Tími til að þakka
Ráðgjafanefnd Landspítala hefur sent frá sér eftirfarandi pistil:Alla 365 daga ársins ganga þúsundir heilbrigðisstarfsmanna til vinnu sinnar við umönnun og lækningu þeirra sem á þurfa að halda. Þetta eru krefjandi störf þegar best lætur, vaktir þar sem allur sólarhringurinn er undir, virka daga og helga. Skjólstæðingar og fjölskyldur eru oft á erfiðasta tíma í lífi sínu. Hér er teflt um heilsu og vanlíðan, líf og dauða. Og þetta er þegar best lætur.Nú eru aðrir og erfiðari tímar, fordæmalausir. Við reiðum okkur á að starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar gangi áfram æðrulaust til starfa undir ógn sem enginn hefur enn fundið leið til að bægja frá og steðjar að öllu mannkyninu. Mörg okkar hinna getum verið í fjarvinnu heima eða skýlt okkur með öðrum hætti en við treystum á að sjúkraflutningafólk, hjúkrunarfræðingar, læknar, sjúkraliðar, auk fjölmargra annarra starfsstétta láti hvergi deigan síga. Þau vita að þeirra eigin heilsa og velferð sjúklinganna sem þau annast getur oltið á því að þau haldi vöku sinni, alls staðar og alltaf. Framvarðarsveit Landspítala býðst ekki að „vinna að heiman“ í sóttvarnarskyni. Þau vinna mörg sín verk klædd íþyngjandi hlífðarbúnaði á löngum vöktum og verða síðan að treysta því að þau beri ekki ófögnuðinn með sér heim til sinna nánustu.Við treystum þessu fólki til verka því við þekkjum árangurinn. Dánartíðni þeirra sem smitast af þessari skelfilegu veiru er lægri hér en í flestum nágrannalöndum okkar. Það er að þakka góðu skipulagi á sjúkrastofnunum, þekkingunni sem býr í starfsfólkinu, rannsóknum og síðast en ekki síst þeirri alúð og samviskusemi sem heilbrigðisstarfsfólk sýnir í verkum sínum.Í upphafi farsóttarinnar töldum við mörg að þetta myndi ganga skjótt yfir. Við þyrftum bara að standa af okkur þessa einu öldu og svo myndi allt snúast til fyrra horfs. Við vorum svo lánsöm að eiga heilbrigðiskerfi, stofnanir og starfsfólk sem á undraskömmum tíma löguðu sig að þessum nýja vágesti og tókst að bægja ógninni frá. Við vorum lánsöm að eiga fyrirtæki og vísindamenn sem léku lykilhlutverk í þessari baráttu. Við vorum lánsöm að eiga Þríeykið. Við vorum lánsöm að finna styrk í að standa saman um aðgerðir sem við gátum tekið þátt í hvert og eitt. Við áttum fyrir vikið gott sumar en það reyndist svikalogn. Þörf okkar fyrir mannlega nánd og samveru opnaði veirunni leið um samfélagið á ný. Og enn og aftur horfum við til sama fólks og sömu stofnana og fyrirtækja til að standa vaktina, greina, hjúkra, lækna og hugga. Við þurfum enn og aftur að treysta á að þau endurskipuleggi líf sitt og starf í snarhasti og leggi sig í hættu til að taka af okkur höggið.Landspítali er stærsti vinnustaður landsins. Þar starfa tæplega 6.000 manns. Í Ráðgjafarnefnd Landspítala situr breiður hópur einstaklinga sem starfar utan veggja spítalans. Nefndinni er ætlað að vera forstjóra og framkvæmdastjórn til ráðgjafar og álits um starfsemi, rekstur og langtímastefnumótun og að vera rödd samfélagins. Við höfum kynnst þeim þungu áskorunum sem hafa fylgt starfi spítalans á tímum Covid-19 og teljum brýnt að vekja athygli á því stórkostlega hlutverki sem Landspítali, starfsfólk hans og stjórnendur gegna í baráttunni við þessa vá og með hvaða hætti spítalinn hefur treyst og styrkt samstarf við heilbrigðiskerfið og vísindasamfélagið til að gera okkur fært að fást við þennan vágest.Allir hlutir hafa sinn tíma. Nú er tími til að standa þétt við bakið á fólkinu í framlínunni. Nú er tími til að þakka fólkinu sem leggur sig að veði fyrir okkur hin.Ráðgjafarnefnd LandspítalaKristín Ingólfsdóttir formaðurÓskar Reykdalsson varaformaðurÁlfheiður IngadóttirHenný HinzJón KristjánssonPétur MagnússonVilmundur GuðnasonÞórunn SveinbjörnsdóttirÞuríður Harpa Sigurðardóttir Pistillinn birtist fyrst í Fréttablaðinu 30. október 2020