Nýtt fréttabréf frá Vöruhúsi tækifæranna fyrir desembermánuð

Vöruhús tækifæranna er markaðstorg tækifæra fólks á þriðja æviskeiðinu sem vill móta framtíðina á eigin forsendum.

  

Jólasturlun

Undanfarna daga og vikur hafa dunið á okkar ROSA-TILBOÐ í sjónvarpi, útvarpi, blöðum, vefmiðlum, og óumbeðnum fjölpóstum sem sturtast inn um bréf-og tölvupóstlúgur. Tilefni þessara dúndur-tilboða eru m.a. Dagur einhleypra, Svartur fössari, Svartir markaðsdagar og Stafrænn mánudagur. Þegar þessum rosa-tilboðsdögum lýkur koma svo TAX FREE dagar sem getur virkað einsog afréttari fyrir þá sem duttu í tilboðin. Og hafi manni ekki tekist að gera rosalega góða díla þá er enn von að hægt sé að bæta úr því á væntanlegum janúar-útsölum sem teygjast frameftir febrúar.Þann 25. nóvember birtist áhugaverð grein í Fréttablaðinu eftir Kolbein Marteinsson um hans tengingu jólanna við „Jólapening“.Þar segir Kolbeinn að „ekkert samband í lífi mínu hefur breyst jafn mikið með tímanum og samband mitt við jólin. Sem barn var ég að springa af tilhlökkun og gleði. Jólin voru sannarlega hápunktur ársins. Í dag er það samveran með fólkinu mínu sem mér þykir vænst um við jólin. En jólin eiga sér dekkri hlið sem eru endalaus markaðsskilaboð í aðdraganda þeirra. Skilaboð um að okkur vanti enn þá meira í ár en í fyrra og að eina leiðin til að sýna ást sé með dýrum gjöfum. Niðurstaðan verður oft streita, óþarfa vesen og ofneysla. En verstur er óþarfinn. Allar þessar gjafir sem eru gefnar af því bara og enda eftir opnun í Sorpu eða ruslinu síða.“Þá bendir Kolbeinn á neikvæðar afleiðingar þessara vel smurðu markaðsvéla sem endurtaka í sífellu að það sem við höfum, sé ekki nóg. „Það er keyrð upp sturluð neysla á öllu þegar kemur að hátíð ljóss og friðar“ segir Kolbeinn og hvetur okkur til að gefa minna dót og gefa frekar upplifanir, einsog boðsmiða í leikhús eða gjafakort sem þiggjandinn getur þá ráðstafað að vild. Hann bendir á að rannsóknir hafi sýnt að upplifanir færi okkur miklu meiri gleði og djúpstæðari minningar en eitthvert dót sem við fengum.Að lokum bendir Kolbeinn á að „það að þú eyddir ekki hálfum degi í að finna rétta gjöf handa maka þínum þarf ekki að bera vott um kaldlyndi eða tilfinningadoða. Í stað þess að kaupa gjöf sem þú veist ekki hvort viðkomandi langar í, skaltu skrifa einlægt og fallegt kort með. Slík nálgun eykur hagkvæmni jólanna, sparar mikinn tíma og er svo ljómandi góð fyrir umhverfið. Notaðu svo tímann sem sparast í að njóta.“Stjórn Vöruhúss tækifæranna tekur undir orð Kolbeins og óskar öllum lesendum Fréttabréfsins gleðilegra jóla og gleðilegs nýs árs. 

