RIKK - Rannsóknarstofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands stendur fyrir fyrirlestraröð um málefni eldri borgara á þessu hausti.
Fimmudaginn 17. október flytur Kolbeinn Hólmar Stefánsson félagsfræðingur, fyrirlestur sem hann nefnir: Lífskjör og afkoma á efri árum. Afleiðingar af ólíku lífshlaupi karla og kvenna.
Fyrirlestrarnir fara fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins, kl. 12.00 - 13.00 og eru allir velkomnir. Kolbeinn Hólmar Stefánsson, sérfræðingur við Hagstofu Íslands, er þriðji fyrirlesari fyrirlestraraðar RIKK á haustmisseri 2019 og nefnist fyrirlestur hans „Tekjur á efri árum: Samspil tekna, réttinda og ólíks lífshlaups kvenna og karla“. Fyrirlesturinn er fluttur fimmtudaginn 17. október, kl. 12:00-13:00, í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands. Í erindinu fjallar Kolbeinn Stefánsson um lífskjör á efri árum með sérstakri áherslu á kynbundinn mun á lífeyristekjum. Hann fjallar um þá þætti sem hafa áhrif á niðurstöðuna, svo sem kynhlutverk og kynbundna verkskiptingu, kynbundinn launamun og hærri tíðni örorku á meðal kvenna en karla. Kolbeinn byggir umfjöllun sína á gögnum frá Hagstofu Íslands, Tryggingastofnun ríkisins og af vefnum Tekjusagan.is. Gögnin benda til þess að lífeyriskerfið framlengi kynbundinn launamun inn á efri árin en að skerðingar lífeyris almannatrygginga dragi þó lítillega úr kynbundnum muni tekna eldri borgara. Kolbeinn hefur starfað við rannsóknir á sviði lífskjara- og velferðarmála frá 2001. Hann lauk doktorsnámi í félagsfræði frá Oxfordháskóla árið 2013. Síðan þá hefur hann starfað hjá Hagstofu Íslands og komið þar að ýmsum verkefnum, svo sem félagsvísum og mælingum á hagsæld og lífsgæðum. Samhliða störfum sínum á Hagstofunni hefur hann verið virkur í rannsóknum og kennslu. Fyrr á þessu ári gaf hann út skýrslu um lífskjör og fátækt barna á Íslandi sem var unnin fyrir Velferðarvaktina og nýverið gaf Öryrkjabandalag Íslands út skýrslu hans um fjöldaþróun örorkulífeyrisþega. Fyrirlesturinn er fluttur á íslensku og er öllum opinn og aðgangur ókeypis. *** Hádegisfyrirlestraröð RIKK á haustmisseri 2019 er tileinkuð öldrun. Í fyrirlestraröðinni munu fyrirlesarar úr mismunandi greinum fjalla um viðfangsefnið út frá ólíkum sjónarhornum. Fyrirlestraröðin er haldin í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands.