Gráa hernum boðið að ávarpa Húsvíkinga 1. maí
„Dagurinn i dag er söguleg stund því þetta er í fyrsta sinn sem eftirlaunafólki er boðið að halda sjálfa hátíðarræðuna á degi verkalýðsins 1. maí og það sem meira er, dagurinn hér á Húsavík er helgaður baráttu eldri borgara fyrir bættum kjörum,“ sagði Ásdís Skúladóttir í ræðu á baráttusamkomu á Húsavík í dag í tilefni verkalýðsdagsins. Hún var þar fulltrúi Gráa hersins.Ásdís sagði enn fremur:
Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum: Framsýn, stéttarfélag – Starfsmannafélag Húsavíkur og Þingiðn, félag iðnaðarmanna, hafa boðið eftirlaunafólki að láta rödd sína hljóma hér í dag. Þetta eru tímamót í sögu 1.maí hér á landi. Heill því fólki sem tók þessa ákvörðun.
Við erum stolt og glöð ég, Erna Indriðadóttir og Viðar Eggertsson að fá að vera hér í dag á Húsavík og fagna með ykkur 1. maí sem fulltrúar Gráa hersins.
Krafa okkar á þessum degi er algjörlega skýr: Við krefjumst þess að fá sömu launahækkanir fyrir eldri borgara og lægst launaða fólkið á íslenskum vinnumarkaði samdi um í nýgerðum kjarasamningum. Við viljum sömu hækkanir frá og með 1.apríl eins og aðrir hafa samið um.
Þegar ég settist niður til að skrifa þessa ræðu þá rifjast upp ýmislegt sem hefur verið hulið þögn í sögu lands og þjóðar. Í dag sviptum við hulunni endanlega af þeirri staðreynd að það eru alltof margir eldri borgarar sem búa við bágar aðstæður og fátækt.
Vafalaust hefur eftirfarandi saga ekki verið í Íslandsögunni sem þið lásuð í barnaskóla eða grunnskóla, en hún er úr “Svaða þætti og Arnórs kerlingarnefs”.
Seint á 10. öld, gerðist á Íslandi svo mikið hallæri að fjöldi manns dó af sulti. Vegna þessa var ákveðið á samkomu héraðsmanna (ráðamanna þess tíma) að gefa fátæku fólki, gömlu fólki, fötluðu fólki, ekkert að borða, veita því öngva hjálp né húsaskjól, né möguleika á að vinna fyrir mat sínum - sem auðvitað myndi þýða bráðan bana fjölda manns. Þessu var skjótt komið til framkvæmda í héraðinu.
Þá var mestur höfðingi í héraðinu Arnór kerlingarnef er bjó á Miklabæ í Óslandshlíð. Er Arnór kom heim af samkomu héraðsmanna þá gekk þegar fyrir hann móðir hans sem ásakaði hann mjög er hann hafði orðið samþykkur svo grimmum dómi yfir fólki.
Tjáði hún fyrir honum hversu óheyrilegt og afskaplegt það væri að menn skyldu setja í svo grimman dauðann móður sína og föður, náfrændur sína, héraðsmenn og vini.
„Nú vit það fyrir víst," segir móðir hans, „þó að þú sjálfur gerir eigi slíka hluti, þá ertu með öngu móti sýkn eða hlutlaus af þessu glæpafullu manndrápi þar sem þú ert höfðingi - ef þú stendur ekki í mót með öllu afli slíkum ódáða."
Arnór skildi góðfýsi móður sinnar og mannkærleik. Tók hann það ráð að hann sendi þegar í stað sína menn um hina næstu bæi að safna saman öllu gamalmenni og héraðsmönnum er út hafði þegar verið rekið og flytja heim til sín og lét þar næra með allri líkn.
Arnór fékk ákvörðun héraðsþingsins hnekkt í framhaldinu. Þessi saga er ekki sögð í skólum landsins.Og sossum skiljanlegt hvers vegna henni er ekki haldið á lofti!
Eins og margir vita hefur Grái herinn nánast eingöngu beint starfi sínu að kjaramálum eldra fólks; við völdum sem sé að vinna að sveigjanlegum verkalokum og þar með „ótímabæru brottkasti“ fólks af vinnumarkaði og að því að fá afnumdar þær „skerðingar“ sem fólk býr við sem hefur átt of mörg afmæli.
Grái herinn er aðgerðarhópur, sjálfsprottinn hópur upp úr öflugu starfi FEBR í tíð Þórunnar Sveinbjörnsdóttur - og Ellerts B. Schram hefur sannarlega fylgt hennar fordæmi – en eins og flestir vita var Þórunn endurkjörin formaður Landssambands eldri borgara í byrjun aprílmánaðar.
Það var mikill baráttuvilji og hugur í mönnum á þessum magnaða landsfundi, þó margt hafi vissulega gott átt sér stað á síðustu árum og áratugum var algjör samstaða um að málin gengju of hægt fyrir sig og alltof oft hefði ekki verið staðið við gefin loforð gangvart okkur eldra fólkinu.
Sagt hefur verið, að stjórnvöld eigi ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi að bíða eftir réttlætinu. Í einu ljóða sinna í Ljóðabókinni „Tvennir tímar,“ segir Björg Pétursdóttir verkalýðsforkólfi og skáld: „ ... fögur loforð þarf að efna“.
