Miklar skerðingar og skattar gera virkni lífeyriskerfisins að skrípaleik

 

Eftirfarandi frétt birtist fyrst á vefritinu Lifðu núna 28. september 2022

 Fáir í hópi eftirlaunafólks á Íslandi eru með góðan lífeyri, nema þau hafi unnið megnið af starfsferlinum hjá hinu opinbera á þokkalegum launum eða verið lengi á mjög háum launum í einkageiranum. Fólk sem hefur unnið mest á almennum markaði (í einkageiranum) og verið á lágum eða milli launum hefur almennt mjög lágan lífeyri, sérstaklega ef það er í sambúð, eins og gildir um þorra eftirlaunafólks. Þetta kemur fram í nýjum Kjarafréttum Eflingar, í grein sem heitir Lágur lífeyrir eftirlaunafólks í „besta lífeyriskerfi heims“. Farið er afar skipulega yfir lífeyrismálin í greininni sem er einkar fróðleg. Þar segir meðal annars að meginþorri eftirlaunafólks stóli einkum á lífeyristekjur sér til framfærslu og það sé mjög lágur lífeyrir.Upplýsingarnar í greininni um tekjur eftirlaunafólks eru fengnar úr Tekjusögu forsætisráðuneytisins árið 2020. Þá voru meðaltekjur eftirlaunafólks einungis um 50% af meðaltekjum vinnandi fólks sem voru um 730.000 á þeim tíma.  Þegar farið er yfir ástæður þessa berast böndin að skerðingunum í almannatryggingakerfinu og þar segir síðan orðrétt.

Skerðingar hjá TR vegna lífeyrissjóðstekna nema rúmlega 50% af því sem fólk hefur úr lífeyrissjóðum og síðan dregst tekjuskattur líka frá (rúm 20%), þannig að kjarabótin vegna aukinna tekna frá lífeyrissjóðum verður einungis um 20-30% af hverjum 100.000 krónum sem fólk fær frá lífeyrissjóðum. Þetta gildir um fólk sem fær á bilinu 25.000 til rúmlega 600.000 kr. á mánuði frá lífeyrissjóðum. Þessar miklu skerðingar TR og háu skattar af lágum tekjum gera virkni lífeyriskerfisins að eins konar skrípaleik, þar sem ríkið er losað alltof snemma og alltof hratt út úr greiðslum ellilífeyris almannatrygginga. Þetta þýðir að næstum öll ávöxtun þess fjár sem greitt er til lífeyrissjóðanna rennur í reynd til ríkisins en ekki til kjarabóta lífeyrisþeganna. Niðurstaðan verður of lágur samanlagður lífeyrir frá lífeyrissjóðum og almannatryggingum fyrir meirihluta eftirlaunafólks. Tilkoma lífeyrissjóðanna hefur þannig í mestum mæli (70-80%) orðið til þess að losa ríkið frá greiðslu ellilífeyris. Kjarabótin til eftirlaunafólks er í algeru aukahlutverki (20-30%). Markmiðið með stofnun lífeyrissjóðanna í kjarasamningum árið 1969 var að hækka lífeyri eftirlaunafólks, en ekki fyrst og fremst að losa ríkið út úr lífeyrisgreiðslum. Sú hefur þó orðið raunin.

Afleiðing af því að ríkið hefur beitt ofurskerðingum í almannatryggingakerfinu er meðal annars sú að að útgjöld hins opinbera til ellilífeyrisgreiðslna í almannatryggingakerfinu eru hinar minnstu sem þekkjast meðal vestrænna þjóða, segir áfram í greininin og bent er á mögulegar breytingar til að rétta hlut eftirlaunafólks.

Íslenska ríkið leggur aðeins til um 2,6% af þjóðarframleiðslu til greiðslu ellilífeyris, en Danir sem eru líka með stóra lífeyrissjóði eins og við greiða um 8%, eða hátt í þrisvar sinnum meira. Sérstaða Íslands á þessu sviði er alger. Að jafnaði þyrfti þorri eftirlaunafólks að fá um 100-150 þúsund krónum meira frá almannatryggingum en nú er, til að lífeyriskerfið rísi undir nafni sem gott lífeyriskerfi. Það er einfaldast að gera með því að hækka frítekjumark almannatrygginga gagnvart lífeyri frá lífeyrissjóðunum, úr 25.000 kr. á mánuði upp í 100-150 þús. kr. Einnig væri æskilegt að lækka beina skatta af lífeyri, eins og gert er í meirihluta vestrænna ríkja. Skattlagning lágra tekna er almennt of há á Íslandi – á sama tíma og skattlagning hárra tekna og fjármagnstekna sérstaklega er frekar lág í samanburði við aðrar þjóðir. Þá er mikilvægt að einfalda stórlega skerðingarkerfi almannatrygginga, svo almenningur geti skilið hvernig kerfið virkar.

Hér hefur einungis verið stiklað á stóru í greininni í Kjarafréttum Eflingar. En það er sannarlega þess virði fyrir áhugasama að lesa hana í heild og það er hægt með því að smella hér.

Previous
Previous

Um 650 milljónum króna úthlutað úr Framkvæmdasjóði aldraðra

Next
Next

Formaður LEB fundar með aðildarfélögum á norður- og austurlandi 26. sept - 1. okt