„Ekkert talað um hækkun lífeyris til samræmis við lægstu laun”
„Biðin eftir réttlætinu lengist”, segir Helgi Pétursson formaður Landssambands eldri borgara um það sem fram kemur í stjórnarsáttmálanum nýja, um stöðu eldri borgara.Engin raunhæf áætlun um að bæta kjör þeirra sem standa verst„Það eina sem er fast í hendi gagnvart tugþúsundum eftirlaunaþega er helmings hækkun á frítekjumarki vegna atvinnutekna 67 ára og eldri. Úr 100.000 á mánuði í 200.000 kr. nú um áramótin. Það eru eingöngu um 13% eldri borgara á vinnumarkaði að hluta eða öllu leyti. Flest þeirra á aldrinum 67 – 70 ára og gæti þetta því átt við um 1500 manns. Ekkert er minnst á hækkun frítekjumarka vegna lífeyrissjóðstekna og ekkert er talað um hækkun lífeyris til dæmis til samræmis við lægstu laun. Verst er að það er engin raunhæf áætlun um að bæta kjör um 18.000 eldri borgara sem þurfa að lifa á 200 – 300 þúsund kr. á mánuði. Skerðingar á lífeyri eru afgreiddar með nýjum frestunarfrasa: Horfa þarf til þess að draga úr jaðaráhrifum tekjutenginga og tekjuskatts í almannatryggingum og gera kerfið gagnsærra og réttlátara“, segir Helgi.Landssambandið mun ekki liggja á liði sínuHann segir að allt snúist þetta um efndir. „Landssamband eldri borgara mun auðvitað ekki liggja á liði sínu við að móta aðgerðaráætlun, sitja í verkefnisstjórn, þróa fjölbreyttari þjónustu- og búsetuleiðir, nýta nýjustu tækni í þjónustu við eldra fólk, stórefla heilsueflandi aðgerðir og horfa með stjórnvöldum til þess að leiguíbúðum verði fjölgað”, segir hann. „Við erum svo sannarlega ekki á móti því að afkoma ellilífeyrisþega verði bætt og sérstaklega litið til þeirra sem lakast standa og að almannatryggingakerfi eldri borgara verði endurmetið. Ekki heldur að litið verði til aukins sveigjanleika við starfslok, bæði á almennum markaði og opinberum, hvað þá að útfærðar verði leiðir til þess að auka möguleika á ráðstöfun viðbótarlífeyrissparnaðar. Að maður tali nú ekki um vilja okkar til þess að mótuð verði aðgerðaáætlun um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga,meðal annars með það að markmiði að fækka „gráum svæðum“ í samstarfi ríkis og sveitarfélaga til að tryggja skilvirkari og betri þjónustu og eflingu heilsugæslunnar.Enda ætti hvernig annað að vera? Allt hér að ofansögðu er meira og minna að finna í ábendingum LEB frá því í vor sem tekið var með kostum og kynjum á fundum okkar með ráðafólki í framboði“.Vorum beinlínis kaffærð í skilningiHelgi minnir á að fulltrúar eldri borgara hafi átt viðræður við fjölmarga aðila fyrir kosningar.„Trúlega hafa engir fulltrúar hagsmunasamtaka eins og við fulltrúar Landssambands eldri borgara, mætt eins miklum skilningi og áhuga og við fundum fyrir í heimsóknum okkar til allra stjórnmálaflokka og annarra lykilaðila í íslensku samfélagi, núna fyrir kosningar þar sem við kynntum þeim áhersluatriði eldra fólks. Við vorum beinlínis kaffærð í skilningi.En nú er komið að efndum“. Greinin birtist fyrst í LIFÐU NÚNA