Senjórítukórinn

 

 

Senjórítukórinn var upphaflega stofnaður sem deild innan Kvennakórs Reykjavíkur árið 1995. Tilgangurinn var að gefa áhugasömum eldri konum tækifæri til að halda áfram að syngja eftir sextugt en yfirleitt er ekki óskað eftir þátttöku kvenna sem komnar eru á efri ár í almennum kórum. Stofnfélagar voru 18 en nú eru félagar um 60 og Senjóríturnar orðinn sjálfstæður kór.Kórkonur eru aldrinum sextíu til rúmlega níutíu ára og hafa margar hverjar starfað lengi með öðrum kórum. Eins og eðlilegt er verða talsverð afföll og býður kórinn nýja kórfélaga innilega velkomna. Æskilegt er að þær hafi reynslu af kórsöng. Áhugi og sönggleði kórkvenna er með ólíkindum og mætingin á æfingar mjög góð.Kórinn æfir einu sinni í viku yfir vetrartímann, heldur að jafnaði eina tónleika á ári og þegar ekki er veira á sveimi syngur kórinn jólalög fyrir vistmenn hjúkrunarheimila og félagsmiðstöðva í desember.Yfirleitt fer kórinn í eitt ferðalag árlega, án kórstjóra, en árið 2016 fór kórinn í tónleikaferðalag til Færeyja með stjórnanda sínum og undirleikara. Það var fyrsta utanlandsferð kórsins og tókst hún með ágætum. Þá hafa Senjóríturnar nokkrum sinnum tekið þátt í landsmótum kvennakóra.Í október 2016 söng kórinn með Ragnari Bjarnasyni við frábærar undirtektir. Þeir tónleikar voru einnig haldnir á Selfossi og í Njarðvík. Í janúar 2020 hélt kórinn tónleika með Braga Valdimar Skúlasyni og tókust þeir líka skínandi vel. Þann 29. janúar 2022 er á áætlun að halda tónleika með Bubba Morthens sem frestuðust vegna covid-19.Kórstjóri er Ágota Joó og maður hennar Vilberg Viggóson hefur annast undirleik og séð um útsetningar fyrir kórinn. Formaður kórsins er nú Silja Aðalsteinsdóttir.

Mannréttindabrot og atgervissóun

  

Jan Marie Fritz
Hér á eftir er stiklað mjög á stóru á því sem kom fram í viðtali Þóru Arnórsdóttur við Jan Marie Fritz, félagsfræðing, í Silfrinu á RÚV þann 28. nóvember s.l. Til upplýsinga þá er Jan prófessor í félagsfræði við Háskóla Cincinnati ríkis í Bandaríkjunum og sérstakur gestaprófessor við félagsfræðideild Háskóla Jóhannesborgar í Suður Afríku auk þess sem hún situr í stjórn alþjóðlegra samtaka félagsfræðinga sem fjalla um mannréttindi og félagslegt réttlæti. Viðtalið má sjá á slóðinni https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/silfrid/30778/95gme0 og hefst á 56. mínútu þáttarins.AldursfordómarJan segir aldursfordóma hafa verið við lýði síðustu 50 árin en þeir séu þó ekki ræddir út frá mismunun líkt og kyn eða kynþáttur. Mikið áhyggjuefni sé að rannsókn sem náði til 58 landa, og úrtakið var 84 þúsund manns, sýndi að meira en einn af hverjum tveimur var annaðhvort haldinn nokkrum eða miklum aldursfordómum. Jan bindur vonir við að allir sem finni fyrir aldursfordómum segi frá, því nauðsynlegt sé að ræða aldursfordóma út frá mannréttindum eldra fólks og félagslegu réttlæti. Það þurfi að taka upp hanskann fyrir eldra fólk líkt og fyrir aðra aldurshópa.Þvinguð starfslok eru brot á mannréttindumJan tók eftir að mjög svo hæft fólk varð að láta af störfum vegna þess að það hafði náð ákveðnum aldri, en þegar hún gáði betur að gat hún ekki fundið neinn lista yfir lönd þar sem þvinguð starfslok, þ.e. starfslok sem eru bundin við ákveðinn aldur, viðgengust, aðeins lista yfir hver væri eftirlaunaaldur í ríkjunum. Þó er vitað um ríki eins og Bandaríkin, Nýja Sjáland, Ástralíu og Bretland sem viðhafa ekki þvinguð starfslok, nema fyrir ákveðnar stéttir eins og flugmenn og lögreglumenn.Jan segir að ástæður þvíngaðra starfsloka séu kerfislægar og dapurlegar og þau séu brot á mannréttindum. Andlegt og líkamlegt atgervi fólks geti verið mismunandi við ákveðinn aldur en mat á því hljóti að vera einstaklingsbundið. Að skylda fólk á eftirlaun við ákveðinn aldur sé líka félagslegt órétti og sóun á starfskröftum þess.ÍslandJan telur að Ísland geti orðið fyrirmynd annarra landa með því að afnema þvinguð starfslok eða vinna að því að svo verði. Ísland sé jú á 12 topp lista yfir launajafnrétti kvenna og karla, númer tvö á hamingjuvoginni og númer eitt þegar kemur að eftirlaunakerfum. Í viðtölum sem hún tók við marga Íslendinga, sem hafa verið skikkaðir á eftirlaun ýmist með eða gegn vilja þeirra, töldu mörg þeirra þvinguð starfslok vera atgervissóun. Starfsstéttir geti þó hætt á mismundandi forsendum eins og að háskólaprófessorar fái t.d. oft starfsaðstöðu á sínum fyrra vinnustað en aðrir í sögðu að þetta væri ekki í boði fyrir þá og öfunduðu prófessoranaJan sendi öllum þingmönnum Alþingis einstaklingsbundin bréf þar sem hún bauðst til þess að deila með þeim upplýsingum sem byggi yfir.Þeim sem hafa áhuga á að kynna sér menntun, störf og rannsóknir Jan Marie Fritz og viðurkenningar sem hún hefur hlotið er bent á https://researchdirectory.uc.edu/p/fritzj

