"Þetta er skref í rétta átt" segir formaður LEB

Almennt frítekjumark ellilífeyris hækkar samkvæmt fjárlagafrumvarpinu um 46% eða sem nemur 138.000 krónum á ári á einstakling. Fyrirhugaðar breytingar taka gildi þann 1. janúar nk. og fylgir ellilífeyrir eftir það reglubundinni hækkun á bótum almannatrygginga, líkt og á við um frítekjumörk í örorkulífeyriskerfinu eftir lagabreytingar þar að lútandi síðastliðið vor.

"Þetta er skref í rétta átt, lítið skref, en skref þó", segir Helgi Pétursson formaður LEB.  "Við höfum lagt mikla áherslu á að bæta kjör þeirra sem verst standa og hitt alla sem málið varðar að undanförnu. Nú er fyrirhugað að greina mun betur en gert hefur verið, þá sem lægstan lífeyri hafa, og við höfum mælt með sértækum aðgerðum fyrir þau.  Þessi hækkun á almenna frítekjumarkinu er hækkun í 36.500 kr. úr 25.000 kr. sem hafði ekki breyst síðan 2017. Það sjá allir að hér eru ekki stórar fjárhæðir á ferðinni, en þetta er í áttina og marga munar um þetta."

Í frumvarpinu er einnig kveðið á um 200 milljóna króna viðbótarframlag vegna Gott að eldast en þar taka stjórnvöld utan um þjónustu við eldra fólk með nýjum hætti.

Þá hækka bætur almannatrygginga um 4,3% nú um áramótin vegna launa og verðlags. Hækkunin nemur 4,5 milljörðum króna vegna örorku og endurhæfingar og 5 milljörðum króna vegna ellilífeyris.

Previous
Previous

Flutningur skrifstofu LEB

Next
Next

Fundur LEB með þingflokki Framsóknarflokksins