Fólki á eftirlaunum hefur fjölgað um helming (50%) á rúmum áratug
Sífellt fleira eldra fólk hefur allar sínar tekjur frá lífeyrissjóðum en fá engan ellilífeyri frá Tryggingastofnun. Fólki á ellilífeyri hefur fjölgað um helming á rúmlega áratug. Á síðustu áratugum hefur hlutfallið milli starfandi fólks á vinnumarkaði og einstaklinga á eftirlaunum farið úr 7,0 í 5,3.
Ellilífeyrisþegar eru tæplega 50 þúsund talsins og örorkulífeyrisþegar nær 20 þúsund, samkvæmt nýuppfærðum tölum Hagstofunnar, sem miðast við árslok 2019. Ellilífeyrisþegum fjölgaði um fjögur prósent milli ára en örorkulífeyrisþegum um eitt og hálft prósent.Ef litið er lengra aftur í tímann má sjá að ellilífeyrisþegum hefur fjölgað úr þrjátíu og þremur þúsundum árið 2007 í 49 þúsund árið 2019, um nærri helming á sama tíma og landsmönnum hefur fjölgað um einn sjötta. Hlutfall ellilífeyrisþega af öllum landsmönnum hefur hækkað úr tíu og hálfu prósenti í þrettán og hálft prósent á þessu tímabili. Örorkulífeyrisþegum hefur fjölgað um tæplega þriðjung frá árinu 2007.Í byrjun síðasta árs voru 5,3 á vinnumarkaði fyrir hvern einn einstakling á eftirlaunum hérlendis, einum færri en áratug áður og tveimur færri en árið 1980. Samkvæmt mannfjöldaspám gætu vinnandi einstaklingar á hvern ellilífeyrisþega verið orðnir um það bil fjórir eftir áratug og þrír um 2050.Mikil breyting hefur orðið á samsetningu ellilífeyrisþega á tímabilinu. 2007 voru ellilífeyrisþegar sem fengu allar sínar tekjur frá Tryggingastofnun tæp sjö prósent allra eftirlaunaþega en eru nú tæp þrjú prósent. Þeir sem fá engar bætur frá Tryggingastofnun en aðeins lífeyri frá lífeyrissjóðum voru tæp þrettán prósent hópsins árið 2007 en eru nú 26 prósent hans. Fólk sem er með yfir 600 þúsund krónur á mánuði fær ekkert greitt frá Tryggingastofnun.Þrjú og hálft prósent ellilífeyrisþega býr erlendis.