Starfsemi Félags eldri borgara á Selfossi

„Hver sótt er hörðust undir batann“ er málsháttur sem gæti átt við í aðdraganda þorra. Covid 19 veldur usla um þessar mundir og náð hraðari og meiri útbreiðslu frá upphafi. Sóttin gæti verið á lokasprettinum sé tekið mið af frásögnum sérfræðinga. Félag eldri borgara á Selfossi, FEBSEL, hefur öðru sinni á veirutímabilinu lagt niður starfsemi á vegum félagsins. Ekki verður farið aftur af stað fyrr en fjöldatakmörkunum verður aflétt. Staðan hefur verið erfið eldra fólki, félags- og hreyfilega. Aðdáunarvert er hvað þessi stóri hópur hefur sýnt mikla þolinmæði, skilning og skynsemi þann tíma sem faraldurinn hefur staðið. Þetta fólk á virkilega hrós skilið. Þrátt fyrir allt hefur verið hægt að halda uppi viðburðum og afþreyingu á milli bylgja faraldursins. Því er fyrst og fremst að þakka skipulagi og vinnu nefnda- og stjórnarfólks. Oft var búið að leggja mikla vinnu í að koma á viðburðum sem þurfti svo að hætta við vegna fjöldatakmarkana. Það var þessu fólki ekki auðvelt að taka ákvörðun um slíkt. Stóra markmiðið var að láta lýðheilsu fólks njóta vafans. Í dag sést varla á milli varða á slóð faraldursins og engu hægt að spá hvenær linnir en minnumst málsháttarins hér í upphafi. Um leið og birtir verður farið af stað þar sem frá var horfið fyrir jól. Markmið FEBSEL er að skipuleggja tómstunda- og félagsstarf eldra fólks, vinna að því að ríki og sveitarfélag sinni velferðarmálum, stuðli að aukinni þjónustu og öðrum hagsmunamálum eins og lög kveða á um. Þetta eru sífelluverkefni sem félagið þarf stöðugt að vekja athygli stjórnmálafólks á og hvetja til athafna. Í Grænumörk hefur í gegnum árin verið byggð upp mjög góð aðstaða fyrir margs konar félagsstarf og nú síðast frábær tvískiptur salur, Mörk, með eldhúsaðstöðu sem þessa daganna er verið að stækka og endurbæta. Með því er hægt að nýta aðstöðuna betur til viðburða þar sem boðið verður uppá kaffi- og matarveitingar. Það er einlæg ósk stjórnar FEBSEL að í nálægri framtíð verði mögulegt að bjóða uppá heitan mat í hádegi sem fólk geti neytt á staðnum. Stjórn FEBSEL þakkar fyrr- og núverandi bæjarfulltrúum og starfsfólki Fjölskyldusviðs Árborgar öll þau góðu verk sem unnin hafa verið í þágu eldra fólks og minnir á að það sem er gott má gera betra, að því skulum við vinna saman. Síðast en ekki síst er öllum þeim félögum í FEBSEL þakkað óeigingjarnt starf sem þeir hafa lagt af mörkum í nefndum og annari aðkomu. Án slíks verður fátækleg starfsemi. Þorgrímur Óli Sigurðsson,formaður Félags eldri borgara Selfossi. 

  • Greinin birtist fyrst á DFS.is

 

Previous
Previous

Útreikningur á greiðslum og skerðingum ellilífeyris 2022

Next
Next

Skrifstofan lokuð vegna samkomutakmarkana