Öldrun getur verið farsæl þrátt fyrir heilsubrest

Já! vissulega er hægt að upplifa farsæla öldrun þrátt fyrir heilsubrest.“Þátttakendur í pallborði í einni af mörgum málstofu LÝSU, rokkhátíðar samtalsins, í Hofi á Akureyri á dögunum voru samhljóða í svörum sínum við spurningu sem fólst í yfirskrift samkomunnar: Farsæl öldrun þrátt fyrir heilsubrest - er hún möguleg?Fundarformið var stutt og snaggaralegt, margir mættu til að hlusta og tjá sig og umræðuefnið kveikti greinilega nógu mikið í mannskapnum til að hægt hefði verið að framlengja fundinn tvöfalt eða meira. Slíkt var bara ekki í boði, sjarmi þessarar rokkhátíðar var einmitt sá að vera knappur í tali og virða tímamörk í hvívetna.

  • Framsögumenn voru Halldór Sigurður Guðmundsson, félagsráðgjafi og framkvæmdastjóri Öldrunarheimila Akureyrar, Rannveig Guðnadóttir, hjúkrunarfræðingur og verkefnastjóri, Ragnheiður Kristjánsdóttir, sjúkraþjálfari með meistarapróf í öldrunarfræðum, og Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara.

Spilamennskan var lífsfylling og orkumikil samskipti

„Stóra verkefnið er að vinna meira og betur með fjölskyldum að þeim verkefnum sem þær sinna því bróðurpartur umhyggju í samfélaginu er innan fjölskyldunnar, ekki á vegum ríkis og sveitarfélaga. Við þurfum að stuðla að því að kerfi opinberrar þjónustu- og umönnunar annars vegar og fjölskyldunnar hins vegar vinni betur saman.“ sagði Halldór Guðmundsson og talaði líka um sjö þætti sem hann kallaði „lykla lífsgæðanna“:

„Tengsl, sjálfræði, öryggi, sjálfsmynd, gleði, tilgangur og umfram allt þroski. Þessir þættir mynda lífsgæði og vellíðan. Spurningin er hver þáttanna skerðist ef heilsan brestur en þegar grannt er skoðað er svarið: Enginn!

Þetta snýr meira um vitund okkar um hvað sé farsæld og farsælt líf. Þetta snýst um aðlögun, hvernig okkur gengur að aðlagast breyttum aðstæðum. Lendi ég í óhappi eða heilsubresti? Aðlagast ég nýjum verkefnum og aðstæðum í lífinu?“

Halldór rifjaði upp æskuminningar sínar af afa og ömmu að spila vist við vini á svipuðum aldri. Hann undraðist að fólkið virtist pirrað við spilaborðið, það skammaðist og barði í borðið en stóð svo upp að spilamennsku lokinni glatt og ánægt með samveruna og spilamennskuna.

„Þarna var komin lífsfylling spilafélaganna, samskipti, tengsl og vinátta. Heilsa þeirra var misjafnlega góð og ýmislegt bjátaði á í þeim efnum. Ekkert vantaði hins vegar upp á lífsgleðina og mikil orka var í samskiptum.“

Ný hugsun og „verkfæri“ starfsfólks frekar en ávísun á róandi

„Vissulega er hægt að fræðast af því að lesa og læra en aldraðir, sem takast á við veikindi og frelsisskerðingu, hafa kennt mér mest. Við eigum að gefa okkur tíma til að hlusta á fólk sem missir þrótt og þrek. Það vill þjónustu á eigin forsendum og flestir kjósa helst að bjarga sér sjálfir sem lengst. Að takast á við breyttar líkamlegar og andlegar áskoranir er mikið þroskaverkefni,“ sagði Rannveig Guðnadóttir.

„Spurning er hvernig við útvegum starfsfólki „verkfæri“ til að vinna með og mæta fólki á þessum forsendum persónumiðrar þjónustu og umönnunar. Auðveldara er á hjúkrunarheimilum og jafnvel í heimaþjónustu að fá lyfseðil fyrir róandi lyfjum og „dempa fólkið niður“ en að fá peninga til að kenna starfsfólki að takast á við breyttar aðstæður og samskipti sem gefa oft betri raun gagnvart fólkinu sem það annast en að nota lyf.

Á ráðstefnu í Noregi nýlega heyrði ég að flestir hætti störfum í umönnunarþjónustunni, hvaða faghópi sem þeir svo tilheyra, vegna þess að þeir fengju ekki að vinna á þann hjartahlýja hátt sem þeir kysu. Þeir væru í staðinn skikkaðir inn í kerfi verkferla og verkefna, fengju ekki notið sín sem einstaklingar í starfi og nýtt eigin þekkingu.

Við verðum að breyta menningu og hugsunarhætti, útvega starfsfólki réttu verkfærin til að nota. Sjúkraliði einn sagði við mig eftir að hafa tekið þátt í breytingum sem tóku áratugi: „Nú fæ ég að vinna eins og ég vil sjálf en var skömmuð fyrir áður!“

Eldri borgarar vilja getað litið sáttir um öxl

„Í rannsóknum leggja aldraðir vissulega áherslu á góða heilsu en hafa ekki væntingar um að vera án sjúkdóma eða færniskerðingar.  Þeir vonast frekar eftir því að heilsan sé nógu góð til að geta lifað lífinu lifandi og leggja líka áherslu á félagsleg tengsl, viðhorf til lífsins og geta yfirleitt litið sáttir um öxl,“ sagði Ragnheiður Kristjánsdóttir.

