Styrkja heilsurækt aldraðra í Hafnarfirði

Styrkir verða 4.000 krónur á mánuði                                                                                      Hreyfing Hvers kyns líkamsrækt bætir heilsu og líðan eldri borgara.„Hugmyndin með þessu er að skapa hvatningu til hreyfingar og bæta líðan og lífsgæði eldri borgara,“ segir Rannveig Einarsdóttir, sviðsstjóri fjölskylduþjónustu hjá Hafnarfjarðarbæ, um styrki sem bæjarfélagið veitir íbúum 67 ára og eldri til íþróttaog tómstundastarfs. Á fundi fjölskylduráðs bæjarins í síðustu viku var samþykkt að leggja til við bæjarstjórn að styrkurinn verði hækkaður og fylgi framvegis þróun frístundastyrkja fyrir börn og ungmenni. Rannveig segir að þetta þýði að mánaðarlegur íþrótta- og tómstundastyrkur til hvers eldri borgara í Hafnarfirði hækki í 4.000 krónur, 48 þúsund krónur á ári, en hann er nú 1.700 krónur ellefu mánuði ársins. Hún segir að stuðningur af þessu tagi við eldri borgara hafi verið við lýði í Hafnarfirði frá 2011 og notið mikilla vinsælda. Upphaflega var hann bundinn við æfingagjöld hjá Íþróttabandalagi Hafnarfjarðar en nú er hægt að nota hann hjá hvaða viðurkenndum aðila sem er. Rannveig sagðist ekki þekkja til þess hvort sambærilegur stuðningur við íþrótta- og tómstundastarf eldri borgara væri í öðrum sveitarfélögum. Lausleg athugun bendir til þess að svo sé ekki. Í Langanesbyggð geta þó samtök eða hópar eldri borgara, 67 ára og eldri og öryrkja, sótt um styrki til sveitarfélagsins til greiðslu á kostnaði við íþróttaþjálfun eða tómstundaiðkun. Í byrjun þessa mánaðar gerði bæjarstjórn Hafnarfjarðar samstarfssamning við Janus heilsueflingu slf. til eins og hálfs árs í tengslum við heilsueflingu allt að 160 íbúa Hafnarfjarðarbæjar á aldrinum 65 og eldri. Um er að ræða þolþjálfun sem fer fram einu sinni í viku í frjálsíþróttahöllinni við Kaplakrika og styrktarþjálfun sem fram fer tvisvar í viku í heilsuræktarsal Reebokfitnes við Ásvallalaug. Rannveig segir að þeir eldri borgarar sem það kjósi geti m.a. notað styrkinn til þátttöku í þessari heilsueflingu.gudmundur@mbl.is

Previous
Previous

Eldra fólk er unglingar nútímans

Next
Next

Breytingar á réttindum um áramót