Í hinum nýja Lífskjarasamningi þar sem ýmsar kjarabætur komu fram í fjölbreyttu formi, er hvergi minnst á launakjör eldri borgara, enda komu þeir ekki að borðinu í þessum samningum. Af hverju er okkur skákað til hliðar? Hvers vegna eigum við ekki sæti við samningaborðið? Nei, við erum bara sett í nefnd sem skilar ekki af sér fyrr en undir jól – við þekkjum þessa nefnd vel.
Ég endurtek: Krafa okkar er skýr. Við krefjumst þess að fá sömu launahækkanir fyrir eldri borgara og lægst launaða fólkið á íslenskum vinnumarkaði samdi um í nýgerðum kjarasamningum. Við viljum sömu hækkanir frá og með sama degi og aðrir hafa samið um. Það er ófrávíkjanleg krafa Gráa hersins að lægstu eftirlaun verði aldrei lægri en lágmarkslaun í landinu.
Á landsfundi eldri borgara í síðasta mánuði komu hins vegar fram mikil gleðitíðindi því einn aðgerðarhópur Gráa hersins hefur nú þegar hafið undirbúning málsóknar gegn ríkinu og stofnað til þess sérstakan sjóð „Málsóknarsjóð Gráa hersins“ Þessi málsókn er hafin vegna „óréttlátra og yfirgengilegra tekjutenginga“
Í aðgerðahópnum er nú verið að vinna að skipulagsskrá sjóðsins í samráði við lögmenn Málflutningsstofu Reykjavíkur.
Að fara í málssókn hefur lengi verið til umræðu. Það sem hefur hamlað er auraleysi. Framsýn stéttarfélag gekk að vísu fram fyrir skjöldu fyrir margt löngu og sagðist myndu styrkja dómsmálið fjárhagslega. Það gaf byr í seglin. Síðan gerðist það að Verslunarmannafélag Reykjavíkur ákvað eftir fund Gráa hersins með Ragnari Þór Ingólfssyni, að VR myndi styrkja Gráa herinn til að ráðast í slík málaferli, Félag málmiðnaðarmanna hefur gert hið sama, Rafiðnaðarsamband Íslands samþykkt að leggja fram fjármagn og Félag eldri borgara í Reykjavík hefur samþykkti að gerast stofnaðili að málsóknarsjóðnum og að leggja fram peninga.
Síðan hafa borist fyrirheit frá fleiri stéttarfélögum, félögum eldri borgara og einstaklingum um peningalegan stuðning. Þessari málsókn er ætlað að fara „Alla leið“ - upp eftir öllum dómsstigunum og enda fyrir Mannréttindadómstólnum í Strassburg, ef með þarf.
Því það er ósvinna og skammarlegt að okkur aldraða fólkinu sé haldið í fátæktargildru með óréttlátu, ónýtu og gatslitnu kerfi og yfirgengilegum skerðingum - og gera þannig þetta æviskeið lífsins að kvíðvænlegu hlutskipti fyrir fjölda manns. Sá sem er ungur í dag er gamall á morgun!
Fréttir berast af því að eldra fólk deyi á biðlistum hjúkrunarheimilanna – að heimilin séu undirmönnuð. Undirmönnuð! Það er rætt um að gamalt fólk teppi rúmin á hátæknisjúkrahúsunum; sé fráflæðisvandi. Undirmönnun! Amma mín datt fram úr rúmi og brotnaði, mamma mín datt fram úr rúmi og brotnaði, systir mín datt og brotnaði – hvernig skyldi ég brotna?
Það er vissulega ekki hægt að stinga Elli kerlingu af en það er hægt að storka henni vel og lengi með því að leggja áherslu lýðheilsu ungra sem aldinna. Lífsstíll okkar hefur mikið að segja um það hvernig við eldumst, hvernig matarræði okkar er, hvort við hreyfum okkur nóg og síðast en ekki síst hvort við höf aura til að njóta almennra lífsgæða í hvunndeginum. Heilsan er allt í senn, andleg, líkamleg og félagsleg.
Það er nokkuð ljóst að nokkuð hluti gamals fólks hefur um aldir þurft að lifa með ógn þurfalingstilverunnar og ómagastimpilinn yfir höfði sér, síðustu æviárin. Er sú ógn enn til í einhverju formi í því nútíma velferðarsamfélagi sem við lifum í?
Hvernig komum við til móts við þá sem eru gamlir og veikir? Býr fólk á eigin heimili lengur en það getur? Nýtur það „góðfýsi og mannkærleika“. Þurfum við virkilega að hlusta á það í fjölmiðlum að okkur sé alltaf að fjölga eins og við séum náttúruvá eða engilsprettufaraldur.
Áhyggjulausa ævikvöldið er auðsjáanlega ekki fyrir alla, bara suma! Þeir eru líka orðnir ansans ári margir sem kvíða þessu tímabili ævinnar. Vilja ekki vera settir í nefnd, ekki láta tala um sig eins og þeir séu engilsprettufaraldur, ekki vera „bótaþegar”, ekki „ótímabært brottkast” og ekki „fráflæðisvandi” hátæknisjúkrahúsa …..!
Við erum hætt að bíða! Byltingin byrjar á Húsavík!
Myndir: Erna Indriðadóttir