„Í lok 20. aldar komu fram nýjar stefnur í öldrunarfræðum um að leggja áherslu á jákvæðar hliðar öldrunar, enda lifði fólk lengur og væri almennt heilsuhraust á efri árum. Líta ætti á lífsþrótt aldraðra en ekki einblína á veikindi þeirra og sjúkdóma. Margir eldri borgarar lifðu góðu lífi á efri árum og leggja ætti áherslu á hvernig fjölga mætti í þeim hópi.

Fram komu mismunandi líkön um farsæla öldrun en frá ólíkum sjónarhornum. Þekktast var líkan tveggja lækna þar sem sjónum var frekar beint að þáttum sem hafa áhrif á öldrun, svo sem hreyfingu, mataræði og félagslega þætti, en að líta á heilsubrest sem eðlilegan fylgikvilla aldurs.

Rannsóknir voru gerðar út frá líkaninu og þá sýndi sig að „nálarauga“ þess var of þröngt. Líkanið gerði ráð fyrir að einungis 15-20% myndu eldast farsællega en þegar fólkið sjálft í sömu rannsókn var spurt álitu 50-70% sig eldast farsællega.

Mér þótti sérlega áhugavert að af þeim 15-20%, sem komust í gegnum nálarauga líkansins með frábæra heilsu og færni, taldi þriðjungur þeirra sig EKKI eldast farsællega. Líkamleg heilsa virðist því ekki vera algjör forsenda farsællar öldrunar, á hvorn veginn sem er.“

Áhyggjur af þeim sem búa einir

„Ég hef áhyggjur af þeim 9.000 öldruðum sem búa einir og hafa margir hverjir „engar axlir til að halla sér að“. Fjallað var opinberlega í vetur um fólk sem býr eitt og útskrifast af spítala. Það fer heim til sín, hefur enga til að aðstoða sig og nærist jafnvel lítið sem ekkert svo dögum skiptir.Þetta tel ég vera alvarleg mistök í heilbrigðiskerfinu. Afleiðingin er aukin hætta á að heilsufar viðkomandi versni enn frekar og þeir lendi fyrir vikið á sjúkrahúsi á nýjan leik,“ sagði Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir og benti á „sterkar andstæður“ slíks ástands, til dæmis heilsurækt í Sóltúni í Reykjavík og heilsueflingu fyrir eldri borgara sem Janus Guðlaugsson íþrótta- og heilsufræðingur er drifkraftur í.

„Hreyfing og heilsuefling getur lengt skeið góðrar heilsu um 5-10 ár og frestað því hjá mörgum manninum að fara á hjúkrunarheimili. Samfélagsleg gildi slíks er því mikið.

Þessu tengt er mataræðið og í þeim efnum er ýmislegt á döfinni. Gerðar eru tilraunir með mat fyrir þá sem búa einir og lagt upp úr því að hann sé litríkur, fallegur og girnilegur á að líta. Mjólkursamsalan undirbýr markaðssetningu á Hleðslu með hærra hlutfall próteins, Grímur kokkur í Eyjum býr til plokkfisk með meiri osti í og enn eitt dæmið af þessu tagi er skyr með meiri rjóma.“

Þórunn vék líka að ferðalögum og áhuga fólks á öllum aldri að fara um kunnar eða ókunnar slóðir.

„Aldraðir vilja ferðast, líka þeir sem eru að tapa heilsu. Við verðum að bæta í og styrkja ferðaþjónustuna eins og þarf í þessu ljósi. Þar þarf til dæmis að hafa í huga hótelherbergin. Þau henta ekki öllum og við því þarf að bregðast.

Þegar öllu er á botninn hvolft vill fólk lifa lífinu lifandi alla leið og vera fullgilt í samfélaginu.“

Einmana fólk er meðal vor en sést kannski ekki ...

Á rokkhátíðarfundinum á Akureyri var dreift bæklingnum Örugg efri ár sem Slysavarnafélagið Landsbjörg gaf út í apríl 2018 í samstarfi við Landssamband eldri borgara.Sömuleiðis var kynntur bæklingurinn Einmanaleiki meðal eldra fólks sem Öldrunarheimili Akureyrar og Velferðarsvið Reykjavíkurborgar gáfu út í febrúar 2018. Einn frummælenda á fundinum, Halldór S. Guðmundsson, og Berglind Magnúsdóttir sálfræðingur þýddu textann úr dönsku og aðlöguðu íslenskum aðstæðum. Þar stendur meðal annars eftirfarandi:

Vissir þú að ...

  • 17-23% Íslendinga eldri en 67 ára upplifa sig oft eða stundum einmana?
  • sumt eldra fólk sem upplifir einmanaleika er í sambandi við hið opinbera og í sjálfboðaliðastarfi? Þau eru meðal okkar en við sjáum þau kannski ekki.
  • þriðji hver eldri borgari sem upplifir einmanaleika talar ekki við neinn um það?
  • þú getur valið um að vera einn en þú velur ekki að vera einmana!
   
Previous
Previous

Hello world!

Next
Next

Lífsblómið − Fullveldi Íslands í 100 ár