Veikir þurfa próteinríka fæðu
Í drögum að ráðleggingum um mataræði fyrir hrumt og veikt eldra fólk, sem embætti landlæknis hefur birt í samstarfi við rannsóknarstofu Háskóla Íslands og Landspítala í öldrunarfræðum, er lagt til að veikt eldra fólk auki próteininntöku sína til muna.„Próteinið skiptir gífurlega miklu máli og líkaminn þarf á því að halda sérstaklega ef hann er að berjast við vandamál. Fólk sem er í styrktarþjálfun eða að keppa í íþróttum bætir próteindufti í matinn sinn og ef þú ert með litla lyst eru til leiðir til þess að hjálpa þér,“ segir Anna Birna Jensdóttir, forstjóri á hjúkrunarheimilinu Sóltúni.Hún situr í faghópnum sem vann ráðleggingarnar. Matarlyst minnkar oft með hækkandi aldri en þörf fyrir vítamín og steinefni er nánast óbreytt en próteinþörfin eykst, segir í drögunum. Anna segir að það væri góð leið fyrir eldri borgara að mæta þessari þörf, t.d með því að bæta próteindufti í drykki sína.