og þessum þingmönnum , fulltrúum verkalýðsfélaga, sveitarfélaga, fulltrúum atvinnulífsins, og fjölmargra stofnana sem okkur varða.
Okkur hefur alls staðar verið tekið vel, en það hefur nákvæmlega ekkert gerst. Ekki neitt. Fólk er auðvitað ýmist í stjórn eða stjórnarandstöðu og hefur misjöfn tækifæri til þess að knýja fram breytingar, en þegar málefni eldra fólks ber á góma er eins og enginn vilji sé til verka. Hér vil ég undanskilja VR sem hefur stutt af heilum hug og átt samstarfsverekefni við LEB og Gráa herinn og ég vil líka minna á Öldungaráð VR sem er öflugt batterí.
Nú erum við með bakið upp að vegg. En það er ekki hægt að segja við okkur: Talið þið við þennan – eða talið þið við hinn. Við búin að tala við alla. Og út af fyrir sig er það merkileg staða og auðvitað lærdómsrík. Þetta eru viðtökurnar og viðhorfin til okkar.
Ráðherra hefur sagt við mig: Helgi – Þú verður að átta þig á því að það er fullt af eldra fólk sem hefur það bara gott... Og ég hef svarað: EN EKKI HVAÐ? Eigum við að hafa það skítt? Eftir 40 til 50 ár á vinnumarkaði, - eigum við þá rétt að skrimta? Eða vera fyrir neðan öll mörk, sem því miður er reyndin. Það er auðvitað óhugnanleg staða þegar greint af frá því að helmingur fólks á vinnumarkaði dagsins í dag eigi í erfiðleikum með á ná endum saman um hver manaðarmót. Á þetta að vera normið? Og menn ræða þetta ekkert frekar.
Svo er kominn nýr tónn í umræðuna. Það var efnt til umræðu um kjaragliðnun á Alþingi í þar síðustu viku. Milljarðamæringur úr Garðabæ, fjármálaráðherra í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. kannaðist ekki við annað en að sífellt væri verið að hlaða undir eldra fólk eins og aðra í þessu þjóðfélagi og bætti því við að talsmenn eldra fólks færu iöulega með rakalausan þvætting í máli sinu. Rakalausan þvætting.
Okkur er sagt að við séum ein ríkasta þjóð í heimi. Að á fiskimiðum okkar séu um tvö prósent af öllum fiski í heimninum, gríðarleg verðmæti. Ofboðsleg verðmæti. Að við eigum svo mikla peninga að það sé ekki neinu lagi líkt, - 370 þúsund mænur á þessu skeri út í Ballarhafi.
En hvar eru allir þessir peningar? Hvernig stendur á því að öll kerfi þessa samfélags eru undirfjármögnuð. Heilbrigðiskerfi, skólakerfi, félagslega kerfið vegakerfið – öll opinber þjónusta er undirfjármögnuð.
Hvar er okkar hlutur í tveim prósentum af öllum fiski í heiminum? Stórútgerðin hefur haft þessa svokölluöu sameign þjóðarinnar til svo til gjaldfrjálsra afnota í rúm þrjátíu ár.
Það var vissulega einhugur um að vernda þyrfti fiskistofnana á sínum tíma, en engan óraði fyrir þeirri stöðu sem löngu er komin upp, ekki fekar en að lífeyrissjóðakerfið hefði aldrei komist á laggirnar nema gegn loforðum um að það yrði viðbót við lífeyri frá almannatrryggingum. Í báðum tilvikum gengur leikurinn út á að svíkja almenning.
Allan þennan tíma hefur staðið til að skilgreina hlut þjóðarinnar í þessum verðmætum. Og hvað er svona flókið? Á meðan Alþingi hefur þóst vera að ræða tillögur, eða hreinlega ekki gert það og frestað ákvörðunum, hefur stórútgerðin haft ráðrúm til þess að fjárfesta í öllum gerðum fjárfestingarmöguleika, rakað að sér milljarðatugum í arðgreiðslum og veriö að kafna úr hlátri yfir vitleysisgangnum á þingi og reyndar meðal almennings einnig. Hinn almenni kjósandi hefur látið það yfir sig ganga að flokkarnir hafa ekki verið með tillögur um gjöld sem rynnu til þjóðabúsins kosningar eftir kosningar.
Staðan er orðin sú að stórútgerðin er með allan auðinn hjá sér og við í þeirri stöðu að þurfa að spyrja hvort þeir séu ekki til í að borga okkur svolítið?
Það eru menn ekki til í. Það muni koma í veg fyrir fjárfestingu í greininni, leggjast þungt á smærri útgerðir og veikja samfélög við sjávarsíðuna. Bíddu, eruð þið ekki í lagi?
Og við verðum að fara að nefna tölur. Það er til eitthvað sem kallað er veiðileyfagjald, sem er bara djók miðað við fréttir af gríðarlegum aðgreiðslum og hagnaði í íslenskum sjávarútvegi. Miðað við þær fréttir er ekki óeðlilegt að íslensk þjóð vilji fá 200 milljarða á ári fyrir sinn hlut. Kannski er það of lág tala.
Við erum að sækja á stórútgerðina og stórkvótagreifana þar sem fólk veit ekki aura sinna tal í tvo og jafnvel þrjá ættliði. Bara svo það sé alveg klárt, - það á ekki að sækja vangoldiið afgjald af auðlindinni til tríllukarla eða smáfyrirtækja í sjávarútvegi. Menn verða bara að finna leiðir.
Eða erum við orðin of sein? Eigum við ekkert í þessum þjóðarauði? Erum við kannski á ný ein fátækasta þjóð Evrópu með nokkur hundruð skrilljónamæringa í sínum heimi?
Auðvitað blasir hátekjuskattur við. Það er verið að skrásetja eignamyndun og tengingar aðila í sjávarútvegi í öðrum greinum- kaup sem eru fjármögnuð með ofsagróða úr sjávarútveginum. Til hvers má nota þá skráningu?
En þetta fólk eru ekki neinir bjálfar. Nú gildir að verja stöðuna og það er gert með Mogganum, stöðugu eftirliti með blaða- og fréttamönnum og yfirgripsmiklum áhrifum á ákvarðanatöku.
Það eina sem við getum gert er að risa upp. Þó ekki væri nema fyrir komandi kynslóðir. Rísum upp!