Hvað á að gera ef það verður jarðskjálfti?
Jarðskjálftahrina gengur nú yfir á Reykjanesi og hafa höfuðborgarbúar og íbúar á Suðurnesjum fundið vel fyrir skjálftunum. Stærsti skjálftinn hefur mælst 5,6 að stærð og hafa margir eftirskjálftar komið í kjölfarið. Viðbúið er að grjóthrun geti orðið við þessar aðstæður og fólk er beðið um að hafa vara á undir bröttum hlíðum. Íbúar á suðvesturhorni landsins eru hvattir til að gera viðeigandi ráðstafanir vegna jarðskjálfta. Á vef Veðurstofunnar má sjá upplýsingar um jarðskjálfta sem verða á landinu. Hvað á að gera ef það verður jarðskjálfti?Forvarnir á heimilum eru mikilvægar þegar kemur að jarðskjálftum sem gera sjaldan boð á undan sér, til að minnka líkur á slysum og tjónum. Hér eru nokkur góð ráð:Hvernig hugað skal að húsnæði:
- Festið skápa, hillur og þunga muni í gólf eða veggi. Hafið hjól sem eru á húsgögnum alltaf í læstri stöðu. Ef engin læsing er á hjólunum, setjið þá ramma utan um hjólin til að koma í veg fyrir að húsgagnið fari af stað í jarðskjálfta. Munið hinsvegar að rammi eða læsing á hjólum kemur ekki í veg fyrir að húsgagnið velti
- Látið þunga muni ekki vera ofarlega í hillum eða á veggjum nema tryggilega festa. Hægt er að nota kennaratyggjó til að tryggja að léttari munir færist ekki úr stað við jarðskjálfta
- Festið kynditæki og ofna. Kynnið ykkur staðsetningu vatnsinntaks og rafmagnstöflu
- Festið myndir og ljósakrónur í lokaðar lykkjur
- Hafið þungan borðbúnað staðsettan í neðri skápum og skúffum og setjið öryggislæsingar eða barnalæsingar á skápahurðir til varnar að innihald þeirra falli út úr þeim
- Fyrirbyggið að hlutir geti fallið á svefnstaði
- Gangið vel frá niðurhengdum loftum og upphækkuðum gólfum
- Byrgið glugga eða setjið öryggisfilmu á rúður til að koma í veg fyrir skæðadrífu glerbrota ef rúða brotnar. Látið rúm ekki standa undir gluggum ef hætta er á jarðskjálftum
- Hlustið á tilkynningar og fyrirmæli sem gefin eru í útvarpi og munið: Krjúpa-skýla-halda
Ef þú ert innandyra þegar þegar jarðskjálfti byrjar– ekki hlaupa af stað:
- Haltu kyrru fyrir, mörg slys verða þegar hlaupið er af stað
- Farðu undir borð eða rúm og haltu þér í borð- eða rúmfót
- Krjúptu niður í horni við burðarvegg eða í hurðaropi við burðarvegg
- Verðu höfuð þitt og andlit með kodda- ef þú vaknar upp við jarðskjálfta
- Haltu þig frá gluggum – þeir geta brotnað
- Láttu vita af þér með SMS þegar jarðskjálftinn hættir
Ef þú er utandyra þegar þú finnur jarðskjálfta – ekki hlaupa inn:
- Vertu áfram úti
- Ekki vera nálægt háum byggingum sem geta hrunið eða háum trjám
- Grjóthrun, skriður og snjóflóð geta fallið úr hlíðum og fjalllendi
- Raflínur geta verið hættulegar – varist að snerta þær
- Reyndu að komast á opið svæði þar sem byggingar þrengja ekki að
Ef þú ert að keyra bíl þegar þú finnur jarðskjálfta:
- Legðu bílnum og stoppaðu. Vegir og brýr geta skemmst í jarðskjálfta
- Hafðu sætisbeltin spennt
- Haltu kyrru fyrir í bílnum þar sem hann getur varið þig gegn brotum og braki sem fer af stað í jarðskjálfta – hlustaðu á útvarpið, þar koma jafnan fyrstu upplýsingarnar um jarðskjálftann.