Verkefni LEB „Umbúðalausir eldri borgarar" hlýtur styrk
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra veitti föstudaginn 7. febrúar styrki til einstaklinga og frjálsra félagasamtaka sem inna af hendi afar mikilvægt starf í þágu umhverfisins og náttúruverndar. Áhersla var lögð á verkefni sem tengjast loftslagsmálum og hringrásarhagkerfinu, en það eru áherslumál hjá umhverfisráðherra.Meðal þeirra sem fengu styrk var LEB - Landssamband eldri borgara fyrir ákaflega spennandi verkefni sem ber heitið „Umbúðalausir eldri borgarar" - Verkefnið er í formi kynningarstikla um hagnýt umhverfisráð, sérstaklega ætluð eldri borgurum og um leið öllum öðrum. Stiklurnar munu væntanlega birtast þegar líður á árið.Guðmundur Ingi bauð handhöfum verkefnastyrkjanna til kaffispjalls í ráðuneytinu í tilefni styrkveitinganna.Verkefnin eru af ýmsum toga og snúast m.a. um vistvænar samgöngur, plastmengun, fatasóun, fuglalíf, votlendi, landgræðslu og landbætur svo fátt eitt sé nefnt. Eins eru styrkt málþing og fundir um ólík umhverfismál, s.s. hálendisþjóðgarð, veiðikort og landupplýsingamál. Umhverfisfræðsla er einnig áberandi meðal verkefna og er hún sett fram í ólíku formi, s.s. á vefnum, í formi fyrirlestra, gefnar eru út bækur, myndbönd og sjónvarpsþættir auk námskeiða.Markhóparnir eru allt frá framhaldsskólanemum til eldri borgara. Þá fá ýmis félagasamtök á sviði umhverfismála ferðastyrki til að auðvelda þeim þátttöku í alþjóðlegu samstarfi.„Það er frábært að geta stutt við bakið á einstaklingum og frjálsum félagasamtökum sem inna af hendi afar mikilvæg störf í þágu umhverfis og náttúruverndar. Í ár lögðum við sérstaka áherslu á að styrkja verkefni sem tengjast loftslagsmálum og hringrásarhagkerfinu, en það eru áherslumál hjá mér sem umhverfis- og auðlindaráðherra,“ segir Guðmundur Ingi.
Sjá nánar um styrkina hér á vef Umhverfisráðuneytisins