Átaksverkefni um frávísun svefnlyfja.
Til að vekja athygli á hættum svefnlyfja fyrir eldra fólk hefur Landssamband eldri borgara í samstarfi við Önnu Birnu Almarsdóttur prófessor við Kaupmannahafnarháskóla ásamt aðilum úr heilbrigðiskerfinu, sett af stað herferð undir nafninu „Sofðuvel“. Átakinu er ætlað að fræða um skammvinn áhrif svefnlyfja og hætturnar af notkun þeirra.
Við fengum heilbrigðisráðherra, Ölmu Möller, til að hleypa átakinu formlega af stokkunum í húsakynnum LEB í dag. Ástæðan fyrir áhuga LEB á málinu er að notkun svefnlyfja á Íslandi er mun meiri en hjá nágrannaþjóðum okkar, sérstaklega í hópi eldri borgara. Svefnlyf geta haft alvarlegar hættur í för með sér og neikvæð áhrif á heilsu, jafnvægi og daglegt líf.
Meginstoðir átaksins eru tveir veglegir bæklingar um svefnlyf og svefngæði. Þessir bæklingar verða fáanlegir ókeypis í apótekum og heilsugæslum um allt land en auk þessu hefur verið sett upp heimasíða átaksins www.sofduvel.is. Fólk sem málið varðar er hvatt til að ná sér í þessa bæklinga og fræðast um hætturnar af svefnlyfjum og hvernig er hægt að ná gæðasvefni án lyfja.
Rannsóknir sýna að svefnlyf hjálpa fólki að sofna einungis að meðaltali 7 mínútum fyrr, lengja svefninn bara um 15 mínútur og mest notuðu svefnlyfin gagnast einungis í 4 vikur. Langtímanotkun er því gagnslaus og það eru til betri lausnir við svefnvanda.
Ísland er hástökkvari í notkun svefnlyfja samkvæmt Norrænni rannsókn frá 2020. Það ár notuðu Íslendingar rúmlega 6 sinnum meira af algengustu svefnlyfjunum en Danir og 3,5 sinnum meira en Norðmenn, sem voru næstir okkur í notkun. Þetta ár fengu 10,4% íslensku þjóðarinnar lyfseðil fyrir svefnlyfjum. Notkunin var mest í hópi eldri borgara og því er brýnt að vekja þá sérstaklega til vitundar um skaðsemi lyfjanna. „Sofðuvel“ átakið leggur til haldbærari lausnir til að vinna á svefnvanda og ná gæðasvefni.