Tvær tillögur til stjórnmálamanna
„Lífeyrir TR þarf að fylgja launaþróun – og hækka þarf almennt frítekjumark lífeyris til að auðvelda eldri borgurum að hverfa af vinnumarkaði.“
Eftir Ingibjörgu H. Sverrisdóttur formann Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni og Hauk Arnþórsson varamann í stjórn:
Ríkisstjórnin og Alþingi þurfa að bregðast við nýjum og aðkallandi aðstæðum í málefnum eldri borgara. Hér er átt við tvennt: (i) Að lífeyrir Tryggingastofnunar þarf að fylgja launaþróun til að kaupmáttur aldraðra rýrni ekki og fátækt aukist ekki meðan kreppan gengur yfir. (ii) Að hækka þarf almennt frítekjumark lífeyris Tryggingastofnunar til að eldri borgarar, 65 ára og eldri (hægt er að flýta töku lífeyris um 24 mánuði), eigi auðveldara með að fara af vinnumarkaði, en við það skapast svigrúm til atvinnu fyrir yngra fólk.
Lífeyrir fylgi launaþróun
Meginkrafa eldri borgara vegna fjárlagagerðar fyrir árið 2021 er að lífeyrir hækki um sömu krónutölu og lægstu laun, eða kr. 15.750. Með því héldist mismunur launatekna og lífeyris sá sami milli áranna 2020 og 2021. Hins vegar ætti þá eftir að leiðrétta eldri kjaramismun, en um árabil hefur dregið í sundur með lífeyri og lægstu launum - og ekki er farið fram á að það verði leiðrétt með einu pennastriki meðan COVID-kreppan gengur yfir – heldur haldið í horfinu.Þetta þýðir að lífeyrir eldri borgara í sambúð (sem um ¾ þeirra munu vera) yrði kr. 272.550/mán. á næsta ári eða kr. 231.676 eftir skatta.Hér er farið fram af sanngirni og raunsæi. Ljóst er að þúsundir eldri borgara hafa ekki annað en lífeyri sér til framfærslu og þyrfti að gera verulega betur ef útrýma ætti fátækt í þessum hópi. Það verkefni verður ekki umflúið. Efnahagsleg staða eldri borgara veldur mikilli óánægju og reikna má með að allir stjórnmálaflokkar þurfi að axla ábyrgð sína á kjörum þeirra þegar til lengdar lætur.
Hækkun frítekjumarks
Almennt frítekjumark vegna lífeyris er nú 25 þús. kr. og sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna er 100 þús. kr. Eldri borgarar sem vinna úti hafa því 125 þús. kr. frítekjumark – en þeir sem hættir eru störfum hafa 25 þús. kr. frítekjumark.Þessar reglur voru settar fyrir nokkrum árum til að mæta kröfum útivinnandi eldri borgara og þörfum vinnumarkaðarins fyrir aukna starfskrafta – en þá þurfti að flytja inn erlent starfsfólk í stórum stíl vegna þenslu.Nú er öldin önnur – útlit er fyrir að um 25 þús. manns verði atvinnulausir um næstu áramót, það er að mestu leyti ungt fólk. Flestir þeirra fara af tekjutryggðum atvinnuleysisbótum um áramót og verða eftir það á strípuðum bótum – þannig að þegar líða tekur á veturinn munu heimili tuga þúsunda íbúa; barna, unglinga og fullorðinna eiga erfitt með, eða verður gert ómögulegt, að greiða af íbúðarlánum sínum.Enda þótt vonir standi til þess að atvinnulífið taki hratt við sér má reikna með tiltölulega löngu atvinnuleysi fyrir marga, bæði vegna mikillar sjálfvirknivæðingar í Covid-faraldrinum, sú sjálfvirkni gengur ekki til baka – og það tekur tíma að ná aftur sama atvinnustigi og var. Atvinnuleysi eftir fjármálakreppuna 2008-2009 óx fram til 2014.Við þessar aðstæður getur ríkið þurft að hvetja eldri borgara til að rýma til á vinnumarkaði – enda beri þeir ekki skarðan hlut frá borði. Það má gera með hækkun almenns frítekjumarks í 125 þús. kr. (þessi tekjumörk eru frá upphafi árs 2017 og samsvara 140 þús. kr. nú – og þyrfti að hækka þau með verðlagsþróun). Það myndi þýða að meira yrði eftir handa hverjum og einum eftir starfslok – og er þá átt við þann hóp sem á meðalmikil og lítil réttindi í lífeyrissjóðum. Þessi breyting er það mikilvæg að hún getur skipt sköpum fyrir ákvarðanir margra um hvenær starfslok eru hagkvæm.Breytingar í þessu efni þurfa að ná til allra 65 ára og eldri, í takt við það að nú er hægt að flýta töku lífeyris um 24 mánuði.Þessu fylgir að sönnu kostnaður fyrir ríkissjóð (auknar lífeyrisgreiðslur), en á móti kemur að atvinnuleysisbætur lækkuðu. Þannig gæti þessi breyting kostað lítið miðað við aðrar lausnir gegn atvinnuleysi.