Málþing á vegum LEB og SÍS um starf öldungaráða

Þann 17. október sl. var haldið fjölmennt málþing á vegum LEB og Sambands íslenskra sveitarfélaga, um starf öldungaráða á vegum sveitarfélaga. Samanlagt tóku rúmlega 150 manns þátt í þessu málþingi, u.þ.b. 80 manns í sal og rúmlega 70 manns í streymi.

Framsögur á þinginu voru margar og fróðlegar, fyrst og fremst af þeirri reynslu sem komin er á starfið hingað til. Það voru æði misjafnar sögur sem við fengum að heyra og ljóst að það er ótrúlega mikill munur á milli sveitarfélaga, hvernig að þessu málefni er staðið.

Eftir að hafa hlýtt á erindin var farið í hópavinnu bæði í salnum og þau sem voru á Teams. Spurningar sem unnið var með voru eftirfarandi:

·       Hvernig er hægt að gera starf öldungaráða skilvirkara, bæta flæði á milli öldungaráða og sveitarstjórna og frá öldungaráði til félags eldri borgara?

·       Gæti annað form eða skipulag gefið eldri borgurum sterkari rödd til að gæta hagsmuna sinna?

·       Hvað geta sveitarfélög gert til að efla og virkja fulltrúa í öldungaráðum?

Útkoman úr þessari vinnu var afskaplega góð og ljóst að það eru ærin verkefni framundan. Ákveðið hefur verið að stofna stýrihóp til að vinna úr þeim mikla efnivið sem er afrakstur vinnuhópanna á málþinginu og hægt verður að fylgjast með framvindu þeirrar vinnu hér á heimasíðu leb.is.

Previous
Previous

Myndband og ljósmyndir frá vinnustofu málþings

Next
Next

Málþing um öldungaráð sveitarfélaganna 17. október nk.