Í mörg horn að líta á Akureyri

„Félag eldri borgara á Akureyri hefur haft aðsetur í Bugðusíðu 1 frá árinu 2005 fyrir skrifstofuhald sitt og starfsemi að stærstum hluta. Akureyrarbær sér félaginu fyrir húsnæðinu ókeypis og greiðir líka rekstrarkostnaðinn. Samkomusalurinn er reyndar heldur lítill og félagið myndi líka þiggja meira rými fyrir félags- og tómstundastarf þess. Því hefur verið hreyft við bæjaryfirvöld að hyggja að því að breyta hér og bæta við. Við sjáum hverju það skilar, samstarfið við bæinn er annars gott og gjöfult á öllum sviðum. Þessa dagana er til dæmis unnið að því að setja sjö manna öldungaráði Akureyrar samþykktir samkvæmt nýjum lögum. Eldri borgarar eiga þar þrjá fulltrúa, Akureyrarbær þrjá og heilsugæslan einn. Ráðið var stofnað árið 2015 að ósk félagsins og er mikilvægur samráðsvettvangur eldri borgara og bæjarins.“Þrír stjórnarmenn Félags eldri borgara á Akureyri tóku á móti gesti að sunnan í erindum Landssamband eldri borgara og sýndu húsakynni félagsins á fögrum laugardagsmorgni á þorra.Félagið rekur félagsmiðstöð fyrir eldri borgara í Bugðusíðu 1 með stuðningi frá Akureyrarbæ. en bærinn rekur aðra félagsmiðstöð í Víðilundi 22. Eldri borgarar í Naustahverfinu nýja velta reyndar sumir hverjir fyrir sér hvort ekki sé kominn tími til þess fyrir bæjaryfirvöld að horfa til að stofna þar til þriðju félagsmiðstöðvarinnar. Svo margir úr þessum hópi samfélagsins í bænum hafi eignast þar íbúðir og líklega hlutfallslega fleiri en til dæmis byggingaverktakar gerðu ráð fyrir.Forystumenn Félags eldri borgara, sem komu við sögu í þorraheimsókninni, voru Halldór Gunnarsson varaformaður, Margrét Pétursdóttir ritari og Hallgrímur Gíslason meðstjórnandi.Halldór var í 12 ár aðstoðarskólastjóri í Glerárskóla, þar áður skólastjóri í Lundi í Öxarfirði í 26 ár.Margrét var á sínum tíma hjúkrunarforstjóri við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri í 2 ár og veitti síðar forstöðu og kenndi við námsbraut sjúkraliða og náttúrufræðibraut Verkmenntaskólans á Akureyri til ársins 2012.Hallgrímur vann í aldarfjórðung hjá Útgerðarfélagi Akureyringa við tölvumál, launamál og starfsmannamál.

Hátt í hundrað manns í félagsvist

Í Félagi eldri borgara á Akureyri eru um 1.500 manns á skrá. Það var stofnað haustið 1982 og verkalýðsfélögin í bænum gáfu því Alþýðuhúsið við Lundargötu fyrir starfsemina. Félagið seldi húsið meira en tveimur áratugum síðar og samdi við Akureyrarbæ um núverandi aðsetur, í hluta neðstu hæðar húss Sjálfsbjargar við Bugðusíðu.Félagið sinnir öflugu félags- og tómstundastarfi af öllu mögulegu tagi, heldur úti vef og Fésbókarsíðu og gætir hagsmuna og málstaðar eldri borgara gagnvart Akureyrarbæ og stjórnvöldum landsins eftir atvikum. Formaður félagsins, Haukur Halldórsson, situr í stjórn Landssambands eldri borgara.Margar nefndir  eru starfandi á vegum félagsins og má ætla að 70-80 manns séu virkir í þessu gangverki í sjálfboðavinnu. Margir leggja mikið af mörkum til að viðhalda og efla tómstunda- og félagsstarfið á hverjum tíma.Alla virka daga er eitthvað á dagskrá í félagsmiðstöðvunum tveimur frá kl. 9 að morgni og langt fram eftir degi, handverk af ýmsu tagi í vinnustofum, billjard, leikfimi, bingó, spil og fræðslufundir. Svo eru þarna námskeið í línudansi, dansi, bridds, skapandi skrifum, framsögn, útsaumi og myndlist, jógatímar og ótal margt fleira.Á fimmtudagskvöldum er félagsvist og þá mæta að jafnaði 70-90  manns til að grípa í spil. Kór eldri borgara, Í fínu formi, æfir tvisvar í viku. Í honum eru 60 söngfélagar.

Erindi um íbúðir fyrir 60+

Félag eldri borgara lætur sig varða húsnæðismál á Akureyri. Búfesti húsnæðissamvinnufélag hefur undanfarin misseri unnið með Akureyrarbæ og Félagi eldri borgara að hugmyndum um að byggja heppilegar íbúðir fyrir eldri borgara og fleiri. Skömmu fyrir jól sendu félögin sameiginlegt erindi til bæjarins þar sem óskað var eftir því að tekið yrði frá, afmarkað og skilgreint byggingarsvæði fyrir „umtalsverðan fjölda íbúða í forgang fyrir 60 ára+.“Tekið var fram að æskilegt væri að íbúðirnar risu í grennd við núverandi þjónustu til handa eldri borgurum eða að ákveðið yrði að reisa um leið þjónustukjarna í tengslum við nýju byggðina.

Previous
Previous

Gæðatónlist til stuðnings orlofi eldri borgara á Löngumýri

Next
Next

Óviðunandi tekjuskerðing í lífeyriskerfinu