Um 650 milljónum króna úthlutað úr Framkvæmdasjóði aldraðra

 

Heilbrigðisráðherra hefur úthlutað rúmum 650 milljónum króna úr Framkvæmdasjóði aldraðra í samræmi við tillögur stjórnar sjóðsins. Áhersla var lögð á verkefni sem bæta aðbúnað íbúa á hjúkrunarheimilum, úrbætur sem tengjast aðgengismálum og öryggismálum og ýmsum stærri viðhaldsverkefnum. Alls bárust umsóknir um framlög til 60 verkefna og hlutu 54 þeirra styrk.Hæstu framlögin renna til hjúkrunarheimila Sjómannadagsráðs, alls um 250 milljónir króna til 14 mismunandi verkefna. Þar af vega þyngst úrbætur á Hraunvangi í Hafnarfirði þar sem m.a. verða gerðar endurbætur á 50 baðherbergjum í einkarýmum íbúa. Einnig verður þar ráðist í innleiðingu nýjungar sem felur í sér hæðarstillanleg salerni og handlaugar og færanleg sturtusett sem auðveldar íbúum að sinna persónulegu hreinlæti og bætir vinnuaðstöðu starfsfólks.Af öðrum verkefnum sem hljóta styrk eru margvísleg endurbóta- og viðhaldsverkefni á hjúkrunarheimilum víðsvegar um landið. Sem dæmi má nefna endurnýjun á lyftubúnaði, endurbætur á netkerfum, uppsetning á nýjum brunakerfum, endurnýjun raflagna og endurbætur á útiaðstöðu íbúa. Sveitarfélagið Ölfus fær tæpar 29 milljónir króna í styrk vegna framkvæmda við nýja dagdvöl fyrir 16 einstaklinga.Framkvæmdasjóður aldraðra starfar á grundvelli laga um málefni aldraðra og er ætlað að stuðla að uppbyggingu og eflingu öldrunarþjónustu um allt land. Stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra annast málefni sjóðsins og gerir árlega tillögur til heilbrigðisráðherra um úthlutun úr sjóðnum. Við úthlutun er umsóknum raðað í forgangsröð í samræmi við viðmið heilbrigðisráðuneytisins um skipulag hjúkrunarheimila 2022.
Previous
Previous

Kjaramál eldri borgara verði ekki skilin eftir í tómarúmi

Next
Next

Miklar skerðingar og skattar gera virkni lífeyriskerfisins að skrípaleik