Víðtækt samstarf ríkis, sveitarfélaga, fagaðila og hagsmunaaðila í þágu viðkvæmra hópa vegna Covid 19

 - mynd

 

Félags- og barnamálaráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga rituðu í dag, 17. mars, undir samstarfsyfirlýsingu til aðgerða sem miða að því að takast á við þær áskoranir sem stofnanir ríkisins, félagsþjónusta og aðrir aðilar sem sinna þjónustu við viðkvæma hópa í landinu standa frammi fyrir vegna Covid-19 veirunnar. Með yfirlýsingunni er boðað til víðtæks samstarfs ríkis, sveitarfélaga, fagaðila og hagsmunaaðila um allt land svo tryggja megi öryggi og nauðsynlega þjónustu fyrir þá sem mest þurfa á henni að halda m.a. fatlað fólk, aldraða og börn og fjölskyldur.

Viðbragðsteymi um þjónustu við viðkvæma hópa

Stofnað hefur verið, í samvinnu við almannavarnardeild ríkislögreglustjóra, viðbragðsteymi um þjónustu við viðkvæma hópa sem mun vinna með markvissum hætti, og í náinni samvinnu við aðila sem sinna hagsmunagæslu og/eða þjónustu við viðkvæma hópa,  að því að draga úr rofi á þjónustu.Teymið hefur það hlutverk að safna og miðla upplýsingum, meta stöðu sem upp getur komið og eftir atvikum bregðast við áhrifum Covid-19 faraldursins á mikilvæg þjónustukerfi á landsvísu, m.a. ef upp kemur sú staða að ekki sé mögulegt að veita lágmarksþjónustu til tiltekinna hópa eða einstaklinga til skemmri eða lengri tíma.Ábendingar og fyrirspurnir til viðbragðsteymisins sendist á vidbragd@frn.is.

Bakvarðasveit velferðarþjónustu

Fyrirsjáanlegt er að þjónustuaðilar sem sinna mikilvægri þjónustu við viðkvæma hópa muni á  næstunni þurfa að takast á við mönnunarvanda vegna Covid–19 veirunnar. Sökum þess hafa viðeigandi ráðuneyti og Samband íslenskra sveitarfélaga í samráði við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra ákveðið að farið verði að fordæmi heilbrigðisyfirvalda sem nýlega komu á fót bakvarðasveit heilbrigðisþjónustu. Á heimasíðu félagsmálaráðuneytisins hefur nú verið opnað sérstakt skráningarform fyrir fólk sem hefur þekkingu og reynslu úr velferðarþjónustu og er reiðubúið að koma tímabundið til starfa í þjónustu við viðkvæma hópa, hjá ríki eða sveitarfélögum, með skömmum fyrirvara.

Viðbragðssjóður ríkis og sveitarfélaga

Ríki og sveitarfélög hafa samhliða þessum aðgerðum ákveðið að settur verði upp viðbragðssjóður sem muni, ef þörf verði á, veita svigrúm til nauðsynlegra aðgerða vegna áhrifa Covid-19 faraldursins í félagsþjónustu sem og í sértækari þjónustu við viðkvæma hópa.

Previous
Previous

Stjórn LEB ályktar um nauðsynlegar aðgerðir í þágu eldra fólks

Next
Next

NÝ DAGSETNING Landsfundar LEB: 9. júní - Boðaður með fyrirvara