Fjölbreytt starf að málefnum eldra fólks um heim allan Fréttir og tækifæri

U3A Reykjavík hefur allt frá upphafi leitast við að stofna til og viðhalda góðum tengslum við það starf sem unnið er um heim allan til framgangs og stuðnings virkri og farsælli öldrun. Hér má meðal annars nefna aðild að alþjóðasamtökum háskóla þriðja æviskeiðsins, AIUTA , og þátttöku í erlendum samstarfsverkefnum með góðum árangri. Frá þessu starfi er sagt á vefsíðu U3A Reykjavík undir yfirskriftinni Erlent samstarf.Eitt þeirra tengslaneta sem U3A Reykjavík hefur verið í góðum tengslum við er netið Pass it on Network, (PION) sem nær til allra heimshorna og hefur að markmiði að „láta það berast“ sem unnið er að og vel er gert í málefnum eldra fólks til upplýsingar og eftirbreytni. PION er í reynd grasrótarhreyfing eldra fólks á jafningjagrundvelli til þess að efla framgang jákvæðrar og virkrar öldrunar. Á þessum vettvangi hefur U3A Reykjavík kynnt niðurstöður og afurðir þeirra verkefna sem unnin hafa verið og hefur þeim verið afar vel tekið. Einkum hefur Vöruhús tækifæranna vakið mikla athygli og verið metið sem mikilvæg leið til eflingar virkri öldrun. Tengiliðir netsins, kallaðir „PIONeers“, eru staðsettir um heim allan og hefur Hans Kristján Guðmundsson verið tengiliður fyrir U3A Reykjavík. Þess má geta að PION er viðurkenndur aðili að Vinnuhópi Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna um öldrun, OEWGA, sem fjallað var um í októberfréttabréfi Vöruhúss tækifæranna.PION gefur út eigið fréttabréf mánaðarlega með fréttum af verkefnum, námskeiðum og umræðufundum sem haldnir eru á Netinu og opnir þeim sem áhuga hafa á að fylgjast með og taka þátt. Hér fyrir neðan fylgir slóð á fréttir af viðburðum sem skipulagðir eru í desember. Við hvetjum ykkur öll sem hafið áhuga á að fræðast og taka þátt í því starfi sem unnið er í málefnum eldra fólks til að kynna ykkur starf þessa tengslanets. Hér er að finna mörg tækifæri til þess að virkja huga og hönd til framgangs virkrar öldrunar í eigin ranni og samfélaginu öllu. Við bendum sérstaklega á samtalið 13. desember, „50/50“, um samvinnu afa og ömmu við barnabörnin að sameiginlegum markmiðum og „Opna húsið“, 14. eða 15. desember með umræðum um starf netsins og eru nýir þátttakendur sérstaklega velkomnir.Sjá nánar hér um viðburðina í desember.

