Er þjóðarsátt án eldri félagsmanna?

Þorbjörn Guðmundsson formaður kjaranefndar LEB skrifar pistilinn:

 

Að skapa aðstæður til þess að gott sé að eldast þarf að horfa til mikilvægra þátta, eins og: fjárhagslegt öryggi, góður aðgangur að heilbrigðiskerfinu, félagsleg virkni og góð þjónusta þegar fólk getur ekki lengur séð um sig sjálft vegna veikinda.

Ísland er ríkt land með þjóðartekjur á mann með því hæsta sem þekkist í heiminum. Ísland skilgreinir sig sem velferðarsamfélag að norrænni fyrirmynd þar sem jöfnuður er meiri en almennt þekkist. Íslendingar eru lengur á vinnumarkaði og skemur á ellilífeyri en hjá samanburðarlöndum okkar sem ætti að skapa aukið svigrúm til að tryggja fjárhagslegt öryggi eldra fólks.

Íslendingar hafa greitt í lífeyrissjóði lengur en flestar þjóðir og nú er svo komið að lífeyrissjóðir greiða stærri hluta ellilífeyris. Af þessu má leiða, ef rétt er gefið, að íslenskt eldra fólk búi almennt við betri skilyrði en þekkist í öðrum löndum.

En er það þannig?

Skoðum þetta nánar. Rúmlega 50.000 einstaklingar eru 67 ára og eldri og um 40.000 fá einhvern lífeyri frá Almannatryggingum en óskertur ellilífeyrir er í dag 333.194 kr. mánuði fyrir skatta og skerðingar.

Á móti koma greiðslur frá lífeyrissjóðum en miðgildi þeirra greiðslna er 236.000 kr. sem  þýðir að 20.000 manns er með minna og sumir mikið minna. 236.000 kr. lífeyri frá lífeyrissjóði skerðir lífeyri frá almannatryggingum um 94.950 kr. Heildartekjur fyrir skatta í þessu dæmi eru 474.000 kr. og útborgaður lífeyri 388.000 kr. Allir sem eru undir miðgildinu eru með lægri lífeyri.

Eru þetta laun sem tryggja fjárhagslegt öryggi?

Mikilvægt er að skoða þessar tölur í tengslum við almenn laun í landinu en meðallaun fólks á vinnumarkaði eru í kringum 700.000 kr. Fjárhagsleg staða eldra fólks er spegilmynd af vinnumarkaðinum. Sumir eru með góðan lífeyri sem er frábært en aðrir eru í hópi þeirra sem hafa hvað minnst.

Framfærslukostnaður og kaupmáttur eldra fólks ræðst af verðlagi hverju sinni eins og hjá öðru launafólki. Verðbólga og háir vextir hafa bitið illa ekki síst hjá þeim sem eru með minnstan lífeyri.

Það má böl bæta

Samtök eldra fólks hafa barist fyrir því að skerðingar verði lækkaðar m.a. með því að hækka frítekjumark en það er 25.000 kr. og hefur verið óbreytt frá ársbyrjun 2017 og ráðist verði í aðgerðir til að bæta kjör þeirra lífeyristaka sem eru með lökustu kjörin.

Það má gera með samspili skattabreytinga og breytinga á skerðingum auk þess verði innleidd afkomutrygging. Áhersla er einnig lögð  á farið verði í vinnu við að lagfæra ýmis minniháttar atriði sem eru löngu úrelt og eru ekki í neinu samræmi við almenna framkvæmd t.d. skattalaga. Þrátt fyrir fögur fyrirheit stjórnvalda hafa þessi baráttu mál eldra fólks ekki fengið framgang.

Samtök eldra fólks hafa leitað til verkalýðshreyfingarinnar eftir stuðningi við að rétta við kjör eldra fólks, enda má segja að langstærsti hluti ellilífeyristaka séu eldri félagsmenn stéttarfélaganna.

Varla „þjóðarsátt“ án okkar

Nú er rætt  um þjóðarsátt og kjarasamninga til fjögurra ára sem er fagnaðarefni. En þegar rætt er um þjóðarsátt er mikilvægt að horft sé til allra en ekki bara sumra. Ef það tekst að mynda samstöðu um leiðir til að bæta almenn lífskjör með minni verðbólgu og auknum kaupmætti hlýtur það að eiga jafnt við þá sem eru á vinnumarkaði og þá sem taka laun sín í formi lífeyris.Það eru um 80.000 manns sem falla undir skilgreininguna 67 ára og eldri og öryrkjar. Að tala um þjóðarsátt án þess að þessi stóri hópur sé hafður með stendur tæplega undir nafni.Samtök eldra fólks og eldri félagsmenn í stéttarfélögum beina því til þeirra sem  sitja við samningaborðið að horfa til heildarinnar og tryggja að framgang mála sem snerta kjör þeirra eins og annara. Með þeim hætti búum við til þjóðarsátt sem bætir kjör allra, gerir gott samfélag betra og þá verður betra að eldast. 

Greinin birtist fyrst í Heimildinni 11. janúar 2024

    

Previous
Previous

Verkalýðsfélagið Hlíf styður kjarabaráttu eldra fólks

Next
Next

Gott að eldast á island.is