Bólusetning árganga hefst í dag
Rúmlega 14.000 skammtar af bóluefni Pfizer hafa borist til landsins og rúmlega 1.200 frá Moderna. Búist er við að í það minnsta 30.000 skammtar berist til landsins á næstu tveimur mánuðum. Sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á fundi almannavarna í gær að ekki væri útilokað að þeir yrðu fleiri.Lyfjastofnun hefur gefið leyfi fyrir bóluefni AstraZeneca og búist er við sendingu á tæplega 14.000 skömmtum í mánuðinum. Enn á eftir að ákveða hvernig það verður notað og sagði Þórólfur vel hugsanlegt að það yrði aðeins fyrir yngri hópa.Bólusetning heilu árganganna hefst í dag og fer fram á Suðurlandsbraut 34. Þetta er fólk í forgangshópi 6. Um helgina voru allir 90 ára og eldri boðaðir í bólusetningu með SMS-skeyti. Einnig verður boðið upp á opið hús fyrir alla þá sem komast ekki á réttum tíma.Hópurinn telur alls rúmlega 2.300 manns, en 70 prósent hafa þegar hafið bólusetningu á hjúkrunarheimilum eða í heimahjúkrun, og nærri helmingur hefur lokið bólusetningu.Vonast er til að klára alla yfir sjötugu fyrir marslok, rúmlega 35.000 manns. Á níræðisaldri eru rúmlega 10.000 manns og hafa 30 prósent þeirra þegar hafið bólusetningu og 10 prósent lokið. Á áttræðisaldri eru tæplega 23.000 en innan við 10 prósent hafið bólusetningu.Fólk á sjötugsaldri er einnig í forgangshópi 6, rúmlega 37.000. Hefur það verið gagnrýnt, meðal annars af Öryrkjabandalagi Íslands og Downs-félaginu, að fólk með langvinna sjúkdóma sé á eftir í forgangsröðun, í hópi 7.Aðrir árgangar eru í hópi 10, þar á meðal börn sem ekki er mælt með að bólusetja.