Verkefnastjórn um heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk.
Félags- og vinnumarkaðsráðherra og heilbrigðisráðherra hafa lokið að skipa í verkefnastjórn um heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram það markmið að tryggja eldra fólki þjónustu við hæfi, hvort sem um er að ræða stuðningsþjónustu eða heilbrigðisþjónustu, á forsendum þess sjálfs, á réttu þjónustustigi og á viðunandi tíma. Mikilvægt er að samþætta þjónustu við eldra fólk því það mun auka lífsgæði þessa hóps og er mikilvægt til þess að tryggja að þjónustukerfi hér á landi muni ráða við vænta fjölgun eldra fólks á næstu árum. Einstaklingar eiga að hafa aðgang að samþættri þjónustu, heimahjúkrun og stuðningsþjónustu. Þverfaglegt samstarf á milli félagsþjónustu og heilbrigðisþjónustu í málefnum eldra fólks er grundvallaratriði til að ná fram samlegðaráhrifum fagþekkingar á hvoru sviði fyrir sig og tryggja fullnægjandi þjónustu við þennan stækkandi þjóðfélagshóp.
Hlutverk verkefnastjórnar er að leiða vinnu við heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk, að stuðla að samvinnu og samhæfingu á milli ráðuneyta, sveitarfélaga og annarra þjónustuaðila, forgangsraða og útfæra tímasett markmið í aðgerðaáætlun til fjögurra ára sem lögð verði fram á Alþingi vorið 2023. Í framhaldi af því skal verkefnastjórnin vinna skipulega að innleiðingu og framkvæmd fyrrgreindrar aðgerðaáætlunar m.a. með tillögum um hvaða breytingar á lögum og reglugerðum þarf að ráðast í til að ná fram þeim markmiðum sem sett eru fram. Verkefnastjórnin skal hafa víðtækt samráð við sveitarfélög, samtök eldri borgara, þjónustuaðila og aðra hagaðila.
Aðgerðaáætlunin skal a.m.k. fela í sér aðgerðir sem fjalla um:
- samþættingu stuðningsþjónustu og heimahjúkrunar/heilbrigðisþjónustu heim
- þjónustu við fólk með heilabilun
- dagdvöl/dagþjálfun
- heilsueflingu
- einmanaleika og geðrækt
- sértæk húsnæðis- og búsetumál þ.m.t. hjúkrunarheimili
- nýsköpun og tækniþróun
Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skili ráðherrum drögum að aðgerðaáætlun fyrir 15. nóvember 2022.
Verkefnastjórnin er þannig skipuð:
- Ólafur Þór Gunnarsson formaður án tilnefningar.
- Birna Sigurðardóttir fulltrúi félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, án tilnefningar.
- Elsa B. Friðfinnsdóttir fulltrúi heilbrigðisráðuneytisins, án tilnefningar.
- Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir fulltrúi heilbrigðisráðuneytisins, án tilnefningar
- Guðmundur Axel Hansen tilnefndur af fjármálaráðuneytinu.
- Marta Guðrún Skúladóttir tilnefnd af fjármálaráðuneytinu.
- Kjartan Már Kjartansson tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
- Sigrún Ingvarsdóttir tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
- Helgi Pétursson tilnefndur af Landssambandi eldri borgara.