Kjaramál eldri borgara verði ekki skilin eftir í tómarúmi

 

Vefsíðan Lifðu núna birti eftirfarandi viðtal við Þorbjörn Guðmundsson formann Kjaranefndar LEB, 5. október 2022

 Landssamband eldri borgara hefur rætt  við forystumenn stéttarfélaganna um að verkalýðshreyfingin tryggi eldri félögum sínum  betri eftirlaunakjör samhliða gerð kjarasamninga.  Þorbjörn Guðmundsson formaður kjaranefndar LEB segir að þessari málaleitan hafi verið vel tekið. Þing ASÍ verður haldið í næstu viku og þar verður nýr forseti kjörinn. Þorbjörn segist binda vonir við að undirtektirnar verði jafn góð eftir þingið, en bankað verði aftur uppá hjá verkalýðshreyfingunni strax að því loknu. Hann segir óvissu um það hvað samið verði til langs tíma, en það sé númer eitt að lífeyrismálin verði ekki skilin eftir í tómarúmi.Hlutverk verkalýðshreyfingarinnar að tryggja góð eftirlaunÞorbjörn sem var framkvæmdastjóri Samiðnar í tvo áratugi, segir að íslenska verkalýðshreyfingin hafi mótað sér þá sýn að að hlutverk hennar sé ekki eingöngu að semja um krónur og aura, heldur beri henni einnig að sinna velferðarkerfinu. „Lífeyrissjóðirnir eru hluti af því og hreyfingin hefur talið það eitt af hlutverkum sínum að tryggja fólki góð eftirlaun meðal annars með lífeyrissjóðunum. Þetta sést áratugi aftur í tímann“, segir Þorbjörn.Um helmingur með minna en meðallaun í landinu„Staðan nú, ef við skoðum fólk á almennum markaði, er sú að þrátt fyrir lífeyrissjóði og almannatryggingar er stór hluti fólks sem er að fara á eftirlaun með lágan lífeyri og það gildir raunar líka um þá sem eru komnir á eftirlaun. Þetta fólk hefur verið á lágum launum og hefur borgað ákveðið hlutfall af þeim lágu launum í lífeyrissjóð og síðan bætast við skerðingarnar í almannatryggingakerfinu. Tölulegar staðreyndir sýna að helmingur þeirra sem er kominn á eftirlaun er með tekjur undir meðallaunum í landinu og hefur það bara ekki gott.  Þetta eru allt félagsmenn stéttarfélaganna og þess vegna lít ég svo á að hlutverki félaganna í  að tryggja fólki góð eftirlaun, sé ekki lokið.“, segir Þorbjörn.Framtíðin lítur betur út en núverandi kerfiÞorbjörn segir að því sé mikið hampað að hér sé besta lífeyriskerfi í heimi. Það þýði ekki endilega að það sé verið að tryggja eftirlaunafólki mjög góð lífskjör, miðað við hversu dýrt sé að lifa á Íslandi. „Ef maður byggi á Spáni myndi þetta duga. Við erum með besta lífeyriskerfi í heimi en það er ekki að skaffa nógu mikið, önnur kerfi skaffa aftur á móti minna“, segir hann. Þorbjörn segist vilja horfa fram á við og það sé meira atriði að móta sýnina fram á við, en velta sér uppúr fortíðinni.  Hann segir ljóst að málefni eldra fólks hafi ekki verið forgangsmál í verkalýðsfélögunum undanfarin ár. „Ég held að fólk hafi dálítið misst sýnina á þennan hóp sem hefur lítil réttindi“, segir Þorbjörn og bætir við að framtíðin líti betur út í lífeyriskerfinu en núverandi staða. „En sá sem er á lífeyri í dag er að lifa á þessu eins og það er í dag og borðar ekki það sem verður eftir 30 ár“.Af lélegum launum  léleg eftirlaun„Hópur eftirlaunafólks hefur það gott á eftirlaunum sem er frábært, en við höfum kannski ekki verið nógu vakandi yfir eðli lífeyrissjóðanna. Ef menn hafa verið á lélegum launum eru þeir líka á lélegum kjörum þegar þeir eru komnir á eftirlaun“, segir Þorbjörn sem er bjartsýnn á að verkalýðshreyfingin bregðist við ákalli eldra fólks um einhvers konar aðkomu að kjarasamningum. „Verkalýðshreyfingin hefur tekið það inná sitt borð að sinna velferðarkerfinu og þetta er hluti af því. Ef menn taka að sér þetta hlutverk verða þeir að sinna því“.

Previous
Previous

07.10.2022 - Frumvarp til fjárlaga 2023

Next
Next

Um 650 milljónum króna úthlutað úr Framkvæmdasjóði aldraðra