Á nýju ári er af mörgu að taka sem unnið er að hjá LEB. Hér er stiklað á því helsta.
- Akstur á efri árumNýr bæklingur um akstur á efri árum sem LEB hefur unnið í samstarfi við Samgöngustofu og ýmsa sérfræðinga með styrk frá félagsmálaráðuneytinu er nýkominn úr prentun. Hann verður sendur til félaga innan LEB með félagsblaðinu í vor. Bæklingurinn verður einnig aðgengilegur á vef LEB.
- Velferð eldra fólks á RÚVNú er í undirbúningi fræðslufundur sem verður sjónvarpað á RÚV um heilsu og velferð eldra fólks. LEB stendur fyrir þættinum í samstarfi við Öldrunarráð Íslands. Öflug dagskrá sem hefur það að markmiði að fræða og efla fólk sem margt hefur einangrast út af Covid-19. Dagskráin verður fjölbreytt og koma margir að henni. Fræðslufundurinn verður í sjónvarpi RÚV miðvikudaginn 9. febrúar og hefst kl. 13.00 og mun standa til kl. 15.00. Eftir það verður hann aðgengilegur á streymisveitum sjónvarps og í spilaranum á vef RÚV. Endilega bendið félögum ykkar á þáttinn.
- Viðurkenning ÖldrunarráðsÖldrunarráð Íslands hefur árlega veitt viðurkeningar í málefnum sem snerta eldra fólk. Á árinu 2020 fékk Ágústa Þorkelsdóttir á Refstað viðurkeningu fyrir félagsstarf á sínu svæði en hún er formaður Félags eldri borgara Vopnafirði og Bakkafirði. Verkefnið sem hún fær viðurkenningu fyrir er söfnun ljósmynda af fólki, leit að nöfnum þeirra og skráning safnsins. Safnið hefur margfaldast á nokkrum árum og er mikilvæg heimild og framúrskarandi menningarstarf. Hún fékk áritaðan verðlaunagrip sem er stórt egg eftir listakonuna Koggu.
- Afsláttarbókin 2021Vinna við Afsláttarbókina er hafin og söfnun afsláttarkjara hjá fyrirtækjum sem vilja veita eldri borgurum betri kjör er farin í gang. Vel verður staðið að verkinu og vönduð vinnubrögð. Okkur langar til að bókin verði öflugri en nokkru sinni fyrr. Mikilvægt er að fá afsláttarkjör frá öllu landinu því eldri borgarar eru duglegir að ferðast og verður örugglega svo í vor, sumar og haust. Þá er gott að geta notið vildarkjara sem víðast um landið.
- Nú er lag: Fjölgum félögum!Nýjustu tölur um fjölda þeirra sem er yfir 60 ára á landinu eru mjög háar, eða rúmlega 70 þúsund manns. Þar af er stærsti aldurshópurinn 60 – 70 ára, eða um 37.000 manns. Þetta er fólk sem okkur vantar í félögin. Afsláttarbókin er eitt af því sem hefur hvað mest laðað fólk að að gerast félagar í félagi eldri borgara. Við hvetjum félögin til að fjölga félagsmönnum, því nú er lag.
- Umhverfið er líka okkar mál. Afi og amma redda málunum!LEB er með í undirbúningi umhverfisátak sem er fólgið í gerð stikla um hvað við getum gert á einfaldan hátt til að leggja umhverfinu lið. Stiklurnar verða sýndar í sjónvarpi, heimasíðum og samfélagsmiðlum. Verkefninu var formlega hrint af stað þegar formaður LEB afhenti umhverfisráðherra eintak af tauburðarpoka í upphafi árs sem LEB hefur látið framleiða með áletruninni Afi og amma redda málunum! . Hér er frétt um viðburðinnTauburðarpokinn er til sölu sem fjáröflun fyrir LEB en er jafnframt umhverfisátak þar sem plastpokasölu var hætt í upphafi árs. Fólk kvartar yfir að nú sé ný vá sem eru pappírspokar. Þeir eru líka óheppilegir þar sem pappír er unnin úr trjám eða trjákvoðu. Í framleiðsluna þarf að fella þúsundir trjáa. Venjulegir taupokar eða gömlu góðu innkaupanetin eru því að koma aftur. Sendum um allt land og er sendingargjald innfalið í verðinu. Hér er hægt að kaupa tauburðarpokann
- Rafrænir kennslubæklingar fyrir spjaldtölvurKennslubæklingarnir fyrir spjaldtölvur sem LEB lét gera hafa notið mikilla vinsælda. Enn er hægt að kaupa þá í pappírsútgáfu hjá LEB. Hér eru upplýsingar um hvernig er hægt að panta þáFélagsmálaráðuneytið hefur nú gert LEB kleift að hafa kennslubæklingana aðgengilega endurgjaldslaust í rafrænu formi. Hér er hægt að nálgast þá útgáfu. Flest félög eldri borgara sem hafa sínar eigin heimasíður hafa einnig sett kennslubæklingana rafrænu á sínar síður.
