Framfaraskref í lífeyrismálum

Haukur Ingibergsson skrifar:Unnið hefur verið að endurskoðun lífeyrismála frá 2011. Fyrst í nefnd undir formennsku Árna Gunnarssonar, síðar í nefnd undir formennsku Péturs Plöndal og eftir fráfall hans undir stjórn Þorsteins Sæmundssonar, varaformanns nefndarinnar.Til að ná víðtækri samstöðu um eitt mikilvægasta kerfi þjóðfélagsins í félags- og velferðarmálum hafa í nefndunum m.a setið fulltrúar frá þingflokkum á Alþingi, aðilum vinnumarkaðarins, ráðuneyta og samtaka þeirra sem taka lífeyri. Í vinnu nefndanna hafa þróast tvær megintillögur sem Landssamband eldri borgara leggur mikla áherslu að gangi í gildi um næstu áramót enda um mikilvæg framfaraskref að ræða í lífeyrismálum.

  • Einföldun kerfisins og dregið úr skerðingum: Lífeyriskerfi almannatrygginga verði einfaldað þannig að það sé skiljanlegt og skilvirkt. Almannatryggingar greiði einn ellilífeyri sem komi í stað grunnlífeyris, tekjutryggingar og framfærsluuppbótar. Þessi lífeyrir lækki um 45% af samanlögðum tekjum viðkomandi og verði án frítekjumarka. Með þessu er bundinn endi á 100% skerðingar, þ.e. króna á móti krónu.
  • Valkostum varðandi starfslok fjölgað: Valkostum einstaklinga varðandi starfslok verði fjölgað. Annars vegar með því að einstaklingur geti hafið töku lífeyris hvenær sem er á 15 ára tímabili, það er frá 65 til 80 ára aldurs og hins vegar með því að einstaklingur geti tekið hálfan lífeyri og unnið hálfa vinnu. Til að valkostum varðandi starfslok fjölgi er mikilvægt að samræma réttindakerfi lífeyriskerfi almannatrygginga og hins almenna lífeyrissjóðakerfis.

Í vinnu lífeyrisnefndanna hefur eðlilega verið rætt um áhrif hækkandi lífaldurs landsmanna á atvinnuþátttöku. Nefndin leggur til að lífeyrisaldur, sem nú er 67 ára, verði hækkaður í skrefum í 70 ára á næstu 24 árum. Hækkunin verði 2 mánuðir á ári fyrstu 12 árin og síðan 1 mánuður á ári í 12 ár þar á eftir. Landssamband eldri borgara styður þessa tillögu og telur hana í eðlilegu samræmi við þjóðfélagsþróun.  Haukur Ingibergsson, formaður Landssambands eldri borgara: 

Previous
Previous

Formannafundur

Next
Next

Umboðsmaður aldraðra (RÚV)