Starfshópur fjalli um kjör aldraðra
Skipaður verður starfshópur til að fjalla um kjör aldraðra, draga upp mynd af ólíkum aðstæðum þeirra og gera tillögur um hvernig bæta megi kjör þeirra sem lökust hafa. Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögu Ásmundar Einars Daðasonar félags- og jafnréttismálaráðherra þessa efnis.Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að styrkja þurfi sérstaklega stöðu þeirra sem standa höllum fæti. Er þar lagt til að gerð verði sérstök úttekt á kjörum tekjulægstu hópanna í íslensku samfélagi, gerðar tillögur til úrbóta og þeim fylgt eftir.Í minnisblaði félags og jafnréttismálaráðherra til ríkisstjórnarinnar er bent á að þótt margir eldri borgarar búi við góð lífskjör sé hluti hópsins með afar takmörkuð eða engin réttindi úr lífeyrissjóðum og stundi ekki launaða vinnu. Þeir sem þannig eru settir þurfi nær eingöngu að reiða sig á ellilífeyri almannatrygginga og greiðslur honum tengdum sér til framfærslu.Miklar breytingar voru gerðar á ellilífeyri almannatrygginga sem tóku gildi 1. janúar 2017 sem urðu mörgum eldri borgurum kjarabót. Engu að síður stendur hluti þeirra höllum fæti, hefur lágar tekjur sér til framfærslu, er á almennum leigumarkaði og jafnvel skuldsettur. Einnig býr sá hópur sem ekki hefur áunnið sér full réttindi til almannatrygginga vegna búsetu erlendis, til dæmis innflytjendur, oft á tíðum við kröpp kjör.Starfshópurinn verður skipaður fulltrúum forsætisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og velferðarráðuneytis, auk fulltrúa frá Landssamtökum eldri borgara. Velferðarráðuneytið mun leggja hópnum til starfsmann og gert er ráð fyrir að fleiri verði kallaðir að vinnu hópsins eftir efnum og þörfum.