- Starfshópur um lífskjör og aðbúnað aldraðraFulltrúar LEB hafa verið ötulir í starfshópi félagsmálaráðherra um aðbúnað og lífskjör aldraðra. Í starfshópnum er verið að vinna mikið starf með fulltrúum félagsmálaráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis og fjármálaráðuneytis, auk annarra hagsmunasamtaka. Starfshópnum er ætlað að ljúka störfum í vor með skýrslu um verkefni sem fara ýmist þegar í vinnslu eða með áætlun um hvenær þau eigi að koma til framkvæmda.
- Kjaranefnd LEBNýleg kjaranefnd hefur tekið til starfa. Hún ásamt stjórn LEB sendu frá sér harðorðaðar ályktanir vegna kjara eftirlaunafólks eins og þau birtust í frumvarpi ríkisstjórnarinnar til fjárlaga fyrir árið 2021. Daufheyrðust stjórnvöld við þeim sjálfsögðu kröfum um leiðréttingar. Kjaranefnd og stjórn LEB stóðu fyrir auglýsingaherferð á síðustu dögum umræðunnar um fjárlagafrumvarpið sem vöktu mikla athygli – en því miður minni árangur. Ríkisstjórnin sat við sinn keip og hækkaði „ellilífeyri“ aðeins um 3,6% þann 1. janúar 2021. Og frítekjumörk standa enn óhögguð: 25.000 kr. á almennar tekjur (síðan 2017) og 100.000 kr. á atvinnutekjur (síðan 2018) hjá TR. Enn er mikið verk að vinna í að koma á margskonar leiðréttingum. Þó róðurinn sé erfiður, höldum við ótrauð áfram.
- Fólk með skerta búsetu hérlendis fær loksins líka lífeyriNýju lögin um félagslegan stuðning til fólks með skerta búsetu sem tóku gildi 1. nóvember sl. eru nú farin að virka. Hér er um að ræða fólk sem er fætt á Íslandi en hefur dvalist langdvölum erlendis og hafa ekki eignast þar neinn, eða lítinn, rétt til lífeyris. Eins fólk af erlendum uppruna sem hér býr án nokkurra eða lítilla lífeyrisréttinda í upprunalandinu. Þó vitneskja um þessi réttindi sé farin að breiðast út, þá hefur það gerst mjög hægt. Við hvetjum ykkur öll til að litast um í ykkar nærumhverfi og huga að hvort þar sé einhvern að finna sem á þennan rétt en veit ekki af því. Látið hann vita.
- Sjálfboðaliðar efla eigin dáð og annarraLEB hefur verið í samvinnu við Rauða krossinn að efla sjálfboðaliðastarf eldra fólks í þágu eldra fólks. Sérstaklega nú á Covid-19 tímum þegar fólk hefur þurft að einangra sig vegna veirunnar. Þetta hefur haft í för með sér félagslega einagrun og einmanaleika. Félagsmálaráðuneytið hefur ákveðið að veita LEB og Rauða krossinum styrk til að efla starf sjálfboðaliða sem eru símavinir eldra fólks, göngufélagar og heimsóknarvinir svo dæmi séu nefnd, þegar samkomutakmarkanir minnka með aukinni bólusetningu. Styrkurinn er m.a. ætlaður til að halda námskeið fyrir sjálfboðaliða til að efla þá í starfi og verður það kynnt enn frekar á næstunni.
- Nýtt aðsetur LEBLEB hefur flutt aðsetur sitt í Ármúla 6, 108 Reykjavík, 1. hæð. Skrifstofan var svo lítil á gamla staðnum að hún rúmaði varla nema einn í einu. Nú getum við látið hendur standa fram úr ermum enn frekar og einnig tekið á móti ykkur. Velkomin!
Munið að gerast vinir Fecebooksíðu LEB, þar eru stöðugar nýjar fréttir úr ýmsum áttum: https://www.facebook.com/landssambandeldriborgaraÞá er heimasíða LEB full af fróðleik: www.leb.is LEB stendur með eldra fólki. Við munum ávallt standa vörð um málefni eldra fólks. Með góðum kveðjum og ósk um að hækkandi sól veiti birtu og yl í hjörtu ykkar allraÞórunn SveinbjörnsdóttirFormaður LEB - Landsambands eldri borgara.