Þeir sem eru sextugir og eldri teljast í áhættuhópi þegar flensa geisar og eru hvattir til að láta bólusetja sig. Sama er uppá teningnum í COVID-19 veirusýkingunni sem nú herjar á veröldina, nema að það er engin lækning við þessari nýju veirusýkingu og engan hægt að bólusetja. Þess eru dæmi að Félög eldri borgara hafi brugðist við og gripið til ráðstafana til að vernda sitt fólk.Landssamband eldri borgara hefur sent öllum félögum eldri borgara, upplýsingaspjald sem sýnir hvernig best er að verjast smiti. Formaður Landssambands eldri borgara sagði í samtali viðblaðamann Vísis nýlega að hún óttaðist ekki að kórónaveiran myndi höggva skörð í hóp eldri borgara. Hún segir enn fremur að ótrúlegt æðruleysi fylgi aldrinum og telur ofmælt að eldri borgarar landsins séu skelkaðir vegna COVI-19 veirunnar, en blaðamaður Vísis hafði rætt við nokkra sem voru óttaslegnir.Fyrir liggur að veiran ógnar helst lífi þeirra sem eldri eru, eða eru með undirliggjandi sjúkdóma. Þórunn segir gamalt fólk hafa lifað tímana tvenna og hafi fylgst með mörgum faraldrinum ganga yfir og segir við blaðamann.
„Ég upplifi það að fólk er sátt við sína ævi. Ég skynja ekki ótta í okkar röðum. Frekar að fólk ætli sér að vera varkárt,“ segir Þórunn. Hún bendir á að eldri borgarar fari til dæmis frekar út í búð þegar færri eru að versla. Það gerir fólk meðal annars út af umferðarþunga, en Þórunn ætlar að eldri borgarar skerpi meira á því nú og forðist fjölmenni“. Þegar Vísir náði tali af Þórunni var hún einmitt nýkomin af stjórnarfundi Landsambandsins og þar var verið að ræða stöðuna. „Upplifunin þar var sú að þetta sé eðlilegt, það að einhverjir verði óttaslegnir. En þá sérstaklega þeir sem búa einir, við hvern eiga þeir að tala? Og þar kemur hjálparsími Rauða krossins til skjalanna,“ að sögn Þórunnar. „Fólk á ekki að hika við að hringja og fá útrás fyrir kvíðatilfinninguna. Það eru mín ráð.“