Hann Palli okkar

 

Hugarsmíðin okkar hann Palli er 69 ára borinn og barnfæddur Ólsari og húsasmiður að mennt. Giftur Sölku, sannri Reykjavíkurmey og bókmenntafræðingi og saman eiga þau einn son. Eftir nokkurra ára vinnu hjá öðrum stofnaði Palli sitt eigið fyrirtæki, Pallahús, sem hann rekur enn í dag. Palli var alinn upp á miklu krataheimili en hefur síðustu ár kosið Flokk fólksins því hann vill standa með lítilmagnanum og þeim sem búa við bág kjör. Kratinn situr enn í honum.Palli er léttur í lund, afkastamikill og með afbrigðum félagslyndur, er í Karlakórnum Kára og í kirkjukór Ólafsvíkur, Rotary, Átthagafélagi Ólafsvíkur og þjálfar að auki 7. flokk drengja í fótbolta. Grípur líka í verk fyrir vini og vandamenn og hefur meira segja velt fyrir sér að bjóða sig fram í bæjarpólitíkina. Palla finnst hann vera að byrja að finna fyrir aldrinum og langar að minnka við sig. Hugmyndin er að láta elsta soninn taka við verkstæðinu en Palli er hikandi. Vill ekki verða „backseat driver“. Salka unir sér vel í starfi sínu á bókasafninu og á ennþá þrjú ár í eftirlaunin.Palli hafði heyrt um Vöruhús tækifæranna en skilið sem svo að það væri bara fyrir háskólamenntað fólk. Ákvað samt að kíkja þar inn og viti menn hann fann einmitt það sem hann var að leita eftir, að vinna með tré en eitthvað léttara en húsasmíðar. Helst vildi hann læra að smíða húsgögn. Upplýsingar um nám í smíði húsgagna fann hann á hillunni Sköpun í rekkanum Færni í Vöruhúsinu, en þar er vísað á Handverkshúsið sem býður upp á stutt vönduð námskeið með þaulreyndum leiðbeinendum í m.a. húsgagnasmíð. Palli var ekki lengi að skrá sig. Kannski hann stofni bara nýtt fyrirtæki, Pallastóll?Nánasta fjölskylda Palla er stór og telur um 40 manns, forelda Palla, fráskilinn soninn, þrjú barnabörn, systkini og þeirra fólk og aðra vandamenn sem búa öll á Ólafsvík. Hjónabandið hefur verið nokkuð gott því þó að þau hjónin séu ekki alltaf samstíga sameinast þau í ást sinni á syninum og börnunum hans.

Viðburðir U3A Reykjavík í desember 2021

 

Sigrún Helgadóttir og Sigurður Þórarinsson
Jólafundur U3A Reykjavík verður haldinn á Nauthóli 7. desember.Sigrún Helgadóttir, líffræðingur, kennari og rithöfundur segir okkur frá ritun ævisögu Sigurðar Þórarinssonar, jarðfræðings, Mynd af manni sem kom út nýlega.Hún segir frá hvers vegna hún fór út í að skrifa þessa bók og frá heimildunum sem hún notaði, en það voru dagbækur, bréf og fleira og hún grípur niður í þær. Sjá nánar hér.Fyrirhugaðri heimsókn í Dómkirkjuna er frestað fram í janúar nk.Námskeið Jóns Björnssonar og Þorleifs Friðrikssonar heldur áfram í janúar, fylgist með á viðburðadagskrá U3A Reykjavík.Fylgist með viðburðum og fréttum úr starfinu á heimasíðunni u3a.is
Previous
Previous

„Ekkert talað um hækkun lífeyris til samræmis við lægstu laun”

Next
Next

Fjöreggið hlaut níræð kona sem heimsækir aldraða