Skerðingamálið tapaðist í Hæstarétti
Hæstiréttur kvað upp dóm í skerðingamáli Gráa hersins miðvikudaginn 2. nóvember. Rétturinn staðfesti dóma Héraðsdóms í málinu, en þar var ríkið sýknað af kröfum þremenninganna sem höfðuðu málið fyrir hönd Gráa hersins. Héraðsdómur taldi að lífeyrisrétturinn í almannatryggingakerfinu væri stjórnarskrárvarinn en gerði ekki athugasemdir við fyrirkomulagið sem ríkið notar við greiðslur ellilífeyris. Það gerir Hæstiréttur sem sagt ekki heldur. Það er því niðurstaðan á þessum tveimur dómstigum að skerðingarnar eins og þær eru notaðar í almannatryggingakerfinu séu í samræmi við lög og stjórnarskrá. Lögmenn Gráa hersins og þeir sem höfðuðu málið eiga eftir að að fara betur yfir dóminn og ráða ráðum sínum. Það var Flóki Ásgeirsson sem flutti málið í Héraðsdómi en Daníel Isebarn Ágústsson flutti það í Hæstarétti.Flóki Ásgeirsson segir að niðurstaða Hæstaréttar hafi komið sér á óvart, sérstaklega það að Hæstiréttur taki ekki undir það sjónarmið Héraðsdóms að ellilífeyrir almannatrygginga njóti verndar 72.greinar stjórnarskrárinnar, sem fjallar um eignarrétt. Hann segir það koma vel til greina að leita til Mannréttindadómstóls Evrópu í Strassburg með málið, en það verði að koma í ljós hvort sú leið verður valin.Ingibjörg H Sverrisdóttir ein þremenninganna sem höfðaði málið fyrir hönd Gráa hersins segir niðurstöðu Hæstaréttar vonbrigði vegna þess að þau hafi haft væntingar um að það yrði hægt að hrinda því óréttlæti sem fjöldi eldra fólks býr við í almannatryggingakerfinu. Sjálf þurfi hún að greiða 74% jaðarskatt „Það er ekkert skrítið að maður upplifi það sem óréttlæti. Ef ég vinn fyrir meiru en 200.000 krónum á mánuði sem er heimilt að gera, þarf ég að greiða 74% skatt af því sem er umfram“, segir hún og fjöldi fólks í samfélaginu sé í sömu stöðu. „Ég borga skatt í miðþrepi af 200.000 krónunum, en um leið og ég fer fram yfir það er ég komin í allt aðra skattprósentu en fólk í samfélaginu almennt“. Ingibjörg segir að lögmennirnir eigi eftir að fara betur yfir málin og eitt af því sem komi til álita sé að það fari til Mannréttindadómstólsins í